Það er enginn að biðja um að stjórnmálamenn taki allar ákvarðanir sjálfir, hvort heldur stærri eða smærri. En þeir mega hins vegar ekki gleyma því að þeir voru einmitt kosnir til að taka ákvarðanir.

Stjórnun

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Í rekstri fyrirtækja er mikilvægt að bregðast hratt við þegar eitthvað bjátar á. Það gefst sjaldan langur tími til að bregðast við breyttum aðstæðum á markaði, í viðhorfi fólks eða jafnvel náttúrunni sjálfri. Þá þarf að taka ákvarðanir til að laga sig að þessum breyttu aðstæðum og það þarf oft að gerast fljótt. Það er meira að segja stundum sagt að það sé betra að taka ófullkomna ákvörðun strax en fullkomna ákvörðun of seint. Það er líklega eitthvað til í því.

Lykilatriði við ákvarðanatöku er að það er einhver sem stjórnar. Einhver sem ber ábyrgð á töku ákvörðunar, stundum að fenginni ráðgjöf hjá öðrum. Í grunninn er þetta ekki svo flókið.

En stundum virðist þetta ægilega flókið. Og oftast er það hjá hinu opinbera. Hið opinbera virðist þannig oft og tíðum haldið einhverri óskaplegri ákvörðunarfælni sem lýsir sér helst í því að draga lappirnar allt of lengi á meðan vandamálið stækkar. Ekki misskilja mig. Fundir geta verið ágætir í hæfilegum skömmtum og líklega þarf stundum að skrifa skýrslur og hóa saman fólki til að ræða málin. En oftast þarf bara að taka ákvörðun – og vinna svo eftir henni.

Það sem vekur furðu mína er að aftur og aftur koma upp vandamál sem þarf augljóslega að taka á. Þetta er reyndar oft eitthvað sem almenningur hefur vitað af í lengri tíma. Samt er það óþægilega algengt að ráðamenn virðast algjörlega koma af fjöllum þegar byrjað er að fjalla um þetta. Við getum sennilega öll séð fyrir okkur undrunarsvipinn á ráðamönnum þegar í ljós kemur að okkur gengur afleitlega í Pisa-könnunum. Ha? Hvernig getur staðið á því?

Viðbrögðin hjá þeim eru því miður grátlega oft þau sömu. Fyrst er skipaður starfshópur, með tilheyrandi kostnaði, og svo er honum falið að skila skýrslu, með enn meiri tilheyrandi kostnaði. Þessu er svo gjarnan fylgt eftir með fundi til að kynna niðurstöðuna – sem er yfirleitt sú sama – að þetta sé vissulega vandamál. Og það þurfi að gera eitthvað! Þá er það reyndar yfirleitt of seint.

Það er enginn að biðja um að stjórnmálamenn taki allar ákvarðanir sjálfir, hvort heldur stærri eða smærri. En þeir mega hins vegar ekki gleyma því að þeir voru einmitt kosnir til að taka ákvarðanir.

Hjákátlegasta dæmið er sennilega snjómoksturinn í Reykjavík. Ég ætla ekki að falla í þá gryfju að gera grín að þeirri píslargöngu, en þar er óhætt að segja að vandinn hafi verið nokkuð augljós. Við getum ímyndað okkur hvort forstjóri Hagkaupa hefði hóað í einn hressandi skýrsluskrifandi rýnihóp ef það hefði enginn komist inn á bílastæðið í Skeifunni. Svo ekki sé aðeins verið að henda gaman að því augljósa vandamáli að það snjói að vetri til, þá má líka af handahófi nefna vandræði heilbrigðiskerfisins, menntamálin og loftslagsmálin. Blætið fyrir kaffisamsætishópunum og skýrslufjöllunum er alltumlykjandi í stjórnkerfinu.

Það er ekki bara skortur á ákvörðunum sem getur reynt á taugarnar. Það er auðveldlega hægt að ímynda sér hvað það kostar samfélagið þegar hið opinbera er að kaupa sér tíma. Tími er nefnilega alls ekki ókeypis, frekar en hádegismaturinn eða sennilega nokkur máltíð yfir höfuð. Þessum kostnaði, sem fylgir ákvarðanafælni, er velt yfir á almenning sem greiðir fyrir hann með sköttum, gjöldum og ekki síst verra samfélagi sem eyðir of löngum tíma í að stara á vandamálin og skrifa um þau, í stað þess að taka ákvörðun og gera eitthvað.

Mig langar í alvöru að vita af hverju þetta þarf að vera svona. Af hverju við sitjum uppi með alla þessa starfshópa og allar þessar skýrslur um vandamál sem við höfum vitað af allt of lengi.

Þarf kannski að skipa starfshóp um faraldurinn í skipun starfshópa? Nei annars, það gæti verið of freistandi hugmynd.

Er ekki bara best að taka ákvörðun?