List Cindy teiknar mikið á söfnum og öðrum opinberum stöðum.
List Cindy teiknar mikið á söfnum og öðrum opinberum stöðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Teiknarinn Anna Cynthia Leplar, gjarnan kölluð Cindy, byrjaði í samvinnu við Listasafn Íslands með teiknismiðju fyrir fullorðna, jafnt byrjendur sem lengra komna, á löngum fimmtudögum safnsins í fyrra

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Teiknarinn Anna Cynthia Leplar, gjarnan kölluð Cindy, byrjaði í samvinnu við Listasafn Íslands með teiknismiðju fyrir fullorðna, jafnt byrjendur sem lengra komna, á löngum fimmtudögum safnsins í fyrra. Næsta smiðja verður í Safnahúsinu við Hverfisgötu kl. 19.30-21.00 annað kvöld, fimmtudaginn 29. ágúst, og síðan einu sinni í mánuði, næstu þrjá langa fimmtudaga, og gildir aðgangseyrir á safnið, en sem fyrr er innblásturinn frá verkum og gestum á sýningum safnsins.

Rannsóknir hafa sýnt að flestir gestir á söfnum staldra aðeins í nokkrar sekúndur að jafnaði framan við hvert verk. „Með þessum smiðjum er ég að reyna að fá fólk til þess að hægja á sér, læra eitthvað um einstök verk og teikna það sem það sér, jafnt verk, rýmið sjálft og aðra gesti, því við munum best það sem við teiknum,“ segir Cindy. „Ég býð upp á nokkurs konar núvitundarstund.“

Afkastamikill listamaður

Á heimasíðu hennar (annaleplar.com) eru upplýsingar um verk hennar. Hún er með BA-próf frá Ruskin School of Drawing við Oxford-háskóla á Englandi og kennarapróf frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún hefur myndlýst yfir 100 íslenskar og erlendar bækur, þar af um 80 til 90 bækur sem gefnar hafa verið út á Englandi og margar bækur eftir Guðrúnu Helgadóttur, búið til veggspjöld, stýrt námskeiðum og verið kennari í skólum í um 30 ár. Hún kom að stofnun og mótun diplómadeildar í teikningu við Myndlistaskólann í Reykjavík og var þar deildarstjóri í 12 ár. Þekktir teiknarar stigu sín listaspor þar eins og til dæmis Bergrún Íris Sævarsdóttir, Sigmundur Breiðfjörð og Elías Rúni. „Deildin hefur haft mikil áhrif á myndlýsingu á Íslandi,“ segir Cindy. „Það skemmtilegasta sem ég geri er að miðla af þekkingu minni og ást á góðri teikningu.“

Cindy hefur fengið margar viðurkenningar og verðlaun fyrir verk sín. Þar má nefna Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, sem voru fyrst veitt 2007, en þá voru Cindy og Margrét Tryggvadóttir á meðal útvalinna og fengu verðlaunin fyrir bókina Skoðum myndlist. Hún bendir á að allir geti teiknað og hvetur þátttakendur til að koma með teikniáhöld og skissubækur, en efni sé samt á staðnum fyrir þá sem vilji.

„Ég fer endalaust á söfn hérna heima og erlendis, sit eins og steinn í ólgandi sjó af túristum og teikna,“ heldur Cindy áfram. Fólk geti sest niður hvar sem er, til dæmis á kaffihúsum, og teiknað það sem það sjái. Erlendis sé mjög algengt að fólk fari á milli verka á söfnum með klappstóla, setjist niður og teikni. Hún sýni þátttakendum eigin skissubækur og kveiki þannig í þeim. „Þessi aðferð er mikið notuð í kennslu og ég hef nýtt mér hana oft, vil með smiðjunum vekja athygli á henni, því hún er mjög árangursrík. Fólk lærir mikið á þessu, ekki aðeins um tiltekin verk heldur líka á sjálft sig sem teiknara eða myndlistarmann, hvernig það endurspeglar umhverfið.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson