Handrit AM 655 xxx 4to Hér er sýnishorn af handritinu með læknisráðunum.
Handrit AM 655 xxx 4to Hér er sýnishorn af handritinu með læknisráðunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Í þessu handriti eru þýddar á íslensku fimmtíu og tvær klausur sem lýsa ýmsum krankleikum og viðeigandi lækningum við þeim, ásamt útlistunum á lækningamætti jurta og annarra efna. Handritið er birtingarmynd útbreiðslu vinsælla arabískra og…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Í þessu handriti eru þýddar á íslensku fimmtíu og tvær klausur sem lýsa ýmsum krankleikum og viðeigandi lækningum við þeim, ásamt útlistunum á lækningamætti jurta og annarra efna. Handritið er birtingarmynd útbreiðslu vinsælla arabískra og latneskra lækningatexta sem bárust til Íslands að öllum líkindum í gegnum Danmörku og Noreg,“ segir Brynja Þorgeirsdóttir, lektor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, en hún ætlar að segja frá elsta varðveitta lækningatexta á norrænu tungumáli, á málþingi í Kakalaskála á laugardag. Brynja er ein af fjórum sem þar halda erindi á málþinginu, hvers yfirskrift er: Húmor, stjörnur, börn og lækningar: Manneskjan á Sturlungaöld.

„Handritið er frá seinni hluta þrettándu aldar og hefur safnmarkið AM 655 xxx 4to. Þetta eru tvær opnur og skrifað er báðum megin, samtals átta blaðsíður innan úr stærra handriti sem nú er glatað. Brotið er í þægilegri stærð til ferðalaga, um það bil kiljustærð, og uppsetning textans bendir til þess að það hafi verið notað sem handbók við almennar lækningar.“

Brynja segir handritið vera í bunka í Árnasafni með öðrum handritsbrotum frá svipuðum tíma.

„Stundum skrifaði Árni Magnússon á miða hvar hann fann handritin sem hann safnaði, til dæmis í rusli eða innan úr bókbandi. Í þessu tilviki er enginn slíkur miði, sem gerir handritið að nokkurri ráðgátu, enginn veit hvernig það komst í hendur Árna eða hver átti það. Fundist hafa fornminjar, aldursgreind frjókorn, við miðaldaklaustur á Íslandi sem benda til þess að þar hafi verið ræktaðar lækningajurtir. Þó gæti handritið alveg eins verið upprunnið utan klausturs.“

Brynja tekur fram að handritið sýni að Íslendingar hafi verið vel með á nótunum varðandi lækningar, á pari við það sem var að gerast annars staðar í Evrópu.

Ráð til að hefta lostasemi

Á þrettándu öld voru lækningar nokkuð ólíkar því sem við þekkjum í dag og nefnir Brynja dæmi um þau ráð sem handritið geymir.

„Við beinbroti skal taka hana og stappa hann allan með fjöðrum og binda við. „Þat gróðir skjótast.“ Við svefnleysi skala taka fræ af valmúa og stappa í súru víni og bera á allan líkamann. „Þat gerir svefn allvel.“ Ef fólk fær ígerð í hendi skal taka kött, drepa hann, stinga hendinni í köttinn meðan hann er heitur, binda um og hafa köttinn við sárið fram á næsta daga. Fjóra daga í röð skal þetta endurtekið og „hvern dag tak kvikan kött“. Þeir sem vilja hefta lostasemi sína skulu taka gras af runna af þefrunnaætt og eta í þaula, þá mun linast lostinn. Þarna eru ráð við hinum ýmsu almennu kvillum, því sem við í dag tengjum við heimilislækningar, til dæmis ráð við höfuðverk, meltingarvandamálum, hósta og lungnavandamálum, sýkingum, augnvandamálum og flugnabiti. Einnig er þar að finna klausur um kvenlækningar og ráð við gallsteinum, flogaveiki og fleiru,“ segir Brynja og bætir við að aðferðir þær sem lýst sé í handritinu hafi verið í takti við það sem var að gerast í Evrópu á þeim tíma. „Þetta eru engar séríslenskar aðferðir og mér finnst augljóst að þetta handrit hafi verið ætlað til læknisnotkunar því það er búið að þýða öll plöntuheitin sem þar koma fram. Í handritinu er einnig komið inn á kvenlækningar, til dæmis er roðagras sagt hrinda barni úr barnshafandi konu, þó að það sé dáið. Skoðað hefur verið í seinni tíð hvort eitthvað af þessum jurtum virki með þeim hætti sem sagt er í handritinu, til dæmis er vitað núna að roðagras hefur þá virkni að koma af stað blæðingum. Svo er spurning hvort þetta hafi verið aðferð sem notuð var við þungunarrof.“

Brynja segir að til séu heimildir um starfandi lækna á Íslandi á þeim tíma sem handritið er frá, þó að ekki sé vitað nákvæmlega hvað þeir voru að gera.

„Í Grágás, lögbók okkar frá þjóðveldisöld, segir að ef maður reyni að lækna annan og lendi í því að sjúklingur deyi eða verði fyrir skaða sé það refsilaust ef hann vann í góðri trú. Í Sturlungu er sagt frá því að höfðingjanum Ormi Jónssyni hafi verið tekið blóð árið 1241 á gjósæð, en hann lifði reyndar ekki af þá lækningu. Í Biskupa sögum og Sturlungu er minnst á lækna og þar er einnig sagt frá fyrsta lækninum sem ítarlegri heimildir eru til um, Hrafni Sveinbjarnarsyni. Hann er þar sagður hinn mesti læknir og vel lærður. Hann ferðaðist víða, til Ítalíu, Englands og Frakklands, og væntanlega hefur hann aflað sér þekkingar í þessum löndum. Í Sturlungu er sagt frá því að Hrafn hafi með skurðaðgerð fjarlægt gallsteina, tekið mönnum blóð og læknað mann af vitfirringu, en það gerði hann með því að koma jafnvægi á vessa líkamans. Slíkt var gert ýmist með brennslu í holdið eða blóðtöku. Lækningar þessa tíma byggðust á hugmyndum um vessana fjóra í líkamanum sem þurftu að vera í jafnvægi: blóð, slím, rautt gall og svart gall.“

Dagskrá málþings í Kakalaskála 31. ág. Brynhildur Þórarinsd. dósent: „Varst þú til þegar sagan þín gerðist? Miðaldir frá sjónarhóli barna.“ Gísli Sigurðss. rannsóknarprófessor: „Fornsögurnar eru á jörðu svo sem Eddurnar eru á himni.“ Brynja Þorgeirsd. lektor: „Læknisráð frá tímum Sturlunga: Ráðgátan um elstu norrænu lækningabókina.“ Torfi H. Tulinius prófessor: „Gamansemi og blátt blóð. Um „eljaraglettu“ Sighvats Sturlusonar“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir