Þórarinn Björn Gunnarsson bifreiðasmiður, fæddur í Reykjavík 25. október 1938. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Grund 12. ágúst 2024.

Þórarinn Björn var sonur hjónanna Gunnars Björnssonar, húsa- og bifreiðasmiðs, f. 1904, d. 1992, og Margrétar Björnsdóttir bankaritara, f. 1902, d. 1981.

Þórarinn Björn gekk í Lauganesskóla og síðan Iðnskólann í Reykjavík. Eftirlifandi kona Þórarins Björns er Ólafía B. Matthíasdóttir húsmóðir, f. 1939. Þau giftust 1958, bjuggu saman lengst af í Hraunbæ í Reykjavík en fluttu síðan í Hörðukór í Kópavogi.

Björn þeirra hjóna eru 1. Gunnar, f. 1958, eiginkona Xiuying Cui, f. 1972. 2. Jónína, f. 1959, eiginmaður Jóhann Garðarsson, f. 1958. 3. Ragnar, f. 1962, sambýliskona Steinunn Tómasdóttir, f. 1961. 4. Matthías, f. 1974, eiginkona Hulda Soffía Arnbergsdóttir, f. 1978. Alls urðu barnabörnin 11 og barnabarnabörn eru í dag 15 talsins.

Þórarinn Björn nam bifreiðasmíði hjá Bílasmiðjunni, starfaði við fagið þar til hann tók við kennslu við Iðnskólann í Reykjavík og síðar Borgarholtsskóla. Kennsla átti hug hans allan en hann kenndi við fagið sitt og tengdar greinar allt frá 1965 og þar til hann hætti stöfum 2006. Þórarinn Björn kom að stofnun Kiwanisklúbbsins Jörfa í Árbæ, hann sinnti ýmsum stöfum tengdum sóknarnefnd Árbæjarkirkju auk þessa að ganga í Frímúrararegluna sem honum þótti mikil gæfa.

Útför Þórarins Björns fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 28. ágúst 2024, klukkan 15.

Kveðjum í dag hann föður minn, Þórarin Björn.

Hjálpsamur, uppátækjasamur, orðheppinn og víðlesinn. Hafðir skoðanir en virtir um leið skoðanir annarra. Kennari fram í fingurgóma, hjálpsamur við nemendur og vildir og reyndir eftir bestu getu að aðstoða sem flesta í að klára sitt nám. Afi barnanna minna, og frábær afi sem þú varst, alltaf voruð þið mamma boðin og búin að vera okkur innan handar, líta eftir með afa- og ömmuskottum eftir skóla eða hvað annað. Mikill sælkeri og matmaður, já, það var gaman að bjóða þér og mömmu í mat. Hef ekki tölu á öllum utanlandsferðunum sem þið mamma fóruð í, löngu fyrir tíma leiðsögutækja og farsíma, þið voruð dugleg að ferðast og njóta saman, já, saman, gift í 66 ár – magnað ferðalag. Að skjótast upp í Land þegar vel viðraði eða fara á skíði í Bláfjöll og sund, það sem þú varst duglegur að synda og auðvitað hitta spekinga í heitu pottunum á eftir. Hvert sem maður fór með þér alls staðar þekkir þú fólk eða þá að fólk þekkti þig, gamli nemendur, samferðafólk og kennarar, allaf var stutt í brosið og rifjaðir upp gamlir tímar. Kiwanis- eða Frímúrarafundir, þú ljómaðir við að hitta fólk og þér leið greinilega vel á þessum fundum.

Takk fyrir allt og allt – þar til við hittumst aftur.

Matthías.

Í dag kveð ég elskulegan föður minn. Efst er í huga þakklæti fyrir öll árin okkar saman. Alla hjálpina, hvatninguna og yndislega æsku. Hann var alltaf bóngóður og ráðagóður. Pabbi hafði mikið jafnaðargeð, ég sá hann sjaldan reiðan. Mér tókst samt að gera hann reiðan í eitt skipti sem er eftirminnilegt. Þegar ég sjö ára gömul fór ég ásamt vinkonu að heiman frá Stýrimannastíg niður í slipp, já og yfir Vesturgötu. Upp komst um flakkið því við fengum krónur fyrir tyggjói hjá skipasmiðunum sem sögðu okkur að fara strax heim. Pabbi varð öskureiður og var ég send í rúmið, um miðjan dag. Niður í slipp fórum við stöllur aldrei aftur. En svarta tyggjóið með kisunni á var aldeilis gott. Það hefur oft verið hlegið að þessari sögu.

Hann var jafnan glaður og alltaf var stutt í húmorinn og orðaleiki alls konar, sá eiginleiki fylgdi honum fram yfir áttrætt.

Pabbi var mikill útivistarmaður, synti, stundaði laxveiðar með afa Gunnari í Vopnafirði og silungsveiðar í vötnum. Þær voru margar útilegurnar sem farnar voru í Skorradal í Borgarfirði sem enduðu á smjörsteiktum silungi og kartöflum á prímusnum. Ekki síðri eru minningar frá bústað ömmu og afa við Elliðavatn, var virkilega alltaf sól þar? Þetta eru allt ljúfar minningar bernskunnar. Pabbi stundaði skíði sem ungur maður og tók þráðinn upp eftir 20 ára hlé. Þá hittumst við í Bláfjöllum og drukkum kakó saman milli ferða upp fjallið. Þar var pabbi auðþekktur með húfu með stórum rauðum skúf, sem sveiflaðist á kollinum.

Pabbi var mikill djassáhugamaður, og spilaði hann sínar plötur og sótti tónleika. Hann spilaði á yngri árum á trompet í Lúðrasveit Selfoss, okkur systkinin langaði alltaf að fara með í þessa sveit, þar hlaut að vera gaman.

Pabbi var mikil félagsvera og starfaði með Kiwanisklúbbnum Jörva og einnig með Frímúrarareglunni. Þá kom sér vel að vera snyrtilegur í straujuðum skyrtum, straujárnið lék í höndunum á honum og ekki síður skóburstinn, það var heilmikið ferli þessi skóburstun, dagblöð á gólfið, bera á, láta þorna og bursta þar til skórinn glansaði og skínandi fægðir skór klárir á næsta fund.

Ég á einnig góðar minningar frá ferðalögum okkar saman á fullorðinsárum til New York, Stokkhólms, London og á Íslendingaslóðir í Kanada með kórnum mínum sem var ógleymanlegt ferðalag. Hann og mamma voru dugleg að ferðast saman, oftast varð Spánn, Þýskaland eða Svíþjóð fyrir valinu.

Pabbi var sérlega barngóður, alltaf þolinmóður, hlustaði vel á börnin og leiðbeindi þeim. Fyrst nutu barnabörnin leiðsagnar og seinna langafabörnin. Þegar pabbi flutti á Grund, kominn með alzheimer, fyrir tveimur árum voru það langafabörnin sem fengu bros og klapp á kollinn, þessar heimsóknir glöddu hann mikið, hann ljómaði og brosið hans var ósvikið.

Takk fyrir allt og allt.

Þín dóttir,

Jónína
Þórarinsdóttir.

Faðir minn var menntaður bifreiðasmiður, sem kom sér vel á fyrstu búskaparárum foreldra minna þegar börnin urðu þrjú á fyrstu fjórum árum hjónabandsins. Seinna bættist svo eitt barn við tólf árum seinna.

En aftur að fyrstu árum þeirra. Þá var eðlilega ekki mikið um aukapeninga með eina fyrirvinnu að kaupa bíl fyrir fjölskylduna. Árið er 1964 og við búandi á Selfossi. Pabbi kaupir gamlan Opel Record árgerð 1955. Ryðbætir og sprautar og áttum við þennan eðalvagn í sjö ár. Eitt sinn þegar sá gamli neitaði að fara í gang þá var ekki annað en að skipta um kerti og platínur. Og hver fór í það mál? Jú pabbi og ég sex ára gamall. Settur undir stýri úti á plani og pabbi hálfur ofan í húddi kallandi á þann stutta að annaðhvort svissa á eða starta. Þetta gekk ágætlega þangað til ég ruglaðist aðeins og startaði þegar ég átti bara að svissa á. Kom mikið öskur frá pabba og mér brá rosalega en sem betur fer slapp þetta til. Gleymi þessu aldrei.

Seinna tókum við feðgar svo annan bíl sem pabbi keypti oltinn og var hringbeyglaður ef undan er skilinn afturgaflinn á honum. Þetta er árið 1972-3 og við búandi í Árbænum og pabbi vinnandi þar líka. Á kvöldin í margar vikur og mánuði fórum við saman að laga bílinn, sem var pólskur Fíat. Þetta hafðist svo fyrir rest og úr varð þessi líka fíni bíll nánast ókeyrður.

Þetta eru minningar af okkur feðgum þar sem við vorum bara tveir að bauka saman. Var ekki skrítið að maður fengi svo sjálfur bíladellu.

Það er ekki öllum gefið að eiga föður í sextíu og sex ár en svo lánsamur varð ég. Takk fyrir samfylgdina minn kæri.

Þinn elsti sonur,

Gunnar Þórarinsson.

Í dag er kvaddur kær Kiwanisvinur, Þórarinn B. Gunnarsson. Við Þórarinn vorum meðal annarra stofnfélagar Kiwanisklúbbsins Jörfa fyrir hartnær 50 árum. Þá kynntist ég þessum eðaldreng sem lagði svo sannarlega sitt af mörkum svo vel tækist til við framkvæmdina.

Þórarinn var í senn alvörugefinn, hógvær og gamansamur maður. Mörg gullkornin átti hann og fengum við Jörfafélagar og eiginkonur okkar notið þeirra á fundum og skemmtunum klúbbsins.

Fjölskylduútilegur voru fastur liður í starfi klúbbsins þar sem ávallt var glatt á hjalla. Börn og fullorðnir áttu saman góða daga, hvort heldur sólin léti yfirhöfuð sjá sig eða úrhellið tæki yfir sviðið. Þarna kynntust börn okkar félaganna og enn er vinakeðjan traust hjá sumum þeirra.

Við undirbúning Evrópuþings Kiwanis 1995, sem haldið var í Reykjavík, fékk ég Þórarin til liðs við mig við undirbúninginn. Eins og fyrri daginn lagði hann sig allan fram og útkoman var til fyrirmyndar.

Þórarinn skilaði góðu starfi í klúbbnum okkar meðan hans naut við og fyrir það ber að þakka. Ólafíu konu hans eru einnig færðar þakkir fyrir samverustundir liðinna ára, trausta og fallega vináttu.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við hjónin til Ólafíu og fjölskyldu.

Ævar Breiðfjörð.

hinsta kveðja

Enginn sér hve sólin skín

sætt með komu þinni

eða veit hve orðin þín

anga ljúft í minni.

(Unnur Benediktsdóttir Bjarklind)

Hulda Soffía, Ólafía Heba Matthíasdóttir, Elma Íris Matthíasdóttir, Þórunn Birna Matthíasdóttir.