Fjölskyldan Eydís, Magnús, María, Joshua, Sigrún, Birta og Atli í stúdentsveislu yngstu dótturinnar í vor.
Fjölskyldan Eydís, Magnús, María, Joshua, Sigrún, Birta og Atli í stúdentsveislu yngstu dótturinnar í vor.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Kristín Gunnarsdóttir er fædd 28. ágúst 1974 í Reykjavík. „Ég er Vesturbæingur í húð og hár, gekk hinn klassíska menntaveg í Melaskóla, Hagaskóla og MR, þaðan sem ég útskrifaðist af eðlisfræðideild 1993 þar sem ég var ári á undan í skóla

María Kristín Gunnarsdóttir er fædd 28. ágúst 1974 í Reykjavík. „Ég er Vesturbæingur í húð og hár, gekk hinn klassíska menntaveg í Melaskóla, Hagaskóla og MR, þaðan sem ég útskrifaðist af eðlisfræðideild 1993 þar sem ég var ári á undan í skóla. Fór þá til Bandaríkjanna sem au pair í eitt ár, passaði tvö yndisleg börn og átti mjög góðan og þroskandi tíma. Ég fór í ensku í HÍ eftir heimkomu og tók sálfræði sem aukagrein. Vann eftir útskrift fyrst á ferðaskrifstofu við skipulagningu ævintýraferða innanlands, og svo í birtingadeild á auglýsingastofu.“

María hefur starfað við hugverkaréttarráðgjöf hjá Árnason Faktor frá 2003, síðustu ár sem löglærður sérfræðingur, deildarstjóri vörumerkjadeildar og meðeigandi. „Á árunum 2009-2012 tók ég mastersgráðu í lögfræði meðfram vinnu með eitt leikskólabarn og við fermdum svo báðar eldri stelpurnar árið sem ég útskrifaðist og fórum til Flórída um páskana – það var ansi viðburðaríkt vor.“

Í starfinu hjá Árnason Faktor hefur María aðallega fengist við ráðgjöf varðandi vörumerki, ásamt því að sinna verkefnum á sviði léna, hönnunar, stöðvunar innflutnings á eftirlíkingum, höfundarréttar og samningagerðar á ýmsum tengdum sviðum. „Í starfinu hef ég kynnst íslensku atvinnulífi og þá sérstaklega nýsköpunargeiranum vel, og eru verkefnin síbreytileg og að jafnaði mjög áhugaverð. Á vinnustaðnum hef ég svo einnig séð um markaðsmál, hugbúnaðinn sem heldur utan um öll málin, sem skipta tugþúsundum, og ýmis tilfallandi sérverkefni. Ég tók svo reyndar þá stóru ákvörðun í sumar að segja starfi mínu lausu og leita nú nýrra tækifæra – vonandi í sama geira en er annars mjög opin fyrir nýjum áskorunum á öðrum sviðum ef eitthvað spennandi fellur til.“

Meðal stærstu verkefna sem María hef fengist við undanfarin ár eru andmæli og ógildingarkröfur gegn skráningu vörumerkisins Iceland í Evrópusambandinu, en sú vinna fer fram fyrir utanríkisráðuneytið, Íslandsstofu og Samtök atvinnulífsins. „Breska verslanakeðjan Iceland Foods sem rekur stórmarkaði undir nafninu Iceland fékk skráð vörumerkið Iceland í ESB, m.a. fyrir matvöru og sölu hennar, og voru þau farin að beita sér gegn skráningu vörumerkja íslenskra aðila sem hafa nafn upprunalands síns í merkinu. Við þetta varð ekki unað, og er málið nú komið fyrir dómstól ESB eftir að skráningaryfirvöld á tveimur stigum hafa úrskurðað íslensku aðilunum í vil. Ekki sér fyrir endann á málinu en við vonumst að sjálfsögðu til að ógilding skráningarinnar fáist á endanum staðfest.

