Lónsstaða í lónum virkjana er ekki nægjanlega góð að sögn Björns Arnars Haukssonar.
Lónsstaða í lónum virkjana er ekki nægjanlega góð að sögn Björns Arnars Haukssonar. — Morgunblaðið/RAX
Árlegar fjárfestingar í raforkukerfinu á Íslandi munu fara stigvaxandi á næstu fimm árum og ná allt að 200 milljörðum árið 2028. Þetta kemur fram í nýútkomnum Raforkuvísum Orkustofnunar. Fyrirséð er að fjárfestingar raforkugeirans geti orðið allt að …

Árlegar fjárfestingar í raforkukerfinu á Íslandi munu fara stigvaxandi á næstu fimm árum og ná allt að 200 milljörðum árið 2028. Þetta kemur fram í nýútkomnum Raforkuvísum Orkustofnunar.

Fyrirséð er að fjárfestingar raforkugeirans geti orðið allt að 20% af heildarfjárfestingum á Íslandi um nokkurra ára skeið við lok áratugarins.

Björn Arnar Hauksson, deildarstjóri greininga og gagnavinnslu hjá Orkustofnun, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að þar með verði fjárfestingar raforkugeirans orðnar svipaðar að umfangi og þær voru á árunum 2004-2008 þegar m.a. Kárahnjúkavirkjun var í smíðum.

Til samanburðar hafa fjárfestingar raforkugeirans undanfarin ár verið á bilinu 5-10% af heildarfjárfestingum á Íslandi.

Stærstur hluti fjárfestinga í raforkukerfinu er í aukinni raforkuvinnslu en einnig eru verulegar fjárfestingar áætlaðar í flutningi og dreifingu raforku sem styðja m.a. við orkuskipti og aukna orkunýtni.

Áhrifa verði vart

Eins og Björn bendir á er mögulegt að áhrifa verði vart í hagkerfinu vegna hinna auknu fjárfestingar líkt og varð á árunum 2004-8. „Ríkisfjármálin þurfa því að taka mið af því við sína áætlanagerð. Það þarf hugsanlega að samræma tímasetningar annarra fjárfestinga í þessu ljósi. Ég veit að fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn munu nota þessi gögn í sinni áætlanagerð.“

Í Raforkuvísunum er einnig fjallað um orkuskort og mögulegar skerðingar á raforku til skerðanlegra viðskiptavina. Það eru til dæmis loðnubræðslur, smærri iðnfyrirtæki og fjarvarmaveitur. Þessir aðilar fá orkuna á allt að 75% lægra verði en þurfa að búa við hættuna á skerðingum. „Staðan í lónum virkjana er ekki nægjanlega góð og er verri en í fyrra. Því verður þessi orka líklega skert í vetur, a.m.k. að einhverju leyti,“ segir Björn.

Hann segir ástæðu þess að jafn margar virkjanir séu á teikniborðinu nú og raunin er aukna eftirspurn og hærra raforkuverð. „Raforkuverðið var mjög lágt fyrir faraldurinn sem er væntanlega stór ástæða fyrir því að orkuvinnsla jókst ekki meira en raun bar vitni á þeim tíma. Einnig voru stórar virkjanir áður byggðar fyrir einstaka stórnotendur en ekki fyrir almenna aukningu eins og nú er raunin. Nú er raforkuverðið það hátt að fleiri sjá sér hag í að virkja.“