Landmannaleið Afar vinsæll ferðamannastaður á sumrin.
Landmannaleið Afar vinsæll ferðamannastaður á sumrin. — Morgunblaðið/RAX
Yfir eitt hundrað eru taldir hafa fengið magakveisu á fjölsóttum ferðamannastöðum hér innanlands nýverið samkvæmt tilkynningu frá Embætti landlæknis. Sextíu manns veiktust í tengslum við ferðalag eftir Landmannaleið og yfir fjörutíu hafa veikst nýlega á Laugaveginum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Yfir eitt hundrað eru taldir hafa fengið magakveisu á fjölsóttum ferðamannastöðum hér innanlands nýverið samkvæmt tilkynningu frá Embætti landlæknis.

Sextíu manns veiktust í tengslum við ferðalag eftir Landmannaleið og yfir fjörutíu hafa veikst nýlega á Laugaveginum.

„Fjöldi þeirra sem veiktist er þó líklega töluvert hærri þar sem fæstir ferðamenn tilkynna veikindi sín til yfirvalda. Erfitt er að meta fjölda ferðamanna á þessum slóðum um hásumarið en líklega eru hundruð manna á ferðinni á Laugaveginum á hverjum tíma,“ segir í færslu embættisins.

Tveir til viðbótar

Nóróveira hefur greinst hjá níu einstaklingum sem höfðu viðkomu á Rjúpnavöllum og hjá tveimur skólabörnum sem meðal annars gistu í Emstrum segir þar enn fremur en áður hefur komið fram að einhverjir ferðamenn neituðu að gefa sýni. Talan yfir þá sem sýktust af veirunni gæti því verið hærri.

„Vonir stóðu til að þessar hópsýkingar væru yfirstaðnar en í gær [á mánudaginn] bárust fréttir um tvo veika einstaklinga til viðbótar í Hrafntinnuskeri.“

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur tekið sýni úr eftirfarandi skálum: Rjúpnavöllum, Hólaskógi, Áfangagili, Landmannahelli, Landmannalaugum, Hrafntinnuskeri og Álftavatni. Áform eru um sýnatökur í Hvanngili, Emstrum og Básum. Er það gert til að ganga úr skugga um að vatnsból/neysluvatn sé ekki mengað af saurgerlum eða mögulega nóróveiru.