Áhugamál mín eru frekar hefðbundin, tími með fjölskyldunni er þar efstur á blaði, ásamt ferðalögum og svo reyni ég að vera dugleg að hreyfa mig. Tek skorpur í ræktinni, hljóp 10 km með einni dótturinni nú í Reykjavíkurmaraþoninu og fer reglulega í gönguferðir, yfirleitt með hlaðvarp í eyrunum. Ég fell reglulega fyrir mismunandi sviðum og les og hlusta á allt sem ég kemst yfir um efnið. Núna er það gervigreind og hvernig tæknin almennt er að hafa áhrif á samfélagið, en áður hefur það t.d. verið mínímalismi og „wellness“, þ.e. líkamlegt og andlegt heilbrigði.

Mér finnst einnig afar gaman að taka myndir og á ekki langt að sækja þann áhuga, þar sem afi minn starfaði sem ljósmyndari um áratugabil, m.a. fyrir Morgunblaðið. Ég reyni með misjöfnum árangri að minnka skjátíma en lesa frekar góðar bækur og náði því markmiði að klára 50 bækur á einu ári, frá síðasta afmæli.“

María á ættir að rekja til Vestmannaeyja og hafa foreldrar hennar búið þar í um 30 ár. „Við förum því reglulega í heimsóknir þangað og missum helst ekki úr Þjóðhátíð – sem er afar gaman að upplifa með eigin börnum og allri stórfjölskyldunni í hvítu tjaldi. Ég er svo heppin að hafa fæðst inn í mjög nána og skemmtilega stórfjölskyldu og tökum við reglulega hitting saman þar sem oftar en ekki er endað á gítarspili og söng fram á nótt. Það vill líka svo skemmtilega til að óvenju margir fjölskyldumeðlimir eru fæddir á ári sem endar á 4 og eiga því stórafmæli í ár og héldum við mjög skemmtilegt sameiginlegt fjölskylduafmæli í Eyjum í júní fyrir okkur öll. Ættarhöfðinginn afi minn var þar fremstur í flokki, að verða 90 ára.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Maríu er Atli Þór Þórsson, deildarstjóri vöruhúss hjá Brimborg, f. 1.11. 1974. „Við fjölskyldan erum búsett í Vesturbænum í Reykjavík og höfum verið afar ánægð hér í nágrenni Ægisíðunnar.“

Foreldrar Atla: hjónin Þór Arason, f. 21.10. 1946, d. 11.8. 2018, smiður á Skagaströnd, og Fjóla Jónsdóttir, f. 10.11. 1947, saumakona á Skagaströnd.

Dóttir Maríu af fyrra hjónabandi er 1) Eydís Rún Arnardóttir, f. 3.7. 1998, stuðningsfulltrúi. Sambýlismaður hennar er Magnús Þór Hallsson, f. 19.11. 1990, kerfisstjóri, og búa þau í Mosfellsbæ. Dóttir Atla af fyrra sambandi og stjúpdóttir Maríu er 2) Birta Líf, f. 14.3. 1998, þjónustufulltrúi. Sambýlismaður hennar er Joshua Kingdon, f. 2.1. 2001, verslunarstjóri, og búa þau í Kópavogi. Dóttir Maríu og Atla er 3) Sigrún Fjóla, f. 16.11. 2005, háskólanemi.

Systkini Maríu eru Gunnar Geir Gunnarsson, f. 18.8. 1976, deildarstjóri hjá Samgöngustofu, búsettur í Reykjavík, og Inga Lilý Gunnarsdóttir, f. 7.9. 1977, deildarstjóri hjá Medis, búsett í Kópavogi.

Foreldrar Maríu eru hjónin Gunnar K. Gunnarsson, f. 21.2. 1950, fyrrverandi framkvæmdastjóri í Vestmannaeyjum, og Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir, f. 7.7. 1954, fyrrverandi bókavörður í Vestmannaeyjum.