„Það sem gefur mér mikinn innblástur í starfinu er að ég trúi því fastlega að fiskeldi á Íslandi sé komið til að vera,“ segir Hjörtur.
„Það sem gefur mér mikinn innblástur í starfinu er að ég trúi því fastlega að fiskeldi á Íslandi sé komið til að vera,“ segir Hjörtur. — Morgunblaðið/Eggert
Sá mikli gangur sem hefur verið í uppbyggingu á fiskeldi hér á landi hefur vakið nokkra athygli. Fjölmörg störf hafa orðið til í greininni og dæmi er um að einstaklingar eigi að baki langan og góðan feril, líkt og við á í tilviki Hjartar

Sá mikli gangur sem hefur verið í uppbyggingu á fiskeldi hér á landi hefur vakið nokkra athygli. Fjölmörg störf hafa orðið til í greininni og dæmi er um að einstaklingar eigi að baki langan og góðan feril, líkt og við á í tilviki Hjartar. Hann er 33 ára gamall en hefur starfað hjá Arnarlaxi í mörg ár og unnið sig upp innan fyrirtækisins. Fyrr á þessu ári tók hann við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og tók sæti í framkvæmdastjórn félagsins.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Þar sem við störfum í laxeldi á Íslandi myndi ég telja að helsta áskorunin í rekstrinum væri þessi óvissa sem ríkir varðandi lagaumhverfið. Nefna má nýtt frumvarp um lagareldi sem var lagt fram á Alþingi á vormánuðum og var það tvísýnt lengi hvort það færi í gegn. Í dag hefur það ekki enn verið samþykkt og svona óvissa er mjög vond fyrir alla sem tengjast rekstrinum. Hvort sem það eru fyrirtækin í greininni, fyrirtæki sem sinna afleiddum störfum eða fjárfestar sem hafa hug á að fjárfesta í fiskeldi.

Einnig verð ég að nefna þessa neikvæðu ásýnd atvinnugreinarinnar síðastliðið ár. Það er leitt að viðhorfið til greinarinnar sé svona neikvætt og þá helst á svæðum eins og á höfuðborgarsvæðinu þar sem fiskeldi er ekki stundað. Þessi atvinnugrein er gríðarlega mikilvæg fyrir svæði eins og t.d. sunnanverða Vestfirði þar sem ekki eru margir aðrir möguleikar á atvinnuuppbyggingu. En það eina sem atvinnugreinin getur gert er að halda áfram að segja frá því sem við erum að gera vel, ásamt því að upplýsa og fræða fólk. Svo er klárlega rúm fyrir greinina að bæta sig.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Síðasta ráðstefna sem ég sótti var IAOF-ráðstefnan (Icelandic aquaculture & ocean forum) í Arion banka. Hún var mjög vel heppnuð að mínu mati og var sótt af mörgum í greininni. Hins vegar erum við að fara inn í mikið ráðstefnutímabil núna og ég hlakka mikið til Lagarlífs þann 8.-9. október næstkomandi. Ég sit í stjórn þar og hefur þessi ráðstefna farið sívaxandi síðustu ár og stefnir í metþátttöku í haust, en ráðstefnan var einmitt færð yfir í Hörpu þetta árið. Á Lagarlífs-ráðstefnunni koma saman langflestir sem á einhvern hátt tengjast fiskeldi á Íslandi. Þarna verður frábært tækifæri til að hitta fólk, kynnast hinum ýmsum hliðum lagareldis og mynda tengsl.

Hvernig heldur þú þekkingu þinni við?

Atvinnugreinin í heiminum er í raun tiltölulega ný eða um 60 ára og á þessum skala hér á Íslandi er hún frekar ný eða rétt rúmlega 10 ára. Framþróun í greininni er þó mikil og hröð þannig að í raun lærir maður eitthvað nýtt á hverjum degi. Ég reyni líka að fylgjast með nýjum vísindagreinum og tímaritum sem koma út og snúa að laxi og fiskeldi.

Hugsarðu vel um heilsuna?

Þetta er eitt af því sem eflaust flestir geta bætt sig í en ég reyni að hreyfa mig reglulega. Ég fer mikið í sund og spila golf, en það er því miður bara hægt hluta úr ári. Annars finnst mér einnig gott að fara í göngutúra með góða hljóðbók og kúpla mig frá amstri dagsins.

Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Þar sem ég er með meistaragráðu í fiskeldistengdri líffræði og eldi, þá væri ég til í að styrkja mig á sviðum viðskipta og fjármála. Þar sem laxeldi er ofboðslega víðtæk grein tel ég að það gæti komið sér vel að læra betur inn á þann hluta atvinnugreinarinnar.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Maður þarf að passa vel upp á svefninn og hlaða batteríin þegar tími gefst. Eins og ég kom inn á þá getur verið nokkuð krefjandi að vinna í fiskeldi á Íslandi þessa dagana, þannig að maður þarf líka að lágmarka samfélagsmiðlana, sérstaklega þegar umfjöllunin er neikvæð og láta það ekki hafa bein áhrif á sig. Það sem gefur mér mikinn innblástur í starfinu er að ég trúi því fastlega að fiskeldi á Íslandi sé komið til að vera. Atvinnugreinin stefnir í og hefur alla burði til að verða einn af mikilvægustu stólpunum í íslensku efnahagslífi innan fárra ára. Það er á ábyrgð okkar og hinna fyrirtækjanna að gera þetta vel og í sátt og samlyndi við samfélagið og umhverfið.

Hin hliðin

Nám: Menntaskólinn við Sund, 2011; Háskóli Íslands, líffræði 2016; Háskólinn í Bergen, M.Sc. í líffræði á sviði lagareldislíffræði, 2023.

Störf: Aðstoðarmaður gæðastjóra hjá Arnarlaxi og síðar „biological controller“ frá 2017-2019, sérfræðingur í fiskeldi hjá Matvælastofnun frá 2019-2021, verkefnastjóri viðskiptaþróunar hjá Arnarlaxi frá 2021 og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar frá 2024. Sit auk þess í framkvæmdastjórn Arnarlax.

Áhugamál: Samvera með fjölskyldu og vinum er efst á blaði. Þá eru íþróttir og útivist einnig ofarlega og má helst nefna golf, knattspyrnu, sund, útilegur, skotveiði og stangveiði. Svo búum við á Íslandi og því er nauðsynlegt að eiga sér „inni“-áhugamál líka. Ég hef gaman af borðspilum og svo kíkir maður þegar tækifæri gefst í tölvuleiki og þá helst í Counter Strike með góðum vinum.

Fjölskylduhagir: Ég er í sambandi með Bylgju Sif Jónsdóttur sjávarlíffræðingi hjá Hafrannsóknastofnun. Ég á dótturina Helgu Dís úr fyrra sambandi og við Bylgja eigum von á barni í janúar næstkomandi.