Lydía Edda Thejll fæddist í Reykjavík 24. september 1933. Hún lést á bráðamóttöku Landspítala eftir skammvinn veikindi 16. ágúst 2024.

Foreldrar Lydíu voru Vilborg Andrésdóttir, frá Þórisstöðum í Austur-Barðastrandarsýslu, f. 23. maí 1896, d. 23. mars 1967, og Ólafur Ágúst Thejll, f. í Kaupmannahöfn 29. september 1900, d. 10. júlí 1964. Lydía var þeirra eina barn en Ólafur Ágúst átti síðar Magnús Thejll, f. 19. júní 1935, og Camillu Lydíu Thejll, f. 24. júní 1939, d. 26. apríl 2016.

Lydía giftist 9. desember 1962 ástkærum eiginmanni sínum Jóhanni Erlendi Óskarssyni, f. 7. júní 1931 í Reykjavík, d. 27. ágúst 2003. Foreldrar hans voru Laufey B. Jóhannesdóttir, f. 17. júní 1906, d. 20. apríl 1984, og Óskar Bjarni Erlendsson, f. 27. nóvember 1904, d. 16. febrúar 1972. Dætur Lydíu og Jóhanns eru: 1) Vilborg Edda, f. 15. janúar 1963. Maður hennar er Sigfús B. Sverrisson, f. 22. september 1959. Þeirra börn eru Sverrir, f. 1990, sambýliskona hans er Hrund Ölmudóttir, og Alexandra, f. 1996, sambýlismaður hennar er Jóhannes Aron Andrésson. 2) Bryndís Erna, f. 26. desember 1966. Hennar maður er Ármann Halldórsson, f. 4. júní 1969. Dætur þeirra eru Sóldís Lydía, f. 2001, kærasti hennar er Jesús Garcia, og Salka Nóa, f. 2006. Fyrir átti Jóhann tvo syni: 3) Finn Loga, f. 22. janúar 1956. Kona hans er Oddný Halla Haraldsdóttir, f. 9. nóvember 1955. Dætur þeirra eru Helga, f. 1983, hennar maður er Vilhelm Guðjónsson, börn þeirra eru Signý Karítas og Þorri, Hulda, f. 1986, hennar maður er Páll Þ. Sch. Thorsteinsson, þeirra börn eru Finnur Helgi og Haraldur Krummi, fyrir átti Páll Sáru K. og Ástmar Óla, og Harpa, f. 1990, sambýlismaður hennar er Árni Kristjánsson. 4) Garðar, f. 17. mars 1956, hans kona er Sólveig Halldórsdóttir, f. 15. febrúar 1954, og þeirra sonur er Jóhann, f. 1993.

Lydía ólst upp víða um Reykjavík og bjó árin 1939-41 á Ísafirði. Vilborg var einstæð móðir og vann fyrir sér sem klæðskeri. Lydía útskrifaðist úr Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1951 en þó hugur hennar stæði til frekara náms leyfði þröngur hagur slíkt ekki. Hún sótti margháttuð námskeið um ævina, var listræn og forvitin um heiminn og gang hans. Lydía og Jóhann gerðu sér heimili að Þórsgötu 12, þar sem hann bjó alla tíð síðan en Lydía flutti síðla árs 2021 í Furugerði 1.

Að loknu gagnfræðaprófi fékk Lydía vinnu hjá Sjúkrasamlaginu þar sem hún kleif metorðastigann, byrjaði í afgreiðslunni en endaði sem deildarstjóri. Fyrstu árin vann hún þar með föður sínum og það var þar sem hún kynnist tilvonandi eiginmanni en þau voru vinir í allmörg ár áður en þau felldu hugi saman. Lydía tók sér hlé frá skrifstofustörfum sumarið 1960 og réð sig sem þernu á farþegaskipinu Heklu og sigldi milli hafna og skoðaði heiminn. Þegar Sjúkrasamlagið sameinaðist Tryggingastofnun 1990 fékk Lydía starf þar og starfaði til 1999 en þá þurfti hún að leggja niður störf vegna hrörnandi sjónar.

Útför Lydíu Eddu Thejll verður frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 28. ágúst 2024, og hefst athöfnin kl. 15.

