60 ára Valgerður ólst upp í Norðurbænum í Hafnarfirði og býr í Áslandi en einnig í Lugano í Sviss. Hún lauk læknisfræði frá HÍ 1992 og fór í framhaldsnám í lyflækningum og fíknlækningum til Bandaríkjanna, við Brown University í Providence, Rhode Island, og kom heim sem sérfræðilæknir árið 2000

60 ára Valgerður ólst upp í Norðurbænum í Hafnarfirði og býr í Áslandi en einnig í Lugano í Sviss. Hún lauk læknisfræði frá HÍ 1992 og fór í framhaldsnám í lyflækningum og fíknlækningum til Bandaríkjanna, við Brown University í Providence, Rhode Island, og kom heim sem sérfræðilæknir árið 2000. Hún lauk einnig diplómanámi í opinberri stjórnsýslu 2014 við HÍ. Eftir sérfræðinámið hefur hún verið í fullu starfi við fíknlækningar hjá SÁÁ. Varð fljótlega yfirlæknir, síðan forstjóri og er núna framkvæmdastjóri lækninga. „Starfið á hug minn allan.“

Valgerður er virk í félagsstörfum og hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum hjá Læknafélagi Íslands nefndum og ráðum, m.a. í stjórn og sem varaformaður, er nú í stjórn Félags sjúkrahússlækna. Hún kennir læknanemum og fleiri heilbrigðisstéttum. Hún er höfundur og meðhöfundur mýmargra alþjóðlegra fræðigreina á sviði fíknlækninga, er virk í samfélagsumræðu um fíknsjúkdóma og hefur setið í opinberum nefndum og ráðum um málefnið.

„Áhugamál sem ég stunda nú af kappi eru hlaup, en ég er í Hlaupahópi FH, og söngur, er í Léttsveit Reykjavíkur, en mörg önnur fylgja með. Áhugamálin halda öllu á floti og þar eru vinir, fjölskylda og nærandi umhverfi. Hlaupin eru hluti daglegs lífs, ég hef mörg undanfarin ár hlaupið minnst 2.000 km á ári. Ég hef gaman af öllum keppnishlaupum og undirbý mest fjallahlaup og langhlaup, maraþon og ultramaraþon.“

Fjölskylda Maki Valgerðar er Flavio Paltenghi, f. 1962, félagsráðgjafi. Börn Valgerðar eru Stefán Ólafsson, f. 1985, Rún Friðriksdóttir, f. 1991, og Áskell Friðriksson, f. 1995, öll búsett í Hafnarfirði. Barnabörnin eru Anna Guðrún Stefánsdóttir, f. 2009, Valur Óli Stefánsson, f. 2019, og Matthildur Strandberg Rúnardóttir, f. 2022. Börn Flavio eru Nuria, f. 1991, og Pablo, f. 1993. Systkini Valgerðar eru Elfa Rúnarsdóttir, f. 1968, Matthildur Rúnarsdóttir, f. 1972, og Eiður Rúnarsson, 1986. Foreldrar Valgerðar eru hjónin Rúnar Pálsson, f. 1945, rafvirkjameistari, og Sif Eiðsdóttir, f. 1945, sjúkraliði, búsett í Hafnarfirði.