Bifröst sá ekki ástæðu til að hampa starfi Guðrúnar hjá VR og Íslandsdeild Transparency International.
Bifröst sá ekki ástæðu til að hampa starfi Guðrúnar hjá VR og Íslandsdeild Transparency International.
Í stefnumiði Háskólans á Bifröst til ársins 2030 segir að skólinn hafi í heila öld menntað fólk til áhrifa og ábyrgðar í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Markmið skólans sé að efla íslenskt atvinnulíf og samfélag með því að bjóða góða menntun í viðskiptum, lögfræði og félagsvísindum

Í stefnumiði Háskólans á Bifröst til ársins 2030 segir að skólinn hafi í heila öld menntað fólk til áhrifa og ábyrgðar í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Markmið skólans sé að efla íslenskt atvinnulíf og samfélag með því að bjóða góða menntun í viðskiptum, lögfræði og félagsvísindum. Skólinn hefur lengi státað af sterkum tengslum við íslenskt atvinnulíf og því mætti ætla að trúverðugleiki skólans í íslensku atvinnulífi skipti nokkru máli.

Guðrún Johnsen var nýverið ráðin sem deildarforseti við Viðskiptadeild skólans en þrátt fyrir skínandi ferilskrá hefur hún þótt nokkuð umdeild og ekki síst í íslensku atvinnulífi. Í tilkynningu háskólans er farið yfir fyrri störf Guðrúnar, sem mörg hver eru mjög merkileg. Hins vegar eru fjölmörg störf hennar undanskilin í tilkynningunni. Þannig er ekki minnst á störf hennar sem efnahagsráðgjafa VR eða stjórnarformennsku hennar í pólitísku samtökunum Gagnsæi, sem í dag kallast Íslandsdeild Transparency International. Samtökin hafa haft það helst að markmiði að mála skrattann á vegginn hvað varðar meinta spillingu á Íslandi og skaða þannig orðspor landsins á alþjóðavettvangi. Guðrún hefur ítrekað fjallað um meinta spillingu innan íslenskra fyrirtækja opinberlega. Það má velta því fyrir sér hvaða áhrif herferð þeirra hefur haft á framboð erlends fjármagns hér á landi.

Guðrún hefur ef til vill einhverja reynslu af spillingu í íslensku atvinnulífi. Hún var um árabil varaformaður stjórnar Arion banka og gegndi um skamman tíma stjórnarformennsku. Sem slíkur vakti hún helst athygli fyrir að hafa gert breytingar á ráðningarsamningi þáverandi bankastjóra, sem leiddi til þess að hann gekk út með 150 milljónir króna í vasanum. Þetta réttlætti hún opinberlega með því að viðkomandi væri svo harður samningamaður.

Þá er ekki minnst á óformleg störf hennar sem sérlegur efnahagsráðgjafi Ríkisútvarpsins, þar sem hún hefur fengið að láta ljós sitt skína þrátt fyrir að fæstir aðrir fjölmiðlar hafi áttað sig á snilli hennar nema ef vera skyldi systurmiðill RÚV, Heimildin.

Guðrún sýndi kænsku sína meðal annars í janúar 2021, þegar fréttastofa ríkisins leitaði til hennar sem álitsgjafa í aðdraganda frumútboðs á 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór um sumarið. Spurð um málið sagði Guðrún að það kæmi sér á óvart að selja ætti hlut ríkisins i bankanum í ljósi efnahagsástandsins, að ólíklegt væri að heppilegir kaupendur myndu finnast, að stór hluti af lánum bankans væri í frystingu, að erlendir fjárfestar myndu ekki sýna bankanum áhuga og að hæpið yrði að raunvirði fengist fyrir hlutinn í bankanum.

Allt reyndist þetta rangt. Það er samdóma álit þeirra sem hafa vit á málinu að útboðið hafi heppnast afar vel, eftirspurnin var langt umfram væntingar, erlendir aðilar sýndu útboðinu mikinn áhuga og það gerðu líka íslenskir lífeyrissjóðir. Meðal annars Lífeyrissjóður verslunarmanna, hvar Guðrún sat í stjórn á þeim tíma. Fyrir utan Guðrúnu hefur Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, einn haldið því fram að hluturinn hafi verið seldur á undirverði – af því að gengi bréfa í bankanum hækkaði eftir útboðið.

Kannski að Bifröst fái hann til að kenna verðmat á fyrirtækjum.