Vörn Guðrún Arnardóttir hefur byrjað fjórtán deildarleiki með Rosengård á tímabilinu og skorað þrjú mörk.
Vörn Guðrún Arnardóttir hefur byrjað fjórtán deildarleiki með Rosengård á tímabilinu og skorað þrjú mörk. — Ljósmynd/Alex Nicodim
Knattspyrnukonan Guðrún Arnardóttir hefur verið einn besti leikmaður Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni á yfirstandandi keppnistímabili. Rosengård hefur átt lygilegt tímabil en liðið hefur unnið alla 16 leiki sína á tímabilinu til þessa, skorað 70 mörk og aðeins fengið á sig fjögur

Svíþjóð

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnukonan Guðrún Arnardóttir hefur verið einn besti leikmaður Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni á yfirstandandi keppnistímabili.

Rosengård hefur átt lygilegt tímabil en liðið hefur unnið alla 16 leiki sína á tímabilinu til þessa, skorað 70 mörk og aðeins fengið á sig fjögur. Liðið, sem hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar á síðustu leiktíð, trónir á toppi sænsku deildarinnar með 48 stig, níu stigum meira en Hammarby og Häcken og þá á Rosengård leik til góða á bæði lið þegar tíu umferðum er ólokið í Svíþjóð.

Guðrún, sem er 29 ára gömul, er uppalin á Ísafirði en hún lék með Selfossi og Breiðabliki hér á landi áður en hún hélt út í atvinnumennsku árið 2019 og samdi við Djurgården í Svíþjóð. Hún gekk til liðs við Rosengård í júlí árið 2021 og hefur tvívegis orðið Svíþjóðarmeistari með liðinu og einu sinni bikarmeistari.

Síðasta tímabil mikil vonbrigði

„Við tókum ákvörðun um það fyrir yfirstandandi keppnistímabil að við ætluðum ekki að láta síðasta tímabil endurtaka sig,“ sagði Guðrún í samtali við Morgunblaðið.

„Við vorum einfaldlega mjög lélegar á síðustu leiktíð og endum í sjöunda sætinu sem er mjög langt frá þeim stað sem klúbburinn vill vera á. Það er mun meiri hraði á æfingunum núna og yfirlýst markmið liðsins, farandi inn í tímabilið, var að allir leikmenn yrðu í besta formi lífs síns. Við höfum líka lagt áherslu að reyna að stjórna þeim hlutum sem við getum stjórnað.

Leikmannahópur Rosengård hefur verið mjög sterkur í gegnum tíðina og þjálfarateymið lagði mikla áherslu á að ná því besta út úr öllum leikmönnum liðsins. Við höfum náð mjög vel saman á tímabilinu og erum að spila mikið upp á styrkleika hvers og eins. Það er helsta ástæðan fyrir góðu gengi liðsins í ár,“ sagði Guðrún sem á að baki 41 A-landsleik og eitt mark.

Óeðlileg niðursveifla

Rosengård, sem hét áður Malmö, er sigursælasta lið sænsku úrvalsdeildarinnar frá upphafi en liðið hefur 13 sinnum orðið Svíþjóðarmeistari.

„Það ríkir mikil sigurhefð innan félagsins og ráin hjá félaginu er ansi há. Það er ætlast til þess að við vinnum alla leiki og spilum vel í öllum leikjum. Við eigum að stjórna ferðinni, alltaf, en það er mjög eðlilegt að það komi niðursveifla inn á milli. Það var samt ekki eðlilegt hversu mikil niðursveiflan var á síðustu leiktíð.

Ef við vinnum ekki deildina þá eigum við að vera að berjast á toppnum samt og horfa á annað eða þriðja sætið, ekki það sjöunda. Klúbburinn er ekki stór, samanborið við þessi stærstu lið í Evrópu, en það er mikil saga hérna og þetta félag þekkir ekkert annað en að vinna bikara í Svíþjóð. Þess vegna voru allir sem starfa í kringum félagið mjög vonsvikinir með síðasta ár.“

Tókst að laga smáatriðin

En hvað fór úrskeiðis hjá sænska stórliðinu í fyrra sem var jafnframt ríkjandi Svíþjóðarmeistari á síðustu leiktíð?

„Við ræddum það oft á síðustu leiktíð en okkur tókst aldrei að átta okkur almennilega á því hvað væri í gangi innan liðsins. Það voru hins vegar ákveðin smáatriði sem klikkuðu klárlega, smáatriði sem okkur hefur tekist að laga á þessari leiktíð. Eins og ég sagði áðan þá erum við í frábæru formi og hraðinn í leikjunum nánast sá sami og á æfingum liðsins í dag sem munar miklu.

Við vorum mikið með boltann á síðustu leiktíð en okkur gekk illa að skapa okkur afgerandi marktækifæri. Við höfum lagt áherslu á að vera beinskeyttari á vallarhelmingi mótherjanna og hvernig við komum okkur í færin. Svo er það líka þannig í íþróttum að þegar hlutirnir byrja að ganga illa þá er þetta eins og kviksyndi, það er erfitt að ná sér upp úr því.“

Meistaradeildin tók sinn toll

Rosengård lék í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð og það tók sinn toll.

„Við höfum leikið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar undanfarin tvö tímabil og það bitnaði á leikmannahópnum, klárlega. Við gengum í gegnum mikið af meiðslum enda er tímabilið búið í Svíþjóð áður en riðlakeppnin klárast. Það er erfitt að halda sér í leikformi þegar þú ert ekki að spila og við misstum marga leikmenn í meiðsli.

Við höfum líka lent í því að missa leikmenn frá okkur, sem hafa kannski leikið allt tímabilið með okkur, á meðan riðlakeppnin er enn í gangi. Við höfum eki náð markmiðum okkar í Meistaradeildinni og úrslitin síðustu ár hafa verið vonbrigði. Maður getur samt ekki hugsað annað en hvað ef. Hvað ef allir leikmenn liðsins hefðu verið heilir og að leikmannahópurinn væri sá sami og kláraði tímabilið.“

Auðvelt að misstíga sig

Þar sem Rosengård hafnaði í sjöunda sætinu í fyrra tekur liðið ekki þátt í Meistaradeildinni í ár.

„Það er súrsæt tilfinning að vera ekki að fara að taka þátt í Meistaradeildinni í ár. Þetta er stærsta keppnin og það er alltaf skemmtilegast að spila gegn bestu liðum Evrópu. Jákvæðu punktarnir eru þeir að við getum einbeitt okkur algjörlega að deildinni og sett alla okkar orku í það að verða Svíþjóðarmeistarar.

Á sama tíma leiðir maður hugann að því hvernig gengið yrði núna enda erum við að spila frábærlega og höfum ekki ennþá tapað leik. Tilfinningin er sú að við séum óstöðvandi og þá er gaman að mæta bestu liðum Evrópu. Það er samt nóg eftir af deildarkeppninni og við erum ekki að fara að fagna í bráð. Við erum mjög auðmjúkar gagnvart þeim leikjum sem eftir eru og það er mjög auðvelt að misstíga sig í sænsku deildinni. Þetta er hvergi nærri búið þótt við séum í góðri stöðu núna.“

Hefur bætt sig mikið

Rosengård spilar með þriggja manna varnarlínu og er Guðrún fastamaður í hjarta varnarinnar en hún á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

„Mér líður mjög vel í þeirri stöðu sem ég spila núna og ég myndi segja að þetta væri mín besta staða á vellinum. Ég er búin að vera hjá Rosengård núna í þrjú ár og mér líður ótrúlega vel í Malmö og borgin og umhverfið hérna hentar mér mjög vel. Ég er mjög einbeitt í að standa mig vel fyrir Rosengård en ef það kemur eitthvað spennandi upp á borðið þá veit maður aldrei.

Eins og staðan er í dag er ekkert sem bendir til þess að ég sé á förum frá Rosengård en maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér í þessum blessaða fótbolta. Ég hef þroskast mikið hjá félaginu og ég er búin að bæta mig mikið sem leikmaður hérna. Ég ætla mér að halda áfram að bæta mig og á sama tíma er ég mjög þakklát fyrir tíma minn hjá félaginu,“ bætti Guðrún við í samtali við Morgunblaðið.

Leikmönnum Rosengård var meinað að fara í viðtöl eftir sigurinn gegn Häcken, 1:0, í toppslag deildarinnar á mánudaginn síðasta þar sem Guðrún skoraði sigurmarkið í síðari hálfleik. Ástæðan fyrir viðtalsbanninu var sú að ónefndum leikmanni Rosengård bárust hótanir fyrir toppslaginn gegn Häcken.

Guðrún var spurð út í þessar hótanir af blaðamanni en vildi ekki tjá sig um málið þar sem málið er nú til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum í Svíþjóð.

Höf.: Bjarni Helgason