Á vaktinni Lögreglan hefur varað við vopnaburði ungmenna á Íslandi.
Á vaktinni Lögreglan hefur varað við vopnaburði ungmenna á Íslandi. — Morgunblaðið/Eggert
Kristján Jónsson kris@mbl.is

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Ég tek undir það sem fram hefur komið hjá lögreglunni að þetta er útbreiddara vandamál en fólk gerir sér grein fyrir,“ segir Gissur Ari Kristinsson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar 100og1, en hann hefur starfað með ungmennum á grunnskólastigi í liðlega áratug.

Vopnaburður hérlendis hefur af og til verið í umræðunni á allra síðustu árum enda hefur hnífum verið beitt í árásum og átökum í talsverðum mæli. Líklega hefur það komið hinum almenna borgara nokkuð á óvart að hnífaburður þekkist ágætlega hjá ungmennum á grunnskólaaldri.

Sofnað á verðinum

„Staðan er ekki góð í þessum málum eins og fram hefur komið í umfjölluninni að undanförnu. Við starfsfólk í félagsmiðstöðvum upplifum stöðuna þannig að við verðum vör við fleiri ofbeldisbrot og grófari síðustu árin. Við sem samfélag höfum ef til vill sofnað á verðinum. Staðan var orðin góð hérlendis fyrir nokkrum árum. Í tíu til tuttugu ár var unnið ofboðslega gott forvarnarstarf, meðal annars í ofbeldisforvörnum. Nú er hins vegar nokkuð um að krakkar upplifi sig ekki örugg og við höfum orðið vör við að sum þeirra finna sig knúin til að bera vopn,“ segir Gissur Ari. Skólastjóri í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu tekur í sama streng og segir algengara en áður að ungmenni á grunnskólaaldri beri vopn. Hann tekur skýrt fram að ekki sé algengt að slík mál komi upp innan skólans en þó séu dæmi um það. Einnig þekkist að nemandi í uppnámi hóti því að sækja hníf, eða mæta næst með hníf, eða eitthvað í þá veruna. Auk þess sé umræða meðal nemenda um hnífaburð hjá jafnöldrum.

Skólaskyldan er sterk

Spurður um verklagið ef upp kemst um hnífaburð hjá nemanda í grunnskóla segir skólastjórinn að hnífurinn sé tekinn af viðkomandi og geymdur á skrifstofunni. Foreldrar geti sótt hnífinn um leið og þau sækja nemandann.

Varðandi brottvísun úr skóla eigi hún einungis við um mjög alvarleg tilfelli og slíkt sé gert í samræmi við lög. Foreldrar hafi þá til að mynda andmælarétt en sé brottvísun beitt kemur viðkomandi nemandi ekki í skólann í tvo til fimm daga. Skólaskyldan sé sterk og brottvísun nær ekki yfir lengri tíma. Á meðan sé ákveðið hvað bíði nemandans í skólastarfinu þegar hann snýr aftur. Nokkrar leiðir séu færar í þeim efnum. Nemandanum gæti verið fylgt í skólanum eða hann fái breytta stundatöflu.

Varðandi verklagið í félagsmiðstöðvum í slíkum tilfellum segir Gissur að viðkomandi fái ekki að mæta aftur í einhvern tíma og verklagið hjá félagsmiðstöðvunum komi frá Reykjavíkurborg. „Ef upp kæmi vopnaburður hjá okkur þá yrði viðkomandi í banni í eina viku. Haft yrði strax samband við foreldra og lögreglu. Slíkt mál myndi teljast alvarlegt frávik hjá okkur. Í framhaldinu væri málið unnið í samstarfi við okkar deildarstjóra hjá frístundamiðstöðvunum.“

Skólaárið nýhafið

„Sem betur fer hef ég ekki orðið var við mál tengd vopnaburði í skólunum í upphafi skólaársins. Skólarnir eru hins vegar að taka við miklum fjölda nýnema eins og jafnan síðsumars. Í Borgarholtsskóla sem dæmi eru þrjú hundruð nýir nemendur að hefja nám,“ segir Anton Már Gylfason, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum.

„Það eru krakkar sem starfsfólk skólans þekkir ekki fyrir og lögð er áhersla á að vera meðal þeirra og fylgjast með samskiptunum. Ekkert mál hefur komið upp sem er tilefni til inngrips í þessu samhengi. En við leitum ekki á nemendum í skólanum,“ segir Anton og hér er rétt að skjóta inn í að annað getur gilt um samkomur eins og skólaböll en skólastarfið sjálft.

Anton segist þekkja nokkur dæmi um hnífaburð í íslenskum framhaldsskólum í gegnum tíðina og voru hnífarnir gerðir upptækir. Ekki hafi verið meira um það síðasta vetur en áður og slíkt gerist alls ekki oft.

„Í ljósi þróunarinnar komum við til með að uppfæra okkar verklag. Ef einhverjir reyna að komast inn á skemmtanir á vegum skólanna með vopn í farteskinu má reikna með að það verði meira mál en áður í ljósi umræðunnar. Eftir fréttir helgarinnar er þetta mál komið meira á dagskrá og fréttir sem þessar auka umræðuna meðal starfsfólks. Það er ekki óeðlilegt að þessi umræða tengist framhaldsskólunum að einhverju leyti í ljósi þess að þar er fjöldi ungmenna frá degi til dags,“ segir Anton.

Höf.: Kristján Jónsson