— Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Enn er ósamið við öll stéttarfélög kennara innan Kennarasambands Íslands (KÍ). Greinilegt er að óþreyja fer vaxandi meðal kennara vegna þess hve hægt gengur í kjaraviðræðunum og ekki síst hversu lítinn hljómgrunn höfuðkrafa þeirra um jöfnun launa á milli markaða hafi fengið hjá viðsemjendunum hjá ríki og sveitarfélögum.

Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum hafa verið samningslaus frá 1. apríl eða í tæpa fimm mánuði og samningar aðildarfélaga KÍ í grunn-, leik- og tónlistarskólum runnu út 31. maí. Nokkrir samningafundir voru haldnir fyrir sumarleyfi en ekki hefur verið boðað til formlegra funda síðan þá.

Mikil og sterk samstaða er sögð vera á milli allra kennarafélaganna á vettvangi KÍ um að staðið verði við loforð stjórnvalda frá því í september 2016 um jöfnun launa á milli opinbera og almenna markaðarins í tengslum við samkomulagið sem þá var gert um jöfnun lífeyrisréttinda. Samninganefndir kennarafélaganna og forysta KÍ hafa sett þetta mál í algeran forgang við samningaborðið, eru samstiga í vinnunni og á bak við þessa kröfu. Ætla kennarar ekki að ljúka kjaraviðræðum fyrr en fullbúin áætlun um jöfnun launa milli markaða liggur fyrir.

Þegar samkomulagið um róttækar breytingar á lífeyriskerfinu var gert milli KÍ, BSRB, BHM og ríkis og sveitarfélaga hins vegar fyrir átta árum var markmiðið að allt launafólk, bæði á opinberum og almennum markaði, myndi í framtíðinni njóta sambærilegra lífeyrisréttinda. Samhliða því átti að hefja vinnu við að jafna laun opinberra starfsmanna við launakjör sambærilegra starfsstétta á almenna markaðinum og skuldbundu stjórnvöld sig til að leiðrétta launamun á milli opinbera markaðarins og hins almenna, sem þá var gert ráð fyrir að gæti tekið að hámarki allt að tíu ár. Mikil vinna hefur farið fram en niðurstaða ekki náðst s.s. um aðferðafræði, skilgreiningu á viðmiðunar- eða samanburðarhópum svo hægt sé að mæla hver launamunurinn er, hvaða mæliaðferðir á að nota o.s.frv. Kennarar vilja að skýr niðurstaða fáist í yfirstandandi viðræðum og að fullbúin áætlun liggi fyrir um jöfnun launa. Halda þeir því fram að frá því samkomulagið var gert hafi árleg ávinnsla eftirlauna opinberra starfsmanna að jafnaði lækkað um 11,5%. Brýnt sé að loforðið um jöfnun launa, sem var skilyrði fyrir því að þeir undirrituðu samkomulagið 2016, verði uppfyllt.

Magnús Þór Jónsson formaður KÍ segir að staðan í kjaraviðræðunum sé sú að óformleg samtöl séu í gangi milli aðila en ekki sé hægt að segja að formlegar samningaviðræður séu hafnar.

„Kennarasambandið hefur látið vita að aðildarfélög þess hafa horft til verkefnisins um jöfnun launa milli markaða sem sameiginlegra áherslna þeirra allra í kjaraviðræðum og það sýnist mér sýna ákveðna sérstöðu á meðal opinberu launþegasamtakanna,“ segir Magnús.

Engin niðurstaða var í augsýn þegar hlé var gert á viðræðum í sumar og skrifaði Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, þá í Eplið, fréttabréf FF, um stöðuna: „Það verður að segjast að farið er að þykkna í okkur í samninganefnd FF eftir þessa fjóra fundi með samninganefnd ríkisins. Þar á bæ er lítið annað gert en að dreifa sandi í tannhjólin og allt gert til að teikna upp ógerleika þess að hægt sé að ljúka þessu verkefni.“

Guðjón segir í samtali við Morgunblaðið að ekki hafi verið boðaður samningafundur frá því að hlé var gert á viðræðunum í júní en hins vegar átt sér stað óformlegar þreifingar. „Við erum ekki farin að hittast með formlegum hætti. Það er orðin mikil óþreyja í fólki að við förum að landa samningi,“ segir hann.

Guðjón segir stöðuna alvarlega og erfiða og segir lítinn skilning hjá samninganefnd ríkisins á kröfum kennara. Lítið hafi þokast í viðræðum um jöfnun launa milli opinbera og almenna markaðarins.

Við gerð seinustu samninga var gengið frá áfangasamkomulagi um þetta verkefni til að liðka fyrir samningum „en við getum ekki sætt okkur við slíkt samkomulag núna. Við þurfum að klára þetta verkefni eins og til stóð,“ segir hann en bætir við að verkefnið sé vissulega flókið.

Frá því að lífeyrissamkomulagið var gert árið 2016 og loforðið gefið um jöfnun launa á milli markaða hefur mikil vinna farið fram eins og áður segir. Sérstakur vinnuhópur tók til starfa sem skilaði skýrslu á árinu 2018. Guðjón segir að grunnurinn ætti því að vera mjög skýr en tekið hafi mjög langan tíma að ljúka verkefninu sem hafi reynst erfitt og sé aðalásteytingarsteinninn í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Virðist meginágreiningurinn snúast um hvaða viðmiðunarhópa á að leggja til grundvallar til að mæla launamun og hvaða mæliaðferðir eru notaðar við jöfnun launa einstakra hópa milli opinbera og almenna markaðarins.