Orkuskipti Orkubú Vestfjarða og Landsnet þurfa að brenna olíu.
Orkuskipti Orkubú Vestfjarða og Landsnet þurfa að brenna olíu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Orkubú Vestfjarða hefur brennt 60-70 þúsund lítrum af olíu vegna rafkyntra hitaveitna á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri, Patreksfirði og í Bolungarvík. Ástæðan er að Landsnet vinnur nú að fyrirbyggjandi viðhaldi á Vesturlínu og því hefur Orkubúið þurft að grípa til olíubrennslu og skerðinga á raforku

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Orkubú Vestfjarða hefur brennt 60-70 þúsund lítrum af olíu vegna rafkyntra hitaveitna á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri, Patreksfirði og í Bolungarvík. Ástæðan er að Landsnet vinnur nú að fyrirbyggjandi viðhaldi á Vesturlínu og því hefur Orkubúið þurft að grípa til olíubrennslu og skerðinga á raforku. Landsnet hefur einnig þurft að brenna 45-50 þúsund lítrum í ágúst vegna viðhaldsins.

Vatnsdalsvirkjun yki afhendingaröryggi um 90%

Elías Jónatansson orkubússtjóri segir að í tilfellum sem þessum hafi Landsnet heimild til að skerða flutning til notenda sem séu með samninga um skerðanlegan flutning. Hann tekur undir orð Kristján Jóns Guðmundssonar, skrifstofustjóra rækjuvinnslunnar Kampa á Ísafirði, sem lét þau orð falla í Morgunblaðinu sl. mánudag að ef búið væri að virkja í Vatnsfirði hefði verið óþarfi hjá Landsneti að skerða flutning á raforku til Vestfjarða.

„Það er ekki nægjanleg orka fyrir hendi þegar eina flutningslínan inn á svæðið er straumlaus. Það er óásættanlegt að heill landshluti hafi ekki nægilegan aðgang að orku. Ástæða þess að Orkubú Vestfjarða hefur haldið Vatnsdalsvirkjun svo mikið á lofti í umræðunni er að hún leysir umrætt vandamál um leið og hún eykur afhendingaröryggi um 90%. Virkjunin er nálægt tengipunktinum í Mjólká, þar sem 90% af orkunotkun Vestfirðinga fara um. Verði virkjunin að veruleika þarf ekki að bíða eftir tvöföldun flutningslínunnar inn á Vestfirði eða nýrri línu í tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og uppbyggingu nýrra virkjana þar.“

45 ára tréstauralína tryggir skert rafmagn inn á svæðið

Aðspurður segist Elías ekki hafa upplýsingar um stöðuna á Hvalár­virkjun en bendir á að bæði Hvalá og Vatnsdalsvirkjun séu virkjunarkostir utan hamfarasvæða og vel til þess fallin að auka orkuöryggi, ekki bara á Vestfjörðum heldur á landinu öllu.

Elías telur einsýnt að innan 10 til 15 ára þurfi að leggja nýja Vesturlínu, væntanlega með stálmöstrum, í stað núverandi línu sem sé orðin 45 ára gömul tréstauralína og komin á seinni hluta áætlaðs líftíma, að mati Orkubúsins.

Heill landshluti hefur ekki aðgang að hreinni raforku

Þrjú fyrirtæki á Vestfjörðum hafa orðið fyrir skerðingu á raforku vegna viðhaldsins á Vesturlínu: Rækjuverksmiðjan Kampi, Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal og Orkubú Vestfjarða, þar sem skerðingin var mest. Orkubúið kaupir skerðanlegan flutning vegna rafkyntra hitaveitna í sveitarfélögunum.

„Á öllum þessum stöðum þarf í tilfellum sem þessum að keyra olíukatla til að halda húsum heitum á þessum stöðum,“ segir Elías

Í langtímaáætlunum Landsnets stendur til að tvöfalda Vesturlínu að hluta. Þær áætlanir miða við að búið verði að byggja nýjar virkjanir og tengja þær inn á tengipunkt í Ísafjarðardjúpi.

Olíukatla þarf til að halda húsum heitum

Þrjú fyrirtæki hafa orðið fyrir skerðingu á raforku: Rækjuverksmiðjan Kampi, Kalkþörungaverksmiðjan og Orkubúið, þar sem skerðingin var mest.

Virkjunarkostir við Hvalá og í Vatnsdal eru utan hamfarasvæða og vel til þess fallnir að auka orkuöryggi, ekki bara á Vestfjörðum, heldur á landinu öllu.