Hagfræðingarnir Þórður Gunnarsson og Jón Bjarki Bentsson.
Hagfræðingarnir Þórður Gunnarsson og Jón Bjarki Bentsson.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir hagkerfið þróttmeira nú en flestir hafi gert ráð fyrir. Meðal annars birtist það í kraftmeiri ferðaþjónustu í sumar en vísbendingar voru uppi um

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir hagkerfið þróttmeira nú en flestir hafi gert ráð fyrir. Meðal annars birtist það í kraftmeiri ferðaþjónustu í sumar en vísbendingar voru uppi um. Hann segir Seðlabankann vera í erfiðri stöðu. Sumir mælikvarðar vísi í þá átt að hægja sé tekið verulega á en annars staðar virðist gangurinn vera mikill. Líkir hann stöðu bankans við mann sem standi með annan fótinn ofan í sjóðandi heitu vatni en hinn í klakavatni.

Þórður Gunnarsson ­hagfræðingur tekur í sama streng en þeir eru gestir Dagmála. Bendir Þórður þó í máli sínu á eina hagstærð sem Seðlabankinn hafi ekki fjallað um opinberlega og það er veltuhraði peninga í hagkerfinu. Nefnir hann að bandaríski seðlabankinn notist meðal annars við þennan mælikvarða þegar mat er lagt á kólnun eða hitnun í hagkerfinu. Tölur úr íslenska hagkerfinu bendi einmitt til þess að nú sé tekið að hægja verulega á umsvifum í hagkerfinu. Það sýni þróun veltuhraðans í fleiri niðursveiflum sem þekktar eru á síðari tímum hér á landi.

Í viðtalinu berst talið einnig að því hvort stjórnvöld sýni nægilegt aðhald í ríkisfjármálunum. Segir Jón Bjarki að það fari eftir því á hvaða mælikvarða sé litið. „Eins og stjórnmálamönnum er tamt þá eru ýmsir í ríkisstjórninni sem velja sér þá mælikvarða sem láta þá líta vel út,“ segir hann.

Bendir hann t.d. á að inngrip stjórnvalda í nýjustu kjarasamninga hafi ekki orðið til þess að aðstoða Seðlabankann í þeirri viðleitni að kæla hagkerfið. Þær aðgerðir hafi beinlínis örvað fasteignamarkaðinn og viðhaldið einkaneyslu. Svo er rétt sem Þórður bendir á að þótt kjarasamningar hafi verið hófsamari gagnvart atvinnurekendum þá fylgdi þeim ansi myndarlegur pakki sem á sinn þátt í að viðhalda þessari spennu á íbúðamarkaði en líka ráðstöfunartekjum og þar með einkaneyslu.

Þórður tekur undir þetta. „Atvinnuleysi hefur ekki aukist og er mjög lágt í öllum samanburði […] en þetta er að einhverju leyti út af því að fólk er að vernda sinn kaupmátt með því að fara yfir í verðtryggð lán og út úr þessum óverðtryggðu lánum. Hið opinbera hefur komið með ýmis úrræði til að auðvelda fólki lífið, það er t.d. sérstakur vaxtastuðningur sem fólk gat fengið, og það þýðir að þótt það sé verið að viðhalda miklu aðhaldi í vaxtastigi þá er alltaf verið að gefa slaka á öðrum stöðum.“ Hann segir að enn meiri spenna væri á fasteignamarkaði ef vextir væru lægri en nú.