Ástkær tengdamamma er farin yfir móðuna miklu.

Stórt skarð er höggvið í fjölskyldugarðinn þegar aðaleikin fellur frá og er aðdáunarvert hve vel systurnar taka slakkann og setja allt í ljúfa röð að hætti móður sinnar.

Við Dídí höfum átt frábært og gott samband frá fyrstu tíð sem telur nú 45 ár.

Á þeim tíma var þroskandi fyrir mig að umgangast manneskju sem var svona mörgum góðum kostum búin en hún var yndisleg, einstök, hlý, góð, víðsýn, jákvæð, fyrirmynd, frábær, falleg, dýrmæt, skemmtileg, best, sterk, dásamleg, snillingur, mögnuð, fordómalaus, beinskeytt, eldklár, ljúf, brosmild og heimsmeistari í krossgátum! Já Dídí var allt þetta og meira til!

Síðustu mánuði hef ég varið miklum tíma með tengdamóður minni en það voru dýrmætar stundir og sagði hún mér margar góðar sögur frá því að hún var ung. Um nokkrar var ég látinn lofa því að hafa þær ekki eftir og ætla ég að halda það loforð.

Þú munt ávallt lifa í hjörtum okkar.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Þinn

Sigfús
(Fúsi).

Í byrjun maí 1998 hringdi ég nokkuð taugaveiklaður í símanúmer sem ég hafði nýlega fengið í hendur. Sú sem svaraði var Dídí og spurði ég eftir dóttur hennar og hún sagðist mundu skila að ég hefði hringt. Þarna áttum við fyrsta samtalið en þau áttu eftir að verða mörg í gegnum árin. Við kynntumst hægt og rólega og ég þurfti að sanna að ég væri nógu góður fyrir Bryndísi og ég held hún hafi nú sannfærst um það svona í rólegheitunum.

Það sem ég tengi sérstaklega við Dídí er natni hennar og alúð við allt sem hún kom að, hvort sem það voru samskipti og mannleg mál eða þau verk sem hún hafði með hendi hverju sinni, hennar mottó var svo sannarlega að væri eitthvað þessi virði að gera það væri þess virði að gera það vel.

Dídí hélt dagbækur gegnum árin þar sem hún punktaði niður atburði daganna í stuttum setningum og var dæmigerð elja hennar að halda þessum sið þrátt fyrir hrakandi sjón. Hún var ekki mikið að leggja mat á hlutina enda ekki í hennar anda að fella dóma. Í einni slíkri færslu kemur fram að ég hafi verið að græja einhver lyf fyrir hana og þá skrifar hún „Vesen fyrir Ármann“. Mín viðbrögð við þessu eru að það var mér mikil ánægja og gleði að vesenast með henni og fyrir hana og þess vesens verður sárt saknað.

Dídí var stór hluti af lífi okkar bæði hversdags og á hátíðarstundum og verður sérstaklega að nefna að hún var mikið jólabarn og smitaði hún afkomendur sína rækilega af þeim fallega eiginleika og hafði hún sérstakt lag á að ljá aðventunni hátíðarblæ. Hún var líka ferðafélagi okkar í nokkrum ógleymanlegum ferðum út á land að sumri til og ég veit að þær samverustundir voru henni og okkur mjög mikils virði.

Dídí er kvödd með miklum trega og djúpu þakklæti fyrir allt sem hún gaf okkur.

Ármann Halldórsson.

Elsku tengdamóðir mín, hún Dídí, er farin úr þessari jarðvist. Ég kveð hana með söknuði og þakklæti fyrir öll kærleiksríku samskiptin sem við höfum átt í gegnum árin. Dætur okkar Finns og barnabörnin sakna yndislegrar ömmu. Heimili hennar og Jóhanns tengdapabba á Þórsgötu var miðpunktur fjölskyldulífsins, gott að koma og vel tekið á móti öllum. Þar voru haldnar fjölmennar veislur vina og ættingja, glaðst við ýmis tækifæri.

