Rithöfundurinn Alphonse Daudet skrifar óvenjulega dagbók um glímu sína við ólæknandi sjúkdóm sem fylgdu miklar kvalir.
Rithöfundurinn Alphonse Daudet skrifar óvenjulega dagbók um glímu sína við ólæknandi sjúkdóm sem fylgdu miklar kvalir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagbók Í landi sársaukans ★★★★· Eftir Alphonse Daudet. Gyrðir Elíasson þýðir og ritar inngang. Dimma, 2024. Kilja, 109 bls.

Bækur

Einar Falur Ingólfsson

Fyrir sex áratugum gaf Mál og menning út þýðingu Helga Jónssonar á hinu hrífandi verki franska höfundarins Alphonse Daudets (1840-1897) Bréf úr myllunni minni. Það er óvenjulegt en um leið fallega heildstætt bókmenntaverk sem hefur verið skilgreint sem safn smásagna en samanstendur af ýmiss konar sagnaþáttum, ævintýrum og stemningum sem fanga andrúmsloft Provence-héraðs í Suður-Frakklandi. Daudet var rúmlega tvítugur blaðamaður í París þegar hann hreifst af verkum skáldsins Mistals sem var frá Provence og vildi Daudet kynnast betur sérstöku tungumáli og menningu þess fallega svæðis. Hann hélt því suður á bóginn og sökkti sér í próvensku menninguna, sem varð honum að ríkulegu söguefni. Átti hann eftir að dvelja þar reglulega, og einkum í Fontvieille í meira en þrjá áratugi og gerði þar myllurúst að sögusviði þessarar þekktustu bókar sinnar. Myllan var gerð upp fyrir löngu og þar er safn um höfundinn; ég var um tvítugsaldurinn svo hrifinn af þessari bók að ég gerði mér ferð að heimsækja mylluna og endurlesa bókina þar á staðnum.

Á sínum tíma var Alphonse Daudet meðal þekktustu og vinsælustu rithöfunda Frakka, og það sópaði að honum í menningarlífinu. En í dag má hann heita gleymdur og helst að Bréf úr myllunni minni haldi nafni hans á lofti og mun hún vera endurútgefin af og til hér og þar. Má taka undir þau orð þýðandans Gyrðis Elíassonar í upplýsandi inngangi að Í landi sársaukans, að vel væri athugandi að endurprenta myllubréfin á íslensku. Önnur bók eftir Daudet sem heldur nafni hans á lofti er svo þetta óvenjulega verk, Í landi sársaukans. Þetta eru eins konar dagbókarskrif, mjög brotakennd, sem fyrst birtust mörgum áratugum eftir lát höfundarins. Mögulega ætlaði hann sér að vinna seinna úr þessum skrifum en í dag er dáðst að því hversu fallega stílaður texti þetta er, þótt hann hafi ekki verið frágenginn til útgáfu, og skrifin eru lesin sem einstaklega merkileg heimild um líðan dauðveiks manns.

Á undanförnum áratugum hefur Gyrðir auðgað íslenskt bókmenntalíf með þýðingum á tugum verka eftir afar ólíka höfunda, í prósa og ljóðum; höfunda frá ýmsum löndum, sem hann hefur fundið hjá sér þörf fyrir að þýða og færa inn í íslenskan bókmenntaheim. Verk sem hafa oft kallast á við hans eigin skrif með misaugljósum hætti en eru undantekningarlaust áhrifarík og þýðingarnar frábærlega vel stílaðar. Þessi skrif Daudets fjalla um og lýsa líðan hans í glímunni við sárasótt, sjúkdóm sem hann hafði smitast af á vændishúsi, var ólæknandi á þessum tíma, og dró hann til dauða eins og svo marga aðra listamenn. Eins og Gyrðir skrifar í innganginum lýsir Daudet „sjúkdómsferlinu og hrossalækningunum sem því fylgdu af næstum klínískri nákvæmni, og aðdáunarverðri stóískri ró“, (5) en ólíkt mörgum öðrum sem sárasóttin lagði að velli hélt Daudet andlegu atgervi til loka, þótt líkaminn hrörnaði jafnt og þétt.

Eins og fyrr segir er Í landi sársaukans sett saman af dagbókarfærslum þar sem Daudet lýsir líðan sinni, iðulega miklum kvölum og alls kyns meðferðum, eins og löngum setum í böðum, og svo lyfjum sem dælt er í hann, klórali og endalaust morfíni. Á þessum tíma var sjúkdómsgreiningin strax dauðadómur, ávísun um hægan og grimman dauða – „Þetta er sjúkdómur sem mun vara ævilangt,“ skrifar Daudet snemma í sjúkdómsferlinu, segir að sársaukinn finni sér alls staðar smugur, „inn á sjónsvið mitt, tilfinningar mínar, dómgreind mína, hann síast inn“ og hann bætir við að hann geti tímasett hvert einasta augnablik kvalastunda sinna (33). Og lýsingarnar á sársaukanum eru oft furðulega yfirvegaðar en um leið átakanlegar:

„Í kvöld; kvöl sem er einsog hrekkvís lítill fugl sem hoppar hingað og þangað, þar sem ég sting nálinni, yfir alla útlimi mína, og síðan beint inn í liðamót mín. En sprautan hittir ekki í mark, misheppnast síðan á ný, og sársaukinn er beittari í hvert sinn […] Tvö eða þrjú skipti þegar áhrif morfínsins hafa ekki náð markmiði sínu vegna hitasóttarlyfs. Leiftur í sársauka í fótleggjum, vöðvar kramdir líkt og undir vagni, og í litla fingri er spjót sem nístir hann“ (38). Og í framhaldinu skrifar hann að sinn aumi skrokkur sé eins og tæmdur af blóði og kvalirnar bergmála gegnum hann eins og „bergmál í húsi sem er án húsgagna eða gluggatjalda. Stundum eru dagar, langir dagar, þegar það eina af mér sem er lifandi er sársaukinn.“

Stundum lýsir Daudet veru á heilsuhælum og meðferðarstofnunum, og bregður upp áhrifaríkum lýsingum á samfélagi hinna dauðveiku þar innan veggja og margir glíma við sama banvæna kynsjúkdóminn. Og alltaf eru þessar skáldlegu en um leið yfirveguðu lýsingar á líðan hans sjálfs: eins og þar sem segir að á morgnana séu hendur hans þvermóðskulega krepptar ofan á sænginni, „einsog dauð laufblöð, sem allur safi hefur pressast úr“ (54). Og hann veltir fyrir sér hvernig hann vinni úr þessari reynslu sinni í skrifum, hann vill ekki að næsta bók sín verði of harðneskjuleg: „Vesalings mannkynið – maður á ekki að segja því allt. Ég ætti ekki að varpa yfir á fólk því sem ég hef orðið að þola, þessum sársaukafullu og í mínum augum alltof augljósu ævilokum mínum.“ (55).

Í bókarlok er fjöldi mikilvægra og ítarlegra neðanmálsgreina sem skýra textann og frásögnina á margvíslegan hátt, hvort sem um persónur í menningarlífinu í Frakklandi á tíma Daudets er að ræða eða frekar skýringar á glímu höfundarins við sýfilisinn.

Í innganginum skrifar Gyrðir að það hvernig Daudet nær að skrifa af óhvikulli einurð um alvarleika sjúkdómsins og lýsa lífinu með byrði slíkra veikinda, sýni sálarstyrk hans. Vonar þýðandinn að þetta litla kver geti ef til vill orðið að liði einhverjum þeim sem eiga í baráttu við erfiða sjúkdóma, „því þótt hér sé fjallað um sértæk veikindi, er oft ýmislegt sameiginlegt með sálrænni, og jafnvel líkamlegri reynslu sjúklinga með gerólíkar meinsemdir“ (10). Gyrðir bætir við að „fyrir utan „stóískt“ gildi þessarar sjúkdómssögu, er líka ljóst að bókmenntalegt vægi hennar er hafið yfir allan vafa, þar sem sýn [Daudets] á veröldina helst einkennilega skýr og fersk“. Óhætt er að taka undir það og munu dæmi um að læknar mæli með því við sjúklinga að þeir lesi þessi óvenjulegu og yfirveguðu dagbókarbrot höfundarins sem vissi að lækning á meini hans væri ekki til.