Fyrsta skóflustungan að álveri Fjarðaáls 8. júlí 2004 F.v. Tómas Már Sigurðsson, þáv. forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Guðmundur Bjarnason, þáv. bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Bernt Reitan, þáv. forstjóri Alcoa á heimsvísu, Valgerður Sverrisdóttir, þáv. iðnaðarráðherra, og Andy Graig, yfirmaður námu- og málmasviðs Bechtel, aðalverktaka álversbyggingarinnar.
Fyrsta skóflustungan að álveri Fjarðaáls 8. júlí 2004 F.v. Tómas Már Sigurðsson, þáv. forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Guðmundur Bjarnason, þáv. bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Bernt Reitan, þáv. forstjóri Alcoa á heimsvísu, Valgerður Sverrisdóttir, þáv. iðnaðarráðherra, og Andy Graig, yfirmaður námu- og málmasviðs Bechtel, aðalverktaka álversbyggingarinnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú í sumar eru 20 ár liðin frá fyrstu skóflustungunni sem tekin var að álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Á tímamótum sem þessum er viðeigandi að líta um öxl og skoða áhrifin sem þessi stóra ákvörðun hefur haft á austfirskt samfélag og ekki síður á landið í heild

Atvinnulíf

Vigdís Diljá Óskarsdóttir

Stjórnandi samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa

Nú í sumar eru 20 ár liðin frá fyrstu skóflustungunni sem tekin var að álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Á tímamótum sem þessum er viðeigandi að líta um öxl og skoða áhrifin sem þessi stóra ákvörðun hefur haft á austfirskt samfélag og ekki síður á landið í heild.

„Heillaspor fyrir þjóðina í heild“

Þegar samningar um að Alcoa myndi reisa álver á Reyðarfirði voru undirritaðir í íþróttahúsinu á Reyðarfirði 2003 sagði Valgerður Sverrisdóttir þáverandi iðnaðarráðherra: „Það er bjargföst trú mín að nú hafi verið stígið heillaspor fyrir þjóðina í heild. Fyrirhugaðar framkvæmdir munu kalla á viðsnúning á Austurlandi. Í fyrsta sinn í langan tíma stefnir í að byggðaþróun verði snúið við.“

Það má segja að þessi trú Valgerðar hafi ræst en jákvæðu breytingarnar sem orðið hafa fyrir
þjóðina í heild, ekki síst í samfélögunum í nágrenni álversins, eru áþreifanlegar.

Byggðaþróunin snérist við

Á þeim tímapunkti sem samningarnir voru undirritaðir og Valgerður sagði stefna í að byggðarþróun yrði snúið við höfðu íbúafjöldatölur á Austurlandi farið stöðugt lækkandi, líkt og á fleiri stöðum á landsbyggðinni.

Á línuritinu má sjá hina miklu fjölgun íbúa sem varð á Austurlandi þegar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun stóðu yfir og náði fjöldinn hæstu hæðum árið 2007. Eftir að framkvæmdunum lauk hefur byggðarþróunin snúist við og íbúum á Austurlandi fækkar ekki, heldur fjölgar jafnt og þétt.

Til samanburðar eru tölur um fjölda íbúa á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, en þróunin þar hafði verið svipuð þeirri sem var á Austurlandi fyrir árið 2003.

Fyrsta rekstrarárið var vendipunktur

Þegar horft er til efnahagslegra áhrifa álvers Alcoa Fjarðaáls er áhugavert að skoða til dæmis heildartekjur íbúa í Fjarðabyggð frá aldamótum. Þar sjást áhrif álversins glöggt, þar sem árið 2008 er ákveðinn vendipunktur, en það ár var álverið ræst.

Áður en rekstur álversins hófst voru heildartekjur íbúa í Fjarðabyggð jafnar eða lægri en meðaltalið á landsvísu. Frá upphafi reksturs hafa meðaltekjur í Fjarðabyggð alltaf verið yfir landsmeðaltalinu.

Mikilvægt fyrir hagsæld Íslands

Þegar alþjóðastofnanir meta hagsæld og lífsgæði þjóða eru margir mismunandi þættir teknir með í dæmið. Einn af þeim er útflutningstekjur þjóðarinnar. Alcoa Fjarðaál spilar þar stórt hlutverk fyrir Ísland, en til dæmis námu útflutningstekjur álversins 127 milljörðum króna á síðasta ári. Það eru 13,5% af öllum útflutningstekjum Íslands það ár. Til samanburðar stóð sjávarútvegurinn undir 19% útflutningstekna Íslands árið 2023.

Tæpir fimm milljarðar í samfélagsverkefni

Alcoa skilar verðmætum til samfélagsins með ýmsum hætti, meðal annars í formi skattgreiðslna, en félagið greiddi til dæmis 1,5 milljarða króna í skatta og opinber gjöld á Íslandi á síðasta ári.

Frá upphafi hefur Alcoa verið virkt í því að styrkja og styðja við verkefni í samfélaginu og hafa tæplega 5 milljarðar íslenskra króna runnið í styrki frá Alcoa til hinna ýmsu samfélags- og innviðaverkefna, aðallega á Austurlandi. Þar má sem dæmi nefna styrki til björgunarsveita, íþróttafélaga, menningarviðburða og ýmissa forvarnarverkefna.

Umhverfisáhrif vöktuð náið

Alcoa Fjarðaál vinnur að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni með markvissum aðgerðum og setur sér metnaðarfull innri markmið í umhverfismálum á ári hverju. Fyrirtækið hefur frá því að álverið hóf rekstur staðið fyrir yfirgripsmikilli umhverfisvöktun í Reyðarfirði í samræmi við vöktunaráætlun sem er samþykkt af Umhverfisstofnun. Niðurstöður eru birtar árlega í grænu bókhaldi sem er aðgengilegt í samfélagsskýrslu Alcoa Fjarðaáls, á samfelagsskyrsla.is og á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Tilgangur umhverfisvöktunarinnar er að meta áhrif starfsemi álversins á umhverfið í nágrenni þess.

Íbúar á Austurlandi jákvæðir

Á hverju ári lætur Alcoa Fjarðaál gera könnun meðal íbúa á Austurlandi þar sem spurt er um fjölda ólíkra þátta. Í þeirri nýjustu kom fram að 92% íbúa eru ánægð með að búa í fjórðungnum en nánast sama hlutfall, eða 90% íbúa, telur Alcoa Fjarðaál hafa jákvæð áhrif á búsetuskilyrði á Austurlandi.