Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson fæddist í Reykjavík 25. maí 1934. Hann lést á bráðamóttöku Landspítalans 16. ágúst 2024.

Foreldrar hans voru Elísabet María Jónasdóttir, húsfreyja og húsmæðrakennari, f. 21.7. 1893, d. 15.4. 1978, og Aðalsteinn Pálsson, skipstjóri og útgerðarmaður, f. 3.7. 1891, d. 11.1. 1956, bæði frá Hnífsdal. Þau bjuggu á Hávallagötu 3 í Reykjavík.

Systkini Jónasar (samfeðra) voru: Páll, f. 1916, d. 1970; Össur, f. 1919, d. 2010; Sigríður Halldóra, f. 1921, d. 2003; Guðbjörg, f. 1926, d. 2017; og Ingibjörg Elín, f. 1927, d. 2009.

Eftirlifandi eiginkona Jónasar er Guðrún Ragnhildur Eiríksdóttir, Stella, f. 24. apríl 1934, foreldrar hennar voru Lilja Guðmundsdóttir, f. 1905, d. 1976, og Eiríkur Egill Kristjánsson, f. 1903, d. 1998. Jónas og Stella gengu í hjónaband 10. nóvember 1957.

Börn þeirra eru: 1) Elísabet María, f. 10.9. 1958, gift Pétri Ástvaldssyni, f. 15.5. 1959; börn þeirra eru a) Ragnhildur, f. 1.1. 1987, sambýlismaður Kári Sighvatsson, f. 1987, börn þeirra eru Davíð, f. 2011, Pétur, f. 2020, og Una, f. 2023; b) Egill, f. 8.9. 1990, sambýliskona Gyða Katrín Guðnadóttir, f. 1994, sonur þeirra er Guðni, f. 2022. 2) Lilja, f. 2.8. 1963, gift Páli Björnssyni, f. 16.7. 1963; synir þeirra eru a) Aðalsteinn, f. 11.7. 1990, sambýliskona Stella Rún Guðmundsdóttir, f. 1993, sonur hans er Tómas Björn, f. 2017; b) Jónas Björn, f. 15.3. 1994; c) Tómas Páll, f. 12.8. 1999, sambýliskona Sandra Björk Bjarnadóttir, f. 1999, sonur þeirra er Bjarni Páll, f. 2024; d) Eiríkur, f. 9.12. 2002. 3) Aðalsteinn Egill, f. 18.12. 1966, kvæntur Ásdísi Höllu Bragadóttur, f. 6.7. 1968; börn þeirra eru a) Jónas Aðalsteinn, f. 24.4. 1990, kvæntur Nínu Guðrúnu Geirsdóttur, f. 1990, dóttir þeirra er Matthildur Edda, f. 2020; b) Bragi, f. 20.1. 1999, kærasta Aldís Eyja Axelsdóttir, f. 2000; c) Lilja, f. 2.2. 2010.

Barnabörn Jónasar og Stellu eru níu og barnabarnabörn sjö.

Jónas lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1955. Hann lauk lögfræðiprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1962, varð héraðsdómslögmaður 1963 og hæstaréttarlögmaður 1968. Hann var lögfræðingur hjá Seðlabanka Íslands 1964-1965 en hóf sjálfstæðan rekstur 1965, í félagi við hæstaréttarlögmennina Guðmund Ingva Sigurðsson, Svein Snorrason og Jóhannes L.L. Helgason. Skrifstofan stækkaði með árunum og varð lögmannsstofan LEX 1987. Jónas var stjórnarformaður LEX á árunum 1997-2004. Hann var einn elsti starfandi lögmaður landsins og starfaði við lögmennsku í tæp 60 ár.

Jónas sinnti um árabil störfum sem ráðgjafi og lögmaður ýmissa fyrirtækja, stofnana og samtaka, þ. á m. á sviði vátryggingaréttar, auðlinda- og orkuréttar, eignarréttar og sjóréttar. Hann sat einnig í stjórnum fjölmargra félaga, bæði hérlendis og erlendis. Jónas gegndi einnig fjölda félags- og trúnaðarstarfa.

Hann var meðal brautryðjenda golfíþróttarinnar hér á landi, einn af stofnendum Golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði 1967 og formaður fyrstu stjórnar hans 1967-1968. Hann stundaði golfíþróttina af kappi alla ævi. Jónas var stofnfélagi í Rótarýklúbbnum Görðum og tók þátt í starfi hans alla tíð.

