Bjarni Jónsson
Bjarni Jónsson
Víða hafa íbúar upplifað óöryggi þegar byggðarlög hafa lokast af í lengri og skemmri tíma landleiðina.

Bjarni Jónsson

Það var stór og langþráður áfangi fyrir Húnvetninga þegar framkvæmdir við efnisskipti og lagningu bundins slitlags á Blönduósflugvöll hófust á dögunum og ekki síður að verkið verður klárað í einum áfanga. Eftir áralanga baráttu heimamanna og okkar sem höfum lagt henni lið er verkið í höfn.

Tryggt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu skiptir miklu fyrir búsetuöryggi. Þar gegnir sjúkraflug um Blönduósflugvöll lykilhlutverki fyrir íbúa í Húnavatnssýslum og þann fjölda fólks sem ferðast þar um. Á Blönduósi eins og víðar um land hefur margvíslegri þjónustu verið hagrætt í burtu eins og veigamikilli bráðaþjónustu. Af þeim sökum er öruggt aðgengi að sjúkraflugi vegna alvarlegra veikinda eða slysa lífsnauðsyn. Við þekkjum að landleiðin inn og út úr héraðinu hefur lokast jafnvel dögum saman og þar fara 700.000 bílar um á ári. Einnig hafa orðið alvarleg hópslys. Blönduósflugvöllur er eini flugvöllurinn á svæðinu milli fjallveganna um Holtavörðuheiði og Þverárfjall/Vatnsskarð og gegnir því enn mikilvægara hlutverki sem sjúkraflugvöllur. Jákvæðar fréttir berast úr héraðinu um margvíslega uppbyggingu. Fjölbreytt og góð búsetuskilyrði skipta miklu fyrir frekari eflingu byggðar og þar er búsetuöryggi og tryggt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu grundvallaratriði. Þar gegnir sjúkraflug um Blönduósflugvöll lykilhlutverki fyrir íbúa í Húnavatnssýslum og þann fjölda fólks sem ferðast þar um.

Baráttan heldur áfram

Bundið slitlag og traust undirlag er forsenda þess að flugvöllurinn sé nothæfur þegar á þarf að halda og að öryggi flugáhafna og farþega sé tryggt. Fyrir harðdrægni og seiglu hefur því verið komið í verk að leggja flugbrautina á Blönduósflugvelli bundnu slitlagi. Með árvekni heimamanna og eftirfylgni á elleftu stundu tókst einnig að tryggja að flughlaðið væri þar ekki undanskilið, það svæði sem flugvélar þurfa til að snúa og þyrlur til lendingar. Það er mikilvægt að fylgja málum eftir alla leið. Góður og öruggur ljósabúnaður skiptir einnig miklu máli og aðflugskerfi. Ekki eru mörg ár síðan aðflugsljós voru löguð og komið upp GPS-kerfi til að auðvelda flug um völlinn. Engu að síður er staðan þannig að aðflugsljós hafa verið biluð um hríð og ekki hefur enn verið brugðist við þeim alvarlega öryggisbresti af hálfu Isavia. Það er mikilvægt að koma því sem fyrst á dagskrá í næstu samgönguáætlun að endurnýja ljósabúnað á Blönduósflugvelli. Það verður hins vegar að tryggja að eldri ljósabúnaði sé viðhaldið og hann virki þar til tekst að fjármagna og koma upp nýjum og fullkomnari búnaði. Hér er verk að vinna á næstu vikum og mánuðum. Það verður að tryggja að þessu verði kippt í liðinn hið fyrsta. Þá þarf að tryggja þjónustu við völlinn, ekki síst vetrarþjónustu, svo viðbragðstími sé sem skemmstur og Blönduósflugvöllur geti öllum stundum gegnt hlutverki sínu fyrir byggðina sem sjúkraflugvöllur.

Átak í uppbyggingu sjúkraflugvalla

Víða hafa íbúar upplifað óöryggi þegar byggðarlög hafa lokast af í lengri og skemmri tíma landleiðina og þá skiptir máli að öflugt öryggisnet sé fyrir hendi. Margt kemur til, ekki síst að margvíslegri þjónustu hefur verið hagrætt á fáa staði á landinu, eins og mikilvægri bráðaþjónustu. Því er öruggt aðgengi að sjúkraflugi vegna bráðra veikinda, slysa og þegar fljúga þarf með þungaðar konur og börn lífsnauðsyn. Ástand margra flugvalla sem gegna veigamiklu hlutverki fyrir sjúkraflug er bágborið eftir áralangan skort á umbótum og viðhaldi. Þá hefur ekki síður búnaði á flugvöllum til sjúkraflugs verið illa við haldið og vantar talsvert upp á víða. Vonandi tekst að vinna það upp með góðu átaki næstu ár. Tilkoma varaflugvallagjalds sem rennur beint til uppbyggingar þeirra hefur í för með sér að meiri fjármunir verða til skiptanna fyrir aðra flugvelli í landinu. Það er verk að vinna.

Höfundur er þingmaður NV-kjördæmis og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Höf.: Bjarni Jónsson