[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leiðréttar kortaveltutölur gefa til kynna að líklega sé talsvert meiri kraftur í einkaneyslunni en áður var talið. Athygli vekur að kortavelta Íslendinga erlendis hefur aukist umtalsvert. Hagfræðingar sem ViðskiptaMogginn ræddi við búast við hægum vexti í einkaneyslu á næstu misserum

Leiðréttar kortaveltutölur gefa til kynna að líklega sé talsvert meiri kraftur í einkaneyslunni en áður var talið. Athygli vekur að kortavelta Íslendinga erlendis hefur aukist umtalsvert. Hagfræðingar sem ViðskiptaMogginn ræddi við búast við hægum vexti í einkaneyslu á næstu misserum.

Í Peningamálum sem Seðlabankinn gaf út samhliða vaxtaákvörðun kemur fram að leiðréttu kortaveltutölurnar benda til áframhaldandi vaxtar einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands jukust árstíðarleiðrétt neysluútgjöld heimila um 1,8% milli fjórðunga á fyrsta fjórðungi ársins sem er heldur meira en sá 1,3% vöxtur sem gert var ráð fyrir í maíspá bankans. Milli ára jókst einkaneysla um 0,2% en í maí hafði verið gert ráð fyrir að hún héldi áfram að dragast saman eins og á seinni hluta síðasta árs. Þróun einkaneyslu á fyrsta ársfjórðungi er í betra samræmi við nýlega endurskoðun á kortaveltutölum sem sýna meiri vöxt útgjalda heimila á fjórðungnum en fyrri tölur um kortaveltu bentu til að því er kemur fram í Peningamálum.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að uppfærðu tölurnar varðandi kortaveltuna hafi breytt myndinni á einkaneyslu talsvert. Endurskoðunin var meðal annars á veltu erlendra korta og fyrri gögn hafi vanmetið vöxtinn í erlendu kortaveltunni.

„Það var mjög hraður flutningur frá innlendum til erlendra færsluaðila. Við höfðum lengi sett fyrirvara við gögn um veltu erlendra korta en það kom okkur á óvart hversu víðtæk endurskoðunin var á kortatölum innlendra aðila. Það virðist vera meiri seigla í einkaneyslunni á öðrum ársfjórðungi en við höfðum vænst,“ segir Jón Bjarki og bætir við að það endurspegli að kaupmáttur hafi ekki minnkað miðað við launavísitölu.

„Á fyrsta þriðjungi ársins voru víðtækar launahækkanir vegna kjarasamninga og þá tók kaupmáttur launa hækkunarkipp ekki síst vegna þess að þessar hækkanir voru einnig afturvirkar. Stór hluti launafólks fékk aukasummu í launaumslagið. Þetta er líka ólíkt þróun víða erlendis þar sem raunlaun lækkuðu meðan verðbólguskot á heimsvísu gekk yfir,“ segir Jón Bjarki.

Tölurnar komu á óvart

Hann bætir við að hér á landi höfum við ekki séð neina raunlaunalækkun á kaupmætti launa.

„Það gæti breyst þegar líður á árið því hjá flestum verða ekki frekari launahækkanir. Nánast þeir einu sem eiga eftir að semja eru háskólamenn á opinbera markaðnum. Einnig er vert að minnast á að vextir hafa haft áhrif á einkaneysluna að því leyti að bifreiðakaup hafa minnkað um helming það sem af er ári frá í fyrra en það er sú neysla sem einstaklingar fjármagna oft með lántöku,“ segir Jón Bjarki og bætir við að ljóst sé að fólk haldi að sér höndum með skuldsettu neysluna en önnur neysla haldi dampi.

Kári S. Friðriksson, hagfræðingur í Arion greiningu, segir að einkaneyslan hafi að undanförnu verið mun sterkari en þau í Arion greiningu hafi átt von á. Leiðréttu tölurnar hafi sýnt að einkaneyslan jókst um 3,9% í júní í stað 0,8% samdráttar.

„Tölurnar hækkuðu meira en við áttum von á. Taka þarf þó með í reikninginn að um er að ræða heildarneyslu íbúa en okkur hefur verið að fjölga þannig fjölgunin á mann er ekki jafn mikil. Fylgni milli kortaveltu og einkaneyslu er þó ekki fullkomin en minnkandi hlutur bílasölu, sem fólk kaupir almennt ekki með kortum, gæti þýtt að einkaneyslan minnki eitthvað,“ segir Kári og nefnir að auk þess sé áhugavert að í gömlu tölunum kom fram að kortavelta Íslendinga erlendis hafi aukist um 2,5% en í nýju tölunum kemur fram að raunin hafi verið 16,4% hækkun.