Þau Jónas og Stella voru meðal frumbyggja á Flötunum í Garðahreppi (síðar Garðabæ) og hafa búið á Stekkjarflöt 16 frá árinu 1964.

Útför Jónasar verður gerð frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 28. ágúst 2024, klukkan 13.00.

Ég vaknaði á ókunnugum stað og það tók mig sekúndubrot að átta mig á að ég var stödd í gömlu húsi á Ítalíu í fríi með tengdafjölskyldunni. Við vorum sextán saman. Eftir akstur af flugvellinum kvöldið áður höfðum við seint um kvöld loks komist á þennan áfangastað en myrkrið var slíkt að ekki var hægt að sjá umhverfið.

Brakið í rúminu þegar ég bylti mér var eina hljóðið sem ég heyrði og enn var svo dimmt að ég sá ekkert í kringum mig. Skynjaði hins vegar að komið var undir morgun. Spennt að upplifa umhverfið læddist ég fram úr í þeirri von að sjá sólarupprás í ítalskri sveit. Ég fikraði mig niður stigana út á steinlagða verönd og sá þar skugga af manni sem hafði þá þegar komið sér fyrir í stól í sama tilgangi og ég. Ekki fór á milli mála að þar var Jónas A. Aðalsteinsson tengdafaðir minn, stór og sterklegur, virðulegur í ljósum sumarfötum. Hann mætti mér með hlýju brosi og til að vekja ekki restina af fjölskyldunni hvísluðum við afar lágt hvort að öðru; buongiorno.

Eftir að hafa horft á geisla sólarinnar baða hlíðar þaktar vínviði ákváðum við að kanna hvort við gætum fundið nálægt þorp þar sem hægt væri að kaupa inn fyrir morgunverð. Við lögðum af stað á bílaleigubílnum, liðuðumst áfram í gegnum sólblómaakra, sýndum kindum þolinmæði á meðan þær þveruðu vegina og fundum loks smábæ með steinlögðum þröngum strætum. Íbúar voru þegar komnir á kreik og Jónas stöðvaði bílinn á torgi þar sem ég spurði eldri konu, á ensku, hvort hún gæti sagt mér hvar bakaríið væri. Hún yppti öxlum, svaraði til baka á ítölsku og ljóst var að útilokað var fyrir okkur að skilja hvor aðra.

Vonsvikin sneri ég til baka í bílinn til Jónasar, sem sagðist heldur ekki kunna ítölsku en velti fyrir sér hvort latínan úr Menntaskólanum á Akureyri gæti komið að gagni. Ekki leið á löngu þar til hann var komin í hrókasamræður við konuna á torginu, latínan streymdi frá honum í kappi við handahreyfingarnar þar sem tengdafaðir minn lét sem hann væri að smyrja og borða brauð. Við önduðum léttar þegar hún vísaði honum á bakaríið handan við hornið en þegar inn var komið og við bentum á afar girnilegan hleif á tréhillu fyrir aftan búðarborðið kom í ljós að brauðin voru einungis ætluð þeim sem höfðu lagt inn pöntun daginn áður.

Eftir nokkrar rökræður kallaði afgreiðslukonan á bakarann, sem staðfesti að hann bakaði einungis þann fjölda brauða sem búið væri að panta og aðrir fengju ekki brauð. Ég hélt að við þyrftum að snúa brauðlaus til baka en með einstakri lagni, kurteisi og húmor tókst Jónasi að sannfæra ítalska bakarann um að selja okkur brauð – ekki bara eitt heldur tvö.

Við þræddum fleiri búðir í þorpinu og sátt með árangursrík innkaup snerum við til baka. Á leiðinni naut ég þess að hlusta á Jónas segja mér frá sögu Ítalíu, valdamiklu Medici-ættinni og áhrifum heimsstyrjaldanna á stjórnmál og menningu Evrópu. Án efa tókst honum að fletta inn sögu Rússlands, Þýskalands og Bretlands með útúrdúr þar sem hinn mikli leiðtogi Churchill kom við sögu.

Restin af fjölskyldunni var vöknuð þegar við komum aftur í húsið og saman gæddum við okkur á einum þeim besta morgunverði sem ég hef fengið. Úr varð afar skemmtileg stund.

Ég mun ávallt varðveita þessa 22ja ára gömlu minningu um tengdaföður minn því hún rammar inn allt það sem mér þótti vænst um í fari Jónasar. Forvitnin og áhuginn á lífinu dreif hann fram úr á hverjum morgni. Löngunin til að reynast fólki og fjölskyldu sinni vel keyrði hann áfram. Gæskan, greindin, stálminnið, menntunin og starfsreynslan tryggðu að hann leysti úr nánast hvaða vandamáli sem var. En Jónas kunni líka að leika sér og gat innilega notið samverunnar með þeim sem hann elskaði mest – ekki síst með fjölskyldunni að spjalla um heima og geima – og borða góðan mat.

Á erfiðum tímamótum þegar söknuðurinn er mikill er ég umfram allt þakklát fyrir að hafa fengið að vera samferða einstökum manni í rúmlega 36 ár. Jónas og yndisleg tengdamóðir mín Stella, sem lifir eiginmann sinn og sálufélaga, hafa með kærleika og opinn faðm tekið allri minni fjölskyldu eins og hún sé þeirra eigin. Fátt hefur reynst mér dýrmætara.

Guð blessi minningu tengdaföður míns, Jónasar A. Aðalsteinssonar, sem mun ávallt eiga sérstakan stað í mínu hjarta.

Ásdís Halla.

Jónas, tengdafaðir minn, var af vestfirsku bergi brotinn í báðar ættir. Hár, sterkbyggður og tignarlegur eins og fjöllin fyrir vestan. Sonur Elísabetar Maríu Jónasdóttur húsmæðrakennara og Aðalsteins Pálssonar, skipstjóra og útgerðarmanns.

Hann var einstakur gæfumaður. Ein hans mesta gæfa í lífinu var að kynnast Guðrúnu Ragnhildi eiginkonu sinni fyrir meira en 70 árum, Stellu, sem nú lifir eiginmann sinn. Jónas lifði lífi sínu til fulls allt fram í andlátið bæði í leik og starfi. Leiftrandi klár og næmur fyrir umhverfi sínu.

Ég kynntist Jónasi fyrir 44 árum þegar við Lilja, dóttir hans, fórum að draga okkur saman. Ég man vel eftir okkar fyrsta samtali en þá hringdi ég í heimasímann að Stekkjarflöt 16 og Jónas svaraði; „Er Lilja heima?“ spurði ég. „Hún er að skvampa af sér,“ sagði hann, sem sagt heimasætan var í baði. Ég vissi það ekki þá en ég veit það núna, að þarna talaði ég við einn minn allra besta vin.

Jónas var kominn á tíræðisaldur en hann varð aldrei gamall. Hann kenndi mér svo margt, þar á meðal að veiða, fara á skíði og spila golf. Ásamt félögum sínum stofnaði hann Golfklúbbinn Keili og varð hans fyrsti formaður. Við spiluðum oft golf saman. Jónas stundaði sína íþótt eins og atvinnumaður, fór í sjúkraþjálfun og gerði æfingar heima. „Ég er í framför,“ sagði hann gjarnan, „nú veit ég alveg hvernig á að gera þetta.“ Í mínum vinahópi var Jónas gjarnan kallaður “Leiserinn“ vegna þess hversu beint hann sló golfboltann. Jónas var dásamlegur afi strákanna okkar Lilju og fylgdist vel með öllu sem þeir gerðu. Eitthvert mesta hrós sem hægt var að fá frá Jónasi var að vera 300 metra maður, sem sagt að slá 300 metra langt golfhögg. Allir synir okkar Lilju voru að hans sögn 300 metra menn. Meira að segja var ég kominn í þennan úrvalshóp þótt það væri auðvitað víðs fjarri sannleikanum. Þessi jákvæðni smitaði út frá sér þannig að það var alltaf gott að vera í hans félagsskap. Núna í seinni tíð hef ég áttað mig á því hver galdur hans var! Hann var sá að Jónas nálgaðist alltaf viðmælanda sinn út frá styrkleikum hans.

Ég er afskaplega þakklátur fyrir allar þær gleðistundir sem við áttum með honum, öll fjölskyldan. Eitt var þó ógert því í sumar ætlum við fjórir ættliðir að spila saman golf. Ég veit að hann hlakkaði til þeirrar stundar.

Jónas kvaddi okkur á björtum og fallegum sumardegi, hann átti reyndar bókaðan rástíma á sínum uppáhaldsgolfvelli stuttu seinna. Ég er nokkuð viss um að hinn eini sanni 300 metra maður fékk annan rástíma á öðrum stað.

Elsku Stella mín, þinn missir er mikill. Ég bið góðan guð að blessa þig og varðveita og gefa þér styrk á þessum erfiðu tímum.

Hvíl í friði, kæri tengdafaðir og vinur.

Páll

„Það eru forréttindi að fá að vera á svona jákvæðum vinnustað og skemmtilegum með þessu góða fólki. Svo gerir maður líka einstaka sinnum gagn og tekst að leysa mál.“ Þessi orð féllu í blaðaviðtali fyrir nokkrum árum við tengdaföður minn Jónas og lýsa honum afar vel – hæverskunni, sem blandin var kímni og sannri lífsgleði. Í því eins og svo mörgu öðru var hann einstök fyrirmynd.

Þegar ég heyrði fyrst getið um Jónas Aðalsteinsson, fyrir margt löngu, var tekið fram að þar færi mjög stór maður. Enda eðlilegt, það tóku nefnilega allir eftir honum þar sem hann fór. Það var sannur höfðingjabragur yfir honum sem vakti mikið traust. Sögunni fylgdi að þar færi líka séntilmaður; ef snara ætti fram skilgreiningu á því hugtaki þá væri það Jónas.

Við tengdumst fyrir rúmum fjörutíu árum og áttum ævilanga vináttu. Hann tók mér opnum örmum. Um þær mundir og löngum síðar hafði hann fangið fullt af verkefnum – ég hygg að mörgum hafi þótt þeir hólpnir í sínu veraldarvafstri að eiga Jónas að sem bakhjarl. Þau voru mörg tryggðaböndin sem hnýtt voru, fyrr og síðar, þar sem hann var annars vegar.

Þegar vinnunni sleppti tóku áhugamálin við og þau voru ófá um dagana. Áhugasviðið var ótrúlega vítt og eðlislæg forvitni var drifkrafturinn. Hann fékk ungur ljósmyndadellu sem fylgdi honum allar götur, golfinu kynntist hann ungur og lék það af list til hinsta dags. Hann var slyngur briddsspilari, naut sín á skíðum og við veiðar. Allar tækni- og græjunýjungar höfðuðu mjög til hans, enda gekkst hann fúslega við því að vera með tækjadellu. Öllu þessu deildi hann af rausn með fjölskyldunni.

Gæfa Jónasar var fjölskyldan, hans yndislega Stella, börnin, barnabörnin og langafabörnin, og hann var afar stoltur af þeim öllum. Jónas var í raun ekki margorður um sig sjálfan, jafnan lítillátur og ekki mikið fyrir að láta á sér bera. „Ég hef verið lukkunnar pamfíll,“ heyrði ég hann þó segja eitt sinn, á sinn hógværa hátt. Jónas var fjölskyldumaður; upp í hugann koma svipmyndir af honum þar sem hann horfir brosandi yfir stóra hópinn sinn í bústaðnum við Þingvallavatn, sem rammaði inn ótal samverustundir okkar allra.

Þegar horft er yfir langa ævi Jónasar lýsir af henni hve farsæll hann var. „Hvað er langlífi?/ Lífsnautnin frjóva,/ alefling andans / og athöfn þörf,“ kvað nafni hans Hallgrímsson, þau orð verða mjög auðveldlega heimfærð á Jónas. Hann var stemningsmaður sem kunni að njóta þess sem lífið býður og stefndi alltaf fram á við.

Nú kveðjum við hann, öðlinginn, með þakklæti. Þótt tjaldið hafi verið dregið fyrir er hann eiginlega enn á sviðinu, svo sterk var nærvera hans. Um leið hugsum við um allt sem hann gaf og hin djúpu áhrif: örlætið, góðvildina og lífsgleðina – alltaf styðjandi, alltaf hvetjandi. Og stóru þykku hendurnar, handtakið sem var svo ótrúlega hlýtt.

Blessuð sé minning hans.

Pétur Ástvaldsson.

Andlát vinar okkar og spilafélaga í áratugi, Jónasar A. Aðalsteinssonar hrl., kom okkur spilafélögum hans og líklega flestum er umgengust hann á óvart. Ekkert í fari Jónasar undanfarið benti til þess að „vætturin með ljáinn“ hefði sérstakt auga með félaga okkar. En hér staðfestist enn einu sinni að enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Jónas varð félagi í spilaklúbbi okkar síðla á síðustu öld við fráfall Kristins Einarssonar hrl. Við vorum og erum sérsinna, en Jónas féll strax vel inn í hópinn og tók þar fullan og óskoraðan þátt, sem hann hefði verið stofnfélagi. Við spiluðum að jafnaði vikulega, á víxl heima hjá hver öðrum, og nutum veitinga að hætti hverrar frúar, sem ber að þakka kærlega fyrir, bæði fyrirhöfn og þolinmæði.

Fráfall Jónasar vekur, eðli máls samkvæmt, margar ljúfar minningar okkar spilafélaganna frá liðnum árum og áratugum, sem lifa munu meðan andann drögum. Samband okkar allra varð smám saman náið og vinátta í fyrirrúmi sem tók langt út fyrir umsvif spilaklúbbsins.

Jónas spurði oftlega í upphafi hvers spilakvölds hvaða kerfi við ættum að spila í það skiptið. „Sullið“ varð oftast ofan á en það er eins konar blendingur úr Vínarsagnakerfinu og Gorenkerfinu, en hér verður ekki farið nánar út í hvað í því fólst.

Jónas var þekktur hæstaréttarlögmaður og naut sem slíkur sérstakrar virðingar. Ásýnd hans, framkoma og fas var yfirvegað og til þess fallið að skapa traust. Rólynd aðkoma hans að lögfræðilegum álitaefnum var til fyrirmyndar. Það var hreinlega unun að hlusta á hann flytja mál sitt og rökstyðja hvort sem var á dómþingi eða annars staðar.

Samúðarkveðjur færum við aðstandendum Jónasar og megi blessun fylgja honum og minningu hans. Jónasar verður sárt saknað.

Benedikt Sveinsson, Pálmi Ragnar Pálmason, Skúli Jón Pálmason, Stefán Már Stefánsson.

Með Jónasi A. Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni er genginn einn reynslumesti lögmaður í sögu íslensku lögmannastéttarinnar. Hann öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 1963 og fyrir Hæstarétti 1968 og starfaði sem lögmaður allt til dánardags, eða í um 60 ár. Jónas gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Lögmannafélag Íslands. Hann sat í stjórn félagsins árin 1967-1969 og 1979-1981 og sat einnig í ýmsum nefndum þess um lengri eða skemmri tíma. Jónas var ásamt fleirum brautryðjandi þegar kom að uppbyggingu í rekstri og starfsemi lögmannsstofa hér á landi en saga hans í lögmennsku er samofin lögmannsstofunni Lex sem er meðal stærstu og rótgrónustu lögmannsstofa landsins. Jónasi var alla tíð treyst fyrir fjölbreyttum verkefnum á meginsviðum íslenskrar lögfræði og gegndi lykilhlutverki í samningagerð í mörgum stórum framkvæmdum, þar á meðal á sviði orkuréttar og mannvirkjagerðar, ásamt því að flytja fjöldann allan af málum á löngum starfsferli sínum. Jónas lýsti sjálfum sér sem „tæknifíkli“ og var alla tíð áhugasamur um að nýta nýjustu tækni við lögmannsstörfin, allt frá ljósritunarvélum sem voru að ryðja sér til rúms á sínum tíma til snjallsíma.

Fyrir Jónasi var lögmennskan ákveðinn lífsstíll. Í viðtali við Lögmannablaðið fyrir nokkrum árum lýsti Jónas því að hann hefði aldrei langað til að setjast í helgan stein og alltaf haft gaman af starfinu. Ekkert jafnaðist heldur á við að mæta á skrifstofuna og hitta samstarfsfélagana.

Sá er þetta ritar var þess aðnjótandi að starfa í sama húsi og Jónas um margra ára skeið. Alltaf tókum við tal saman ef við hittumst við lyftuna og yfirleitt snerust umræðurnar um lögfræðina og anga hennar sem Jónas hafði alltaf jafn mikinn áhuga á. Síðasta spjall okkar er mér minnisstætt, en það fór fram á bílastæðinu í Borgartúni 26 í vor og snerist ekki um lögfræði heldur um hvor okkar hefði lagt bíl sínum verr þann daginn og mátti ekki á milli sjá.

Fyrir hönd Lögmannafélags Íslands þakka ég Jónasi samfylgdina og störf í þágu félagsins um leið og félagið sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Með kveðju frá Lögmannafélagi Íslands,

Stefán A. Svensson,
formaður LMFÍ.

• Fleiri minningargreinar um Jónas A. Aðalsteinsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.