Rússar héldu áfram hörðum loftárásum sínum á Úkraínu í fyrrinótt og gærmorgun, annan daginn í röð. Að minnsta kosti fimm féllu og 15 manns særðust í árásum næturinnar, þar af tveir sem létust þegar eldflaug Rússa sprengdi upp hótel í miðborg Kriví Ríh

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússar héldu áfram hörðum loftárásum sínum á Úkraínu í fyrrinótt og gærmorgun, annan daginn í röð. Að minnsta kosti fimm féllu og 15 manns særðust í árásum næturinnar, þar af tveir sem létust þegar eldflaug Rússa sprengdi upp hótel í miðborg Kriví Ríh. Þá dóu þrír af völdum drónaárása á borgina Sapórísja.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti fordæmdi árásirnar og kallaði þær glæpi gegn mannkyni, en Aurora-hótelið í Kriví Ríh var vinsælt meðal erlendra blaðamanna sem gistu í borginni. Þá var þetta annan daginn í röð sem Rússar skutu á hótel í borgum Úkraínu, en tveir blaðamenn frá Reuters-fréttastofunni særðust í fyrradag þegar eldflaug Rússa sprengdi upp hótel þeirra í Kramatorsk.

Árásir síðustu daga eru með þeim stærstu sem Rússar hafa gert á Úkraínu frá upphafi innrásar þeirra, en talið er að þeim sé meðal annars ætlað að hegna Úkraínumönnum fyrir innrás þeirra í Kúrsk-hérað.

Sóknin heldur áfram í Kúrsk

Þrjár vikur eru nú liðnar frá því að Úkraínumenn réðust inn í héraðið, en Oleksandr Sirskí, yfirmaður allra herja Úkraínu, sagði í gær að sókn þeirra væri þar enn í gangi. Hafa Úkraínumenn nú rúmlega 100 þéttbýlisstaði í héraðinu á valdi sínu, en Sirskí sagði einnig að 594 rússneskir hermenn hefðu verið teknir höndum í aðgerðum Úkraínumanna.

Rússneskir herbloggarar héldu því svo fram í gær að Úkraínumenn hefðu reynt að ráðast inn í Belgorod-hérað, en það liggur á milli Kúrsk-héraðs í Rússlandi og Karkív-héraðs í Úkraínu. Vjatsjéslav Gladkov, héraðsstjóri Belgorod-héraðs, sagði að staðan væri „erfið en undir stjórn“, en samkvæmt herbloggurunum reyndu um 500 úkraínskir hermenn að komast í gegnum landamærin á tveimur stöðum í héraðinu. Úkraínumenn sögðu hins vegar fátt um meintar aðgerðir þeirra í héraðinu.

Úkraínumenn þróa eldflaugar

Selenskí greindi frá því í gær að Úkraínumenn hefðu nú náð að gera tilraunaskot á fyrstu skotflauginni, sem framleidd er alfarið innan Úkraínu, en fyrri eldflaugar Úkraínuhers hafa allar verið stýriflaugar. Skotflaugar eru almennt séð langdrægari og geta borið meira sprengiefni en stýriflaugar, en Selenskí sagðist ekki geta tjáð sig meira um eldflaugina í gær.

Úkraínumenn hafa undanfarin misseri beðið bandamenn sína um leyfi til þess að beita langdrægum eldflaugum af vestrænni gerð á skotmörk innan landamæra Rússlands, en þeir hafa ekki fengið leyfi til þess nema að takmörkuðu leyti.

Forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, sagði í gær að ríkisstjórn sín hefði ekki tekið neinar nýjar ákvarðanir eða breytt um stefnu frá því sem ríkisstjórn Íhaldsflokksins hefði gert á sínum tíma, en Bretar hafa sent langdrægar Storm Shadow-eldflaugar til Úkraínumanna með því skilyrði að þeim verði einungis beitt innan hinna viðurkenndu landamæra Úkraínu.

Ræddi við Pútín um frið

Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, ræddi í gær við Vladimír Pútín Rússlandsforseta símleiðis um heimsókn sína til Kænugarðs á föstudaginn. Sagði Modi við Pútín að Indverjar styddu það að Úkraínustríðinu myndi ljúka sem fyrst með varanlegum friðarsáttmála.

Indverjar hafa forðast að fordæma Rússa fyrir innrásina, á sama tíma og þeir hafa reynt að viðhalda tengslum sínum við Vesturlönd.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson