Með því að stækka vísitöluna og taka bæði mið af seljanleika og stærð fyrirtækja endurspeglar Úrvalsvísitalan betur markaðinn og býður upp á meiri áhættudreifingu fyrir fjárfesta og sjóði sem fylgja henni.

Hlutabréfamarkaður

Finnbogi Rafn Jónsson

Framkvæmdastjóri viðskipta og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland.

Í byrjun árs tók gildi ný og endurbætt aðferðarfræði Úrvalsvísitölunnar OMXI15 þar sem félögum var fjölgað úr 10 í að hámarki 15 félög.

Með nýrri og endurbættri aðferðarfræði er bæði horft til seljanleika og stærðar félaga við hálfsársendurskoðun félaga í vísitölunni, en áður var einungis tekið mið af seljanleika. Veltumestu félögunum á íslenska markaðnum er raðað upp og valið er í vísitöluna þar til hún fangar 80% af flotleiðréttu markaðsvirði markaðarins eða hún nær 15 félögum, hvort sem kemur á undan. Með floti er átt við þau bréf sem raunverulega eru líkleg til að ganga kaupum og sölum á markaðnum. Þannig eru bréf í eigu langtímafjárfesta, sem ólíklegt er að fari í umferð, tekin út úr jöfnunni til þess að auðveldara sé fyrir sjóði að fylgja vísitölunni.

Með því að stækka vísitöluna og taka bæði mið af seljanleika og stærð fyrirtækja endurspeglar Úrvalsvísitalan betur markaðinn og býður upp á meiri áhættudreifingu fyrir fjárfesta og sjóði sem fylgja henni.

OMXI15 og tilvonandi yfirtaka JBT á Marel

Marel er stærsta félagið í Úrvalsvísitölunni og hefur verið um langa tíð. Vægi eða stærð félagsins í vísitölunni er í dag rétt rúmlega 20%. Nú þegar hluthafar John Bean Technology (JBT) hafa samþykkt valfrjálst yfirtökutilboð fyrirtækisins í Marel er ljóst að það mun hafa mikil áhrif á samsetningu Úrvalsvísitölunnar ef yfirtakan verður að veruleika.

Marel mun þó ekki hverfa af íslenskum markaði því samkvæmt skilmálum yfirtökutilboðsins verður sameinað félag JBT og Marels tekið til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi. Verði það raunin verður hægt að skipta Marel út í vísitölunni fyrir nýtt og sameinað félag. Tímasetningin á því er hins vegar háð því hvenær JBT eða sameinað JBT Marel Corporation verður tekið til viðskipta hér á landi.

Samkvæmt vísitöluaðferðarfræðinni er litið svo á að yfirtaka sé gengin í gegn þegar 90% samþykktarhlutfalli hefur verið náð.

Innkoma og áhrif JBT á Úrvalsvísitöluna

Ef JBT verður tekið til viðskipta á íslenska markaðnum áður en yfirtakan hefur í reynd átt sér stað, sem yrði þó flókið þar sem flot bréfanna á íslenska markaðnum yrði líklega takmarkað, kæmi JBT strax inn í Úrvalsvísitöluna í staðinn fyrir Marel eftir að 90% samþykktarhlutfallinu væri náð. En verði nýtt sameinað félag tekið til viðskipta eftir að yfirtakan er gengin í gegn mun Marel fyrst detta út úr vísitölunni án þess að neitt annað félag komi inn í staðinn. Síðan kæmi nýtt sameinað félag inn í vísitöluna í kjölfar skráningar á íslenska markaðinn. Í öllum tilfellum mun vægi sameinaðs félags þó verða talsvert minna en núverandi vægi Marels, þar sem einungis þau bréf sem hluthafar Marels munu fá afhent við yfirtökuna fara inn í vísitöluna.

Nýtt sameinað félag verður í grunninn tvískráð bandarískt félag með frumskráningu í Bandaríkjunum. Þetta skiptir máli þegar vísitalan er endurskoðuð á hálfs árs fresti. Til að endurspegla eftir fremsta megni íslenska markaðinn eru í tilfellum félaga með frumskráningu erlendis einungis þau bréf sem til staðar eru hér á landi tekin með inn í vísitöluna, nánar tiltekið þau bréf sem eru skráð í verðbréfamiðstöð á Íslandi. Það sama á við um allar vísitölur Nasdaq, þ. á m. heildarvísitöluna, en er ólíkt því sem gildir um önnur tvískráð félög á Aðalmarkaði þar sem þau eru öll talin vera með frumskráningu á Íslandi.