Dídí var mikil stemningskona og vildi halda upp á afmælis- og merkisdaga. Hún naut sín vel þegar hún í fyrra fagnaði níræðisafmælinu sínu með glæsibrag. Hún hélt alltaf góðu sambandi við fjölskyldu sína og vinkonur. Hringdi oft og spurði frétta. Einkennandi fyrir símtölin hennar Dídíar hér á árum áður var hve stutt þau voru enda þurfti hún að hafa samband við marga. Stundum var maður varla búinn að átta sig á því hvað segja skyldi þegar hún var búin að kveðja.

Dídí var næm á fólkið sitt, vitur, réttsýn og vel gefin, sótti styrk meðal annars í trú og upprunarætur sínar. Við áttum sameiginlegan ættarþráð vestur sem okkur þótti báðum vænt um og við vorum í raun frænkur. Dídí átti á stundum við heilsubrest að stríða og með aldrinum dapraðist sjónin og heyrnin. Margs konar líkamlegum veikindum mátti hún mæta en andlegum styrk hélt hún alla tíð og var í raun mjög ung í anda. Alltaf var hún fín og vel tilhöfð, falleg og bjó yfir visku og innri fegurð.

Dídí hafði gaman af að gera sér dagamun, fara í leikhús, út að borða, sjá viðburði með afkomendum sínum og skreppa smá ferðir út úr bænum. Hún bjó yfir miklum lífsvilja og jákvæðni, kjörkuð, skynsöm og viljasterk tókst hún á við þau verkefni sem á hana voru lögð tilbúin að halda áfram þrátt fyrir að á brattann væri að sækja.

Síðustu árin bjó Dídí í Furugerði og var í dagvistun í Múlabæ, þar sem hún undi sér vel. Síðustu dagana var hún á Sólvangi í endurhæfingu eftir uppskurð. Hún lést á bráðadeild Landspítalans eftir stutt veikindi umkringd sínum nánustu 16. ágúst síðastliðinn.

Ég sakna elsku Dídíar tengdamóður minnar og í huga mér er þakklæti fyrir að hafa notið hennar góðu fylgdar. Fari hún í friði.

Oddný Halla Haraldsdóttir.

Þá er þessi einstaki húmoristi farinn og líf okkar allra aðeins fátækara fyrir vikið.

Elsku amma Dídí hefur kvatt en beið þó eftir að kveðja þar til við vorum flest mætt við dánarbeðinn hennar. Hún var sterk þegar hún kvaddi og var snögg að því eins hennar var von og vísa. Himinninn var einstaklega fagur þetta föstudagskvöld. Amma var orðin 90 ára en andi hennar var svo mikið yngri. Amma var femínisti með fallega siðferðiskennd. Hún var langt á undan sinni samtíð. Tók pabba og bróður hans eins og sínum eigin börnum og við barnabörnin vorum öll jöfn í hennar augum. Það var ekkert betra þegar við vorum litlar en að koma á Þórsgötu og fá ís frá afa og strokur frá ömmu.

Með árunum urðum við svo meira eins og vinkonur, við systur munum seint gleyma þegar við fórum til Berlínar með henni fyrir níu árum. Hún var svo glöð á nýjum slóðum og það var svo gaman að verja tíma saman og spjalla um lífið, heyra allar sögurnar um hvernig líf hennar og afa var og líka þegar hún var lítil stelpa. Við leituðum líka að aðalkokteilnum þegar hún var ung, grasshopper, en Þjóðverjarnir könnuðust nú ekkert við þann drykk.

Svona var amma Dídí mikil stemnings- og veislukona sem töfraði oft fram heilu matar- og afmælisboðin fyrir vini og ættingja. Hún vildi að við þekktum hvert annað vel og að við hittumst oft. Hún fylgdist alltaf með öllum í fjölskyldunni, hún var með puttann á púlsinum hjá okkur öllum og tók símtal við hana aldrei meira en mínútu. Hún vildi ekki trufla, bara athuga hvernig við hefðum það. Hún var alltaf hress, skemmtileg og elskaði lífið. Hún er og verður fyrirmynd okkar allra. Elsku amma, takk fyrir allt. Við sjáumst síðar en þangað til mun minning þín lifa í hjörtum okkar.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Hinsta kveðja,

Helga, Hulda
og Harpa Finnsdætur.