Vilborg Guðrún Kristjánsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu forseta Íslands, fæddist í Reykjavík 29. mars 1930. Hún lést á dvalarheimilinu Seltjörn 17. ágúst 2024.

Foreldrar hennar voru Kristján Kristjánsson skipstjóri, f. 1893, d. 1958, og Guðrún Hafliðadóttir húsfreyja, f. 1901, d. 1969. Bróðir samfeðra: Rafn Kristján Kristjánsson, f. 1927, d. 2012.

Fyrri eiginmaður Vilborgar var Jóhann Gíslason, deildarstjóri flugrekstrar- og tæknideildar Flugfélags Íslands, f. 1925, d. 1968. Börn þeirra eru: 1) Kristján, f. 4.1. 1951. Maki Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 1951. Börn: a) Jóhann Ingi, f. 1975. Maki Inga Rósa Guðmundsdóttir, f. 1975. Börn: Kristján Ingi, Guðveig Lísa, Guðmundur Orri og Jóhann Már. b) Sigríður Ósk, f. 1978. Unnusti Gunnlaugur Jónsson, f. 1976. Dóttir hennar Helena Inga Kristinsdóttir. c) Guðrún Helga, f. 1986. Maki Eldur Ólafsson, f. 1985. Dætur: Ísey, Grímheiður og Ingibjörg Drífa.

2) Guðrún, f. 9.12. 1952. Fyrrv. maki Einar Gylfi Jónsson, f. 1950. Synir þeirra eru: a) Atli Freyr, f. 1975. Maki Anna Svandís Gísladóttir, f. 1975. Börn: Sigrún Ásta, Gísli Már og Sóley Inga. b) Hjalti Már, f. 1978. Maki Linda Ósk Þorleifsdóttir, f. 1978. Börn: Nína Sigurrós, Edda Sóldís og Axel Hrafn. Eiginmaður Guðrúnar er Kolbeinn Hermann Pálsson, f. 1945. Dóttir þeirra er Kolbrún Heiða, f. 1991. Maki Skúli Magnús Sæmundsen, f. 1988. Börn: Ari Hrafn og Elfa Guðrún. Börn Kolbeins af fyrra hjónabandi: Páll, Sigríður og Þórður.

3) Heiða Elín, f. 7.9. 1955. Maki Guðjón Guðmundsson, f. 1951. Börn þeirra eru: a) Vilborg, f. 1982. Unnusti Andri Persson, f. 1982. Dóttir Vilborgar er Móheiður Margeirsdóttir. b) Kristján, f. 1987. Maki Birna Guðmundsdóttir, f. 1992. Sonur þeirra er Skarphéðinn.

4) drengur Jóhannsson, f. 22.3. 1960, d. 22.3. 1960.

5) Jóhann Gísli, f. 26.4. 1968. Maki Guðrún Aldís Jóhannsdóttir, f. 1970. Börn: a) Ingibjörg Rún, f. 1997. Maki Andrea Björt, f. 1995. Sonur þeirra er Blær. b) Jóhann Hrafn, f. 1999. c) Vilborg Ólafía, f. 2004.

Seinni eiginmaður Vilborgar var Hrafn Pálsson, deildarstjóri í heilbrigðisráðuneytinu og hljómlistarmaður, f. 1936, d. 2016. Sonur hans af fyrra hjónabandi er Halldór, f. 1960.

Vilborg Guðrún ólst upp á Sólvallagötu 13 í Reykjavík. Hún gekk í Landakotsskóla og lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands, stundaði píanónám í 7 ár, stundaði sem táningur enskunám í Southshields við Newcastle og sótti húsmæðranám í Risby í Noregi. Starfaði hjá Ferðaskrifstofu ríkisins, lauk leiðsögumannaprófi og loks stúdentsprófi með fyrsta hópnum frá Öldungadeild MH 1975. Hún las fjölmiðlafræði við Hofstra University í NY og starfaði jafnframt þar sem leiðsögumaður. Deildarstjóri á skrifstofu forseta Íslands. Vilborg var mjög virk í félagsmálum, var í Hringnum í um 60 ár, Inner-Wheel og í EUMA/IMA (International Management Assistants). Með vinum var hún í Biblíuklúbbnum og í Grafaragenginu, sem aðstoðaði við fornleifauppgröft.

Útför Vilborgar fer fram frá Neskirkju í dag, 28. ágúst 2024, klukkan 15.

Ástkær móðir mín hefur nú kvatt þessa jarðvist, hún var trúuð, sannfærð um að eitthvað annað tæki við, enn eitt ferðalagið væri í vændum. Það er undarlegt til þess að hugsa að mamma lifði í nánast heila öld, því ekkert í hennar fasi, útliti eða framkomu benti til þess. Allt fram á síðustu ár var hún í takt við tímann, hvort sem var í menningu eða dægurmálum. Vissi hvað var í tísku og bar og heimilið þess merki. Með tölvuþekkingu á hreinu, á netinu og samfélagsmiðlum, sendandi netpóst á vini um allan heim. Ávallt með nýjustu Apple-tölvuna og áskrift að erlendum sjónvarpsstöðvum.

Mamma átti ævintýralegt líf. Hún var einkadóttir foreldra sinna að Sólvallagötu 13, en þar bjuggu alls tíu ættingjar. Mamma var yngst, ólst upp við mikinn kærleika og dekur, dóttir togaraskipstjóra sem sigldi með aflann, því var erlendur varningur ekki framandi. Æskan hafði mótandi áhrif, hún vildi vandaða hluti, líf og fjör í kringum sig, píanóleikur og spiluð spil. Hún kynntist fluginu náið strax á árdögum þess, fyrst í gegnum frænda sinn svo pabba Jóhann, því voru ferðalög erlendis ávallt ríkur partur af hennar tilveru. Þau giftast ung, mamma verður húsmóðir og eignast börn, eiga glæsilegt heimili og gott líf.

Skyndilega kollvarpast heimurinn er pabbi er tekinn frá okkur válega, ég rétt tveggja vikna. Ári síðar veikist amma Guðrún, stoð okkar og stytta, og hverfur líka á braut. Tæplega fertug ekkja, sýnir mamma styrk sinn og mátt, en verkefnin eru skýr, að lifa af og koma börnunum til manns. Lífsmottóið er að dvelja ekki við það sem verður ekki breytt, heldur horfa bjartsýn fram á við. Hún fer á vinnumarkaðinn, hún skráir sig í fyrsta hóp nýrrar öldungadeildar MH og klárar stúdentinn. Í skólanum finnur hún líka seinni ástina, pabba Hrafn, sem einnig var á tímamótum í sínu lífi. Eldri systkinin flogin úr hreiðrinu og við þrjú flytjum til New York, þar sem þau fara í háskóla. Nálægð við stórborgina er nýtt, sáum flestalla söngleiki og leikrit sem voru í gangi á þessum árum. Tekur að sér fararstjórn og skrifar greinar í blöð. Við heimkomuna fær Vigdís æskuvinkona, þá nýkjörinn forseti, mömmu til starfa á forsetaskrifstofunni. Þar nutu eiginleikar mömmu sín, samskipti og úrlausn mála við innlenda og erlenda aðila, alla flóru samfélagsins. Að skipuleggja og undirbúa veislur eða hitting var henni í blóð borið. Þess nutu margir, veislur heima, kræsingar á borðum, leikið á píanó og haft gaman. Dagatalið þurfti alltaf að vera þétt bókað, ef það var ekki hittingur heima, þá var farið út að borða, á tónleika, leikhús, listasýningar, ferðalög hér heima og erlendis skipulögð.

Mamma var sérstaklega ræktarsöm og vinamörg, dugleg við bréfaskriftir og síminn var vel nýttur. Einstaklega kærleiksrík og var ávallt stolt af afkomendum sínum. Það var ávallt stutt í húmorinn, hrós og hvatningarorð, en maður fékk líka að heyra það ef henni mislíkaði eitthvað. Hún var góður trúnaðarvinur, úrlausnagóð, sönn hetja og fyrirmynd. Við Guðrún Aldís munum sakna þín mikið, elsku mamma mín.

Jóhann Gísli.

Nú er hún Vilborg tengdamamma farin í enn eitt ferðalagið. Í þetta sinn er það óvissuferð og nú kemur hún víst ekki til baka. Hún vildi helst alltaf vera að ferðast og vegna sinnar einstöku lífsgleði og framkomu eignaðist hún góða vini út um allan heim. Hana langaði mikið að sýna mér New York og loksins fórum við þangað í október 2008. Og hvað það var gaman að vera með þeim Hrafni á „þeirra heimaslóðum“. Ferðin endaði reyndar á því að við hlustuðum á Geir biðja Guð að blessa Ísland með tilheyrandi áhrifum á ferðakostnaðinn.

Það var alltaf gaman að vera nálægt Vilborgu, húmorinn, leikrænir tilburðir hennar, píanóleikurinn og lífsgleðin gerði hana að einstakri manneskju sem öllum leið vel í kringum. Hún var allra manna hressust og aldrei mátti líða of langt á milli hamingjustunda eða veislna. Henni þótti óskaplega gott að fá sér g&t og Muga var hennar rauðvín. Alltaf vildi hún vera síðust úr partíunum þótt hún væri langelst, enda mátti ekki missa af neinu skemmtilegu.

Ég gæti sagt ótal skemmtilegar sögur af tíma mínum með Vilborgu eftir að við Heiða kynntumst. Sögur úr daglega lífinu eða veislum, matarboðum, ferðalögum og síðast en ekki síst veiðiferðum í Víkurá, þar sem hún þurfti að gista í því sem hún kallaði