„Svo virðist sem við séum duglegri að fara til útlanda. Það virðist vera mikill vöxtur í þessum útgjaldalið,“ segir Kári.

Jón Bjarki og Kári segja báðir að leiðréttu tölurnar og þrótturinn í einkaneyslunni hafi að vissu leyti komið sér á óvart.

Jón Bjarki segir að það hafi alltaf verið líklegt að sparnaðarhlutfall heimilanna væri gott eftir faraldurinn sem gæti drifið áfram einkaneysluna. Á hinn bóginn sé vaxtatækið sparnaðarhvetjandi og eykur verðmæti þess að leggja meira fyrir.

„Það hefur orðið hröð tilfærsla frá óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð eftir að vextir komu til endurskoðunar hjá hópi fólks. Það er annar þáttur sem skýrir seiglu einkaneyslunnar,“ segir Jón Bjarki.

Stuðningur ríkisins hafi áhrif

Í Peningamálum er bent á að svartsýni heimila hafi aukist frá fyrsta fjórðungi ársins. Þá hafa nýskráningar bifreiða án bílaleigna dregist saman um 43% á fyrstu sex mánuðum ársins. Grunnspá bankans gerir því ráð fyrir að einkaneysla hafi staðið í stað milli ára á fjórðungnum.

Sparnaðarhlutfall heimila er því talið hafa hækkað á ný og sé svipað og það var í lok síðasta árs.

Seðlabankinn telur að einkaneysla aukist um 1% á árinu. Gert er ráð fyrir lítillega hægari vexti á næstu tveimur árum enda talið að kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist heldur hægar en spáð var í maí.

Kári segir að fyrir fram hafi hann búist við samdrætti í einkaneyslunni í svo háu raunvaxtastigi.

„Það hefur gefið merkilega lítið efir miðað við hvað gengið er sterkt en fyrr í sumar, áður en tölurnar voru leiðréttar, spáðum við 1,1% vexti einkaneyslu í ár. Við gerum ráð fyrir enn meiri krafti þegar við uppfærum spána okkar,“ segir Kári og bendir á að raunstýrivextir séu um þessar mundir ansi háir en hafi aðeins verið það í nokkra mánuði.

„Það er spurning hvort leiðréttingin verði í gegnum vinnumarkaðinn eða hið opinbera. Það fer líka eftir vöxtum á húsnæðislánum sem er verið að endurskoða hjá mörgum og líklegt að margir velji þann kost að fara í verðtryggð lán. Við búumst ekki við stórkostlegum breytingum á einkaneyslunni,“ segir Kári.

Jón Bjarki segir að fólksfjölgun hafi að vissu leyti haldið uppi einkaneyslunni.

„Ef það fer að halla undan fæti í ferðaþjónustunni eins og margir spá þá verður þörfin fyrir vinnuafl minni og dregið gæti úr einkaneyslunni. Ég efast um að það verði mikill vöxtur í henni á næstunni,“ segir Jón Bjarki.

Í tengslum við kjarasamningana kom ríkisstjórnin með 80 milljarða króna aðgerðapakka sem hafði það markmið að létta undir með heimilum í verðbólgunni. Meðal aðgerða voru hærri vaxta- og barnabætur.

Jón Bjarki segir slíkar aðgerðir klárlega hafa áhrif og séu ekki til þess fallnar að draga úr einkaneyslunni.

„Tekjulægri heimili munar um húsnæðisstuðninginn en stuðningur ríkissins nær líka til tekjuhærri heimila, til dæmis niðurgreiddar skólamáltíðir. Það er líklegt að slíkar aðgerðir hjálpi við að halda kraftinum í einkaneyslunni,“ segir Jón Bjarki.

Kári tekur í sama streng og segir ljóst að slíkar aðgerðir hafi áhrif.

„Þetta eykur ráðstöfunartekjur líkt og launahækkanir. Fólk hefur meira milli handanna og það dregur úr markmiðum um verðstöðugleika,“ segir Kári að lokum.