[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Franska knattspyrnufélagið París SG hefur samþykkt rúmlega 50 milljóna punda tilboð enska félagsins Manchester United í úrúgvæska miðjumanninn Manuel Ugarte. Ugarte var aðeins í eitt tímabil hjá PSG en franska félagið keypti hann frá Sporting í Portúgal fyrir síðasta tímabil

Franska knattspyrnufélagið París SG hefur samþykkt rúmlega 50 milljóna punda tilboð enska félagsins Manchester United í úrúgvæska miðjumanninn Manuel Ugarte. Ugarte var aðeins í eitt tímabil hjá PSG en franska félagið keypti hann frá Sporting í Portúgal fyrir síðasta tímabil. Miðjumaðurinn byrjaði 21 leik fyrir Parísarliðið á síðustu leiktíð en þrátt fyrir það átti enginn fleiri heppnaðar tæklingar í frönsku 1. deildinni en sá úrúgvæski. Ugarte, sem er 23 ára, hefur leikið 22 leiki með A-landsliði Úrúgvæ.

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Joao Cancelo er á leiðinni til Al-Hilal frá Sádi-Arabíu. Hann gengur til liðs við félagið frá Englandsmeisturum Manchester City en Cancelo hefur ekki leikið með liðinu síðasta eina og hálfa árið eftir rifrildi við knattspyrnustjórann Pep Guardiola. Hefur hann verið að láni hjá Bayern München og Barcelona undanfarna 18 mánuði. Hann hefur einnig leikið með Benfica, Valencia, Inter Mílanó og Juventus. Al-Hilal mun greiða City 21,2 milljónir punda.

Landsliðskonurnar Ásta Júlía Grímsdóttir, Dagbjört Dögg Karlsdóttir og Sara Líf Boama hafa allar framlengt samning sinn við körfuknattleiksdeild Vals og leika áfram með liðinu á komandi tímabili. Eru þær allar í lykilhlutverki hjá Val og er um góðar fréttir fyrir liðið að ræða. Valur tapaði fyrir Njarðvík í átta liða úrslitum Íslandsmótsins á síðustu leiktíð.

Körfuknattleiksmaðurinn Jure Boban er genginn til liðs við Skallagrím. Skallagrímsliðið leikur í næstefstu deild íslenska körfuboltans en Boban kemur til félagsins frá efstu deild í Króatíu, heimalandinu. Hann er tveir metrar á hæð. Þá kemur fram í tilkynningu frá Skallagrími að Króatinn sé góð skytta, öflugur varnarmaður og mikill íþróttamaður.

Íslendingalið Kolstad fór afar illa með Rapp í 32-liða úrslitum norska bikarsins í handknattleik karla í kvöld. Kolstad vann leikinn með 36 mörkum, 53:17, og er komið í 16-liða úrslit. Sveinn Jóhannsson skoraði sjö mörk fyrir Kolstad en Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði ekki. Sigvaldi Björn Guðjónsson er þá fjarverandi vegna meiðsla.

Tyrkneski landsliðsmaðurinn Ferdi Kadioglu er genginn til liðs við Brighton frá Fenerbahce í heimalandinu. Kadioglu er keyptur á yfir 25 milljónir punda og skrifar undir fjögurra ára samning við enska liðið.

Stefán Teitur Þórðarson og liðsfélagar hans í Preston eru komnir áfram í 3. umferð enska deildabikarsins í knattspyrnu. Preston vann D-deildarlið Harrogate, 5:0, á útivelli í gærkvöldi og tryggði sig áfram. Hin Íslendingaliðin sem spiluðu um kvöldið töpuðu öll. Arnór Sigurðsson með Blackburn, Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted með Birmingham, Guðlaugur Victor Pálsson með Plymouth og Jason Daði Svanþórsson með Grimsby Town.