Kárhóll Jörðin Kárhóll og fasteignir eru á leiðinni á uppboð að óbreyttu.
Kárhóll Jörðin Kárhóll og fasteignir eru á leiðinni á uppboð að óbreyttu. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsta fyrirtaka uppboðsbeiðni Byggðastofnunar á jörðinni Kárhóli í Þingeyjarsveit og fasteignum sem á jörðinni eru var tekin fyrir hjá embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra sl. föstudag og var þar ákveðið að byrjun uppboðs færi fram á skrifstofu embættisins á Akureyri hinn 4

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fyrsta fyrirtaka uppboðsbeiðni Byggðastofnunar á jörðinni Kárhóli í Þingeyjarsveit og fasteignum sem á jörðinni eru var tekin fyrir hjá embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra sl. föstudag og var þar ákveðið að byrjun uppboðs færi fram á skrifstofu embættisins á Akureyri hinn 4. október kl. 10. Þetta staðfesti Svavar Pálsson sýslumaður í tölvupósti til Morgunblaðsins.

Þar kemur og fram að auglýsing um byrjun uppboðs verði send til birtingar mánudaginn 30. september nk. Tekur sýslumaður fram að honum beri að slá því á frest að uppboð hefjist, óski gerðarbeiðendur þess, en heimilt sé að fresta byrjun uppboðs um allt að einu ári.

Á Kárhóli reka Kínverjar rannsóknarstarfsemi sem miðar að rannsóknum á norðurljósum. Íslenskir aðilar hafa og aðkomu að þeim í gegnum Rannís.

„Stofnunin er í þeirri stöðu að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það er búið að liggja lengi fyrir,“ segir Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri sjálfseignarstofnunarinnar Aurora Observatory, sem er eigandi Kárhóls.

„Málið hefur verið til umfjöllunar hjá ríkinu síðan haustið 2020 með það að markmiði að leysa það, en sú lausn virðist ekki liggja fyrir enn, eftir því sem við komumst næst,“ segir hann.

„Málið hefur verið á borðum utanríkisráðuneytis, háskóla- og nýsköpunarráðuneytis og fjármálaráðuneytis eftir því sem ég veit. Okkar upplýsingar eru þær að fyrir hafi legið í ársbyrjun samkomulag um lausn á þessum málum og sú vinna hafi verið leidd af utanríkisráðuneytinu. Við áttum okkur ekki á því hvers vegna málið er núna stopp,“ segir Reinhard.

Reinhard segir að hinir kínversku aðilar hafi fjármagnað uppbygginguna á Kárhóli hingað til, en lánið sem Byggðastofnun veitti og nú er komið í vanskil hafi verið hugsað sem fjármögnun til skemmri tíma á meðan verið væri að ljúka byggingunni. Lánið, sem upphaflega var 120 milljónir, stendur nú í um 170 milljónum með dráttarvöxtum og áföllnum kostnaði.

„Fráleitt að stúta þessu“

Reinhard kannast við að kínversku leigutakarnir að rannsóknarhúsinu á Kárhóli hafi ekki veitt formlegt samþykki sitt fyrir veðsetningu eignanna, en þeim hafi þó verið kunnugt um að Aurora Observatory hafi verið nauðugur einn kostur að slá lán hjá Byggðastofnun og talið það hagsmuni verkefnisins að lánið yrði tekið. Hann segir að gengið hafi verið eftir því við stjórnvöld hvernig við skuli brugðist, en fátt hafi verið um svör. Hann kveðst þó „þokkalega bjartsýnn“ á að úr rætist áður en til uppboðs kemur. „Að stúta þessu máli væri fráleit niðurstaða,“ segir Reinhard.