John Francis Zalewski fæddist 9. ágúst 1948. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn 14. ágúst 2024.

Foreldrar hans voru hjónin John Francis Zalewski, f. 1926, d. 2003, og Helga Kristófersdóttir frá Bjarmalandi í Sandgerði, f. 1927, d. 2004.

Systkini Jóns eru Kristín Zalewski, f. 1949, sem býr í Reykjavík, og Kristófer Zalewski, f. 1951, er býr í Hafnarfirði.

Seinni maður Helgu var Gísli Júlíusson úr Hafnarfirði, f. 1927, d. 2004. Þeirra börn og hálfsystkini Jóns eru Þuríður, f. 1960, og Ólafur, f. 1961. Fyrir átti Gísli þau Jón, f. 1949, Margréti, f. 1956, d. 2009, og Júlíönu, f. 1957.

Með Júlíu Sveinsdóttur, f. 1949, átti Jón Sveindísi Helgu (Cindy Vincenti), f. 27. september 1965. Dóttir hennar er Júlía María, f. 6. júlí 2001.

Eiginkona Jóns var Unnur Þorsteinsdóttir, f. 22. september 1948. Þau giftu sig 22. október 1972 og áttu saman: a) Annel Jón, f. 9. júlí 1976. Sonur hans er Atli Freyr, f. 25. janúar 2007. b) Jenný Heiðu, f. 7. janúar 1978. Dóttir hennar er Veronica Salka, f. 17. nóvember 2005. Dóttir Unnar og stjúpdóttir Jóns
er Huldís Franksdóttir Daly, f. 5. maí 1968. Hún á þrjú börn.

Jón og Unnur skildu. Hann var síðar í sambúð með Kristínu Guðnýju Einarsdóttur, f. 1949, d. 2011.

Jón ólst upp í Sandgerði og Njarðvíkum þar sem
hann lauk gagnfræðaprófi. Hann vann einnig sem
verkamaður og sjómaður.
Fór í Iðnskólann og lauk sveins- og meistaraprófi í húsasmíðum. Hann starfaði síðan sem slíkur alla tíð og meðal verka hans má nefna Seljakirkju, Læknagarð og fjölbýlishús í Breiðholti, Grafarvogi og að Sjávargrund í Garðabæ.

Útför hans fer fram frá Seljakirkju í dag, 28. ágúst 2024, klukkan 15.

Fögur er foldin,

heiður er Guðs himinn,

indæl pílagríms ævigöng.

Fram, fram um víða

veröld og gistum

í Paradís með sigursöng.

Þessar ljóðlínur koma upp í huga minn, nú er ég kveð Jón bróður minn eða Nonna eins og hann var jafnan kallaður af ættingjum og vinum. Fjölskyldan var samsett, þ.e. mamma átti hann, systur mína Kristínu og svo Kristófer áður en hún kynntist Gísla föður mínum. Hann var þá einnig fráskilinn þriggja barna faðir. Á ýmsu gekk í gegnum árin en fyrstu minningarnar um þennan eldri og hæfileikaríka bróður eru að fjölskyldan og börnin voru í fyrsta sæti hjá honum. Þá bjó hann inni á heimilinu, lukkulega trúlofaður æskuunnustunni Júlíu og með nýfædda dóttur, Sveindísi Helgu. Ekki leið þó á löngu þar til þau voru farin að búa sjálfstætt í nágrenninu í Njarðvíkum á Suðurnesjum. Hlé varð á kátínu og gleði er leiðir þeirra Júlíu og Nonna skildi og dóttirin fluttist til Bandaríkjanna með móður sinni. Nýjar konur komu þó fljótlega í líf hans, þ.e. Unnur og dóttir hennar Huldís sem Nonni gekk í föðurstað. Búskapur þeirra hófst í bílskúr á Langholtsveginum. Þá vorum við hin í fjölskyldunni flutt upp í Hreppa. Er Nonni og Unnur voru í fríum stóð bílskúrinn ekki tómur heldur fengum við afnot af honum. Sama gilti er hjónin voru komin í eigin íbúð í Asparfelli og börnin orðin fleiri, Annel Jón og Jenný Heiða komin til sögunnar. Mikil gestrisni einkenndi heimilishaldið. Leiðir Unnar og Nonna skildi. Þá var hann orðinn byggingameistari sem lifði fyrir vinnu sína og tók að sér umfangsmikil verk en fjármálin virtust vefjast fyrir honum. Sem betur fer fann hann síðan bókara sem aðstoðaði hann á réttan kjöl fjárhagslega. Eins og fyrr sagði leit hann á sig fyrst og fremst sem fyrirvinnu fjölskyldu sem á honum þurfti að halda. Hann hóf nýjan hjúskap með Kristínu, atorkusamri konu frá Bessastöðum í Húnavatnssýslu. Tvö börn hennar, Ólöf og Eggert, voru til heimilis hjá þeim, einnig Jenný Heiða og nýfædd dóttir hennar, Veronika Salka. Haldin voru tvö heimili, annað í Lundahólum í Reykjavík og hitt fyrir norðan. Foreldrar mínir létust á þessu tímabili og reyndist Nonni mér betur þá en enginn. Iðulega hringt í mig á föstudögum og sagt að Kristín væri með eitthvað gómsætt í ofninum sem upplagt væri fyrir mig að smakka með þeim.

Nonni var ræktarsamur við vini sína og þá sem unnu fyrir hann. Fannst honum gaman að halda tækifærisveislur og veita vel. Sambandi hélt hann við Kristján æskuvin sinn á meðan sá síðarnefndi lifði. Fyrir utan vinnuna og fjölskylduna sinnti hann í áratugi áhugamálum sem tengdust frímerkjasöfnun, hélt námskeið og tók þátt í sýningum.

Hvíl í friði.

Þín systir,

Þuríður
Gísladóttir.

Okkar kæri frændi, Jón Francis Zalewski, verður lagður til hinstu hvílu í dag. Á þessum degi viljum við bræðurnir þakka Nonna fyrir alla þá umhyggju og vináttu sem hann ávallt sýndi okkur. Á uppvaxtarárum okkar var hann mikill velgjörðarmaður móður okkar sem hafði misst mann sinn þrítug með tvo syni, tveggja og þriggja ára, og yngsta soninn ófæddan. Nonni sýndi móður okkar einstaka hjálpsemi og var ávallt boðinn og búinn að veita henni aðstoð og fylgdist grannt með framgangi okkar bræðranna. Hann var því órjúfanlegur hluti af uppvaxtarárum okkar. Hafði móðir okkar það gjarnan að orði að Nonni hefði hjartað á réttum stað.

Nonni fæddist og ólst upp í Keflavík og hafði ávallt sterkar tilfinningar til þessa uppeldisstaðar sína. Móðir hans, Helga, sem var systir föður okkar, hafði kynnst bandarískum hermanni á Keflavíkurflugvelli á stríðsárunum og átti með honum þrjú börn en síðar skildi leiðir þeirra og hann hélt þá aftur til heimalands síns. Helga giftist síðar Gísla Júlíussyni, miklum sómamanni, sem gekk börnum hennar í föðurstað.

Nonni var einungis 16 ára þegar hann varð faðir í fyrsta sinn en dóttir hans, Sveindís Helga, fluttist snemma með móður sinni til Bandaríkjanna og hefur alið sinn aldur þar og stofnað til fjölskyldu þannig að samverustundir þeirra feðgina voru stopular og hann gat því lítið komið að uppvexti hennar. Hann kynntist ungur konu sinni, Unni, og átti með henni tvö börn, Jenný Heiðu og Annel, og gekk auk þess dóttur Unnar, Huldísi, í föðurstað. Unnur og Nonni voru glæsileg hjón og samrýmd þangað til að erfiðleikar knúðu dyra hjá þeim í byrjun þessarar aldar og leiðir þeirra skildi.

Nonni var lærður byggingameistari og kom að mörgum mikilvægum byggingum í borginni. Hann lagði mikinn metnað í vinnu sína og ávann sér virðingu samstarfsmanna sinna. Það er því vel við hæfi að Nonni sé kvaddur í dag frá Seljakirkju en hann var byggingameistari hennar á sínum tíma. Við bræðurnir munum vel hversu annt honum var um þessa kirkjubyggingu og hann sinnti þessu mikilvæga verki af lífi og sál.

Frændi okkar var mjög hlýr og rausnarlegur maður og sýndi í verki að betra er að gefa en þiggja. Þegar móðir okkar festi kaup á íbúð á Tómasarhaganum, þá málaði Nonni hana þrátt fyrir það að vera önnum kafinn við að reka byggingarfyrirtæki sitt og með ört stækkandi fjölskyldu.

Síðasta áratuginn átti Nonni við erfið heilsuvandamál að stríða og dvaldist í nokkur ár á Landakoti og síðan á Seltjörn, hjúkrunarheimilinu á Seltjarnarnesi, og fékk á báðum stöðum góða umönnun sem ber að þakka. Var erfitt að sjá okkar öfluga frænda missa svo hratt líkamlega heilsu sína og undir lokin átti hann erfitt með að tjá sig. Þrátt fyrir veikindin kom Nonni í jarðarför Gumma bróður okkar í maí til að kveðja hann.

Nú þegar leiðir skilur að sinni, þá þökkum við okkar góða frænda og velgjörðarmanni fyrir alla vináttuna og velvildina og biðjum almáttugan Guð að taka hann í faðm sinn.

Kristinn Sv.
Helgason og
Helgi Kr.
Helgason.