Kamala Harris og Joe Biden fallast í faðma á landsþingi demókrata í síðustu viku. Harris þykist ekkert eiga í ótal mistökum Bidens en hefur aftur á móti lagt mikla áherslu á fóstureyðingamál í kosningabaráttunni.
Kamala Harris og Joe Biden fallast í faðma á landsþingi demókrata í síðustu viku. Harris þykist ekkert eiga í ótal mistökum Bidens en hefur aftur á móti lagt mikla áherslu á fóstureyðingamál í kosningabaráttunni. — AFP/Kamil Krzaczynski
Það er lýsandi fyrir forsetaframboð Kamölu Harris að á heimasíðu framboðsins er ekki að finna stafkrók um hvaða stefnumálum hún hyggst koma til leiðar í embætti. Á vefsíðu Donalds Trumps eru stefnumálin efst og fyrir miðju: tuttugu meginatriði eru…

Það er lýsandi fyrir forsetaframboð Kamölu Harris að á heimasíðu framboðsins er ekki að finna stafkrók um hvaða stefnumálum hún hyggst koma til leiðar í embætti. Á vefsíðu Donalds Trumps eru stefnumálin efst og fyrir miðju: tuttugu meginatriði eru talin upp og vísað í sextán blaðsíðna skjal þar sem farið er í saumana á því sem repúblikanar vilja breyta og bæta í valdatíð Trumps.

Gagnrýnendur hafa réttilega bent á að kosningaherferð Harris hafi til þessa einmitt snúist meira um umbúðirnar en innihaldið og áherslan verið á gleði frekar en beinhörð kosningaloforð. Er samt ekki eins og Harris hafi beinlínis fallið af himnum ofan, algjörlega óskrifað blað. Hún hefur jú verið í hringiðunni miðri undanfarin þrjú og hálft ár og verið á kafi í pólitík í tvo áratugi, svo hún ætti að vera búin að móta sér ágætis skoðun á helstu álitamálum.

En eins og ég hef áður fjallað um rista hugsjónirnar ekki djúpt hjá Kamölu Harris og sannfæringin ekki sterkari en svo að í öllum málaflokkum er hún yfirleitt á þeirri skoðun sem er líklegust til að afla henni mests fylgis – og gildir einu þó að hún hafi verið á öndverðri skoðun síðast þegar hún var spurð.

En skoðana- og stefnuleysið er örugglega af ásettu ráði. Að vera hér um bil skoðanalaus, nú þegar nærri 37 dagar eru síðan Biden ákvað að stíga til hliðar, en leggja þess í stað megináherslu á góða stemningu og gleði, þýðir að í huga kjósenda getur Harris verið hvað sem þeir ímynda sér. Ef stefnan er óljós þarf hún heldur ekki að svara krefjandi spurningum og færa góð rök fyrir máli sínu. Þá er varla hægt að saka Harris um að svíkja loforðin ef engu var lofað með skýrum og afdráttarlausum hætti.

Þessu tengt þá hefur Harris einmitt ekki enn mætt í eitt einasta viðtal frá því að ljóst varð að hún yrði forsetaefni demókrata. Þegar leitað hefur verið eftir því hvenær hún muni sitja fyrir svörum er viðkvæðið alltaf „seinna“, og ástandið orðið svo slæmt að í gær sá New York Times sig knúið til að birta grein sem stíluð er á Harris þar sem hún er beðin að svara 21 spurningu um mál sem kjósendur hljóta að vilja hafa á hreinu, s.s. hvar forsetaefnið stendur þegar kemur að Taívan, Íran, Palestínu, Úkraínu, innflytjendamálum, löggæslu, vinnumarkaðs-, loftslags- og skattamálum.

Hörðustu gagnrýnendur Harris segja sennilegustu skýringuna á að hún forðist viðtöl að hún eigi ósköp erfitt með að vera mælsk, skýr og sannfærandi nema þegar hún les af skjá texta sem aðrir hafa skrifað fyrir hana.

Röngum megin á Laffer-kúrfunni

Þar sem framboð Harris hefur ekki birt stefnuskrá sína hafa blaðamenn þurft að reyna að púsla stefnu demókrata saman, eins og spæjarar sem leita uppi vísbendingar hér og þar. Harris hefur látið ýmis ummæli falla í kosningabaráttunni og margt þar á stangli sem ætti að vera bandarískum kjósendum áhyggjuefni.

Fréttamenn CNN – sem eru engir óvinir demókrata – halda úti sérstakri síðu þar sem reynt er að lesa í og túlka loðin loforð frambjóðandans. Þar kemur m.a. fram að Harris vill grípa með beinum hætti inn í verðlagningu á nauðsynjavörum heimilanna en hún sakar stórfyrirtæki á neytendamarkaði um að hafa almenning að féþúfu. Þessar skoðanir Harris standast enga skoðun og svo er það nánast náttúrulögmál að verðlagsstýring leiði fyrst og fremst til vöruskorts. Vitaskuld er hækkandi verðlag vestanhafs svo fyrst og fremst tilkomið vegna örvunaraðgerða stjórnvalda og harkalegra smitvarnaaðgerða í kórónuveirufaraldrinum.

Þá vill Harris hækka alríkisskatta á fyrirtæki úr 21% í 28% og væri gaman að sjá hana svara spurningum um hvort slíkar aðgerðir myndu ekki bæði snöggkæla hagkerfið og stórskaða vinnumarkaðinn. Hún hefur jafnframt stutt hugmyndir Bidens um 25% skatt á allar tekjur ríkasta 0,01% Bandaríkjamanna og svo myndi Harris vilja skattleggja fjármagnstekjur eins og launatekjur (þ.e. allt að 44,6%) hjá þeim sem hagnast um meira en milljón dala á ári.

Þessar skattahugmyndir bjóða upp á fjölmargar áhugaverðar spurningar um hvernig tekjuhæsta fólkið væri líklegt til að bregðast við hækkuninni en sá hópur sem Harris vill blóðmjólka er sami hópurinn og hefur efni á að ráða til sín her skattasérfræðinga til að lágmarka skattbyrðar sínar með öllum tiltækum ráðum. Sömu sögu er ekki að segja um meðaltekjufólkið sem fær ef til vill góðan einskiptishagnað eitt árið af sölu fasteignar, og þarf þá að borga skatta upp í topp verði hugmyndir Harris að veruleika.

Gæfi ég mikið fyrir að sjá viðtal þar sem Harris væri spurð hvort hún hefði nokkurn tíma heyrt á Laffer-kúrfuna minnst.

Í húsnæðismálum vill Harris bæta olíu á eldinn með sérstökum stuðningi við íbúðakaup tiltekinna þjóðfélagshópa. Verður þó að telja henni til tekna að Harris vill að auki nota skattalega hvata til að bæta þremur milljónum nýrra íbúða á markaðinn með hraði. Hins vegar langar hana líka að búa þannig um hnútana að aðilar sem fjárfesta í leiguhúsnæði missi tiltekin skattafríðindi ef þeir hækka leiguna meira en stjórnvöldum þykir hóflegt. Þarf ekki að spyrja að því hvaða áhrif slík inngrip myndu hafa á áhuga fjárfestingafélaga að koma inn á leiguhúsnæðismarkaðinn.

Heilt á litið yrði það reiðarslag fyrir hagkerfi Bandaríkjanna – og væntanlega alþjóðahagkerfið um leið – ef hugmyndir Harris (sem eru margar beint framhald af stefnu Bidens) yrðu að veruleika. Verst að það er heilmikið verkefni að ætla að útskýra það fyrir hinum almenna kjósanda sem hvorki kann hagfræði né hagsögu.

Stefna Harris í öðrum málaflokkum er loðnari og óljósari, en hún virðist heilt yfir á þeirri línu sem vænta mætti af demókrata. Er það helst í fóstureyðingarmálum að Harris hefur verið mjög afdráttarlaus, og kosningabarátta hennar snúist að miklu leyti um að draga upp þá mynd að Trump hafi traðkað á rétti kvenna til fóstureyðinga, á meðan hið rétta er að það var vandaður og hárréttur úrskurður hæstaréttar Bandaríkjanna sem einfaldlega færði löggjafarvaldið í þessum málaflokki frá alríkisstjórninni yfir til ríkjanna sjálfra. Sjálfur er Trump enginn ofstækismaður á þessu sviði.

RFK breytir niðurstöðunum

Það stefnir í afskaplega spennandi kosningabaráttu. Trump hafði afgerandi forskot á Biden en eftir að valdaelítan innan demókrataflokksins bolaði Joe gamla loksins í burtu rauk Harris upp í könnunum og fór að mælast með ögn betra fylgi en Trump.

Þann fyrirvara þarf að hafa á velgengni Harris að hún hefur haft hér um bil alla bandarísku fjölmiðlaflóruna með sér í liði undanfarnar vikur, og allt sem hún hefur sagt opinberlega hefur hún lesið af textavél. Fjárhagslegir bakhjarlar demókrata opnuðu líka veskin upp á gátt eftir brotthvarf Bidens og herma fregnir að fjárframlögin í kosningasjóð Harris hafi slegið nýtt met því á rösklega fimm vikum hafa um 540 milljónir dala komið í kassann. Er auglýsingaflaumurinn eftir því.

En svo dró Robert F. Kennedy sig úr forsetaslagnum um síðustu helgi. Fylgi Kennedys minnkaði um helming þegar Biden var skipt út fyrir Harris en öruggt er að það fylgi sem varð eftir hjá RFK færist núna að mestu yfir til Trumps. Á landsvísu var Kennedy með um 5% fylgi í síðustu könnunum en Harris með u.þ.b. 46,4% og Trump með 44,4% og því ljóst að Trump verður ofan á ef hann fær stuðningsmenn Kennedys yfir í sínar herbúðir.

Auðvitað segja tölur á landsvísu ekki alla söguna og niðurstöðurnar velta á því hver vinnur flest ríki og flesta kjörmenn – ekki hver er með hreinan meirihluta atkvæða. Kosningagreinendur hafa einkum gætur á Arizona, Nevada, Wisconsin, Michigan, Pennsylvaníu, Norður-Karólínu og Georgíu, en í þeim öllum ætti fylgið frá Kennedy að duga til að fleyta Trump inn í Hvíta húsið.

Trump og Harris munu mætast í kappræðum 10. september og verður það örugglega mikill sirkus. Trump mun þurfa að gæta sín á að virðast ekki vera að vaða yfir Harris því þá mun hún líta út eins og fórnarlamb og hann eins og fantur og dóni. Takist Trump hins vegar að beina umræðunni að lífskjara- og efnahagsvanda Bandaríkjamanna undanfarin fjögur ár, og hvernig Harris hefur reynt að firra sig allri ábyrgð á verkum Bidens, þá er allt eins líklegt að sigurinn sé í höfn.