Mark Zuckerberg
Mark Zuckerberg
Mark Zuckerberg, framkvæmdastjóri tæknirisans Meta, lýsti því yfir í gær að fyrirtæki sitt hefði orðið fyrir þrýstingi frá bandarískum stjórnvöldum um að taka niður ýmsa pósta sem tengdust heimsfaraldri kórónuveirunnar og að rangt hefði verið af Bandaríkjastjórn að beita slíkum þrýstingi

Mark Zuckerberg, framkvæmdastjóri tæknirisans Meta, lýsti því yfir í gær að fyrirtæki sitt hefði orðið fyrir þrýstingi frá bandarískum stjórnvöldum um að taka niður ýmsa pósta sem tengdust heimsfaraldri kórónuveirunnar og að rangt hefði verið af Bandaríkjastjórn að beita slíkum þrýstingi.

Yfirlýsing Zuckerbergs kom í bréfi sem hann sendi dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þar sem hann svaraði spurningum nefndarinnar um nokkur álitamál sem tengjast Meta og Facebook.

Í bréfi sínu sagði Zuckerberg meðal annars að háttsettir embættismenn í ríkisstjórn Bidens Bandaríkjaforseta hefðu „ítrekað þrýst á teymi okkar í marga mánuði að fjarlægja visst efni tengt Covid-19, þar á meðal grín og háðsádeilur, og látið í ljós mikinn pirring við teymin okkar þegar við vorum ekki sammála“. Sagði Zuckerberg að yfirmenn Meta hefðu tekið ákvarðanir vegna þrýstingsins, sem þeir myndu ekki taka ef svipuð staða kæmi upp á ný.

„Ég trúi því að þrýstingur stjórnvalda hafi verið rangur, og ég sé eftir því að við ákváðum að tjá okkur ekki meira út á við um hann,“ sagði Zuckerberg í bréfi sínu, en jafnframt að hann teldi að Meta og Facebook ættu ekki að láta undan þrýstingi varðandi efni á miðlum sínum frá stjórnvöldum, sama hvor flokkurinn væri við völd. Sagði Zuckerberg að Meta væri tilbúið að þrýsta á móti ef eitthvað svipað ætti sér aftur stað.

Zuckerberg sagði einnig í bréfi sínu að hann myndi ekki veita fjármagni aftur til verkefna sem ætlað var að bæta umgjörð á kjörstöðum víða um Bandaríkin, en þingmenn repúblikana höfðu sakað þau verkefni um að hygla demókrötum. Sagði Zuckerberg að markmið hans væri að viðhalda hlutleysi sínu.

Talsmaður Hvíta hússins sagði í gær að Bandaríkjastjórn hefði „hvatt til ábyrgra aðgerða til þess að verja lýðheilsu og öryggi“ í heimsfaraldrinum. Stefna stjórnvalda hefði verið sú að tæknifyrirtæki og aðrir einkaaðilar þyrftu að íhuga hvaða áhrif ákvarðanir þeirra gætu haft á bandarísku þjóðina, á sama tíma og þau tækju sínar eigin ákvarðanir um þær upplýsingar sem fyrirtækin birtu á miðlum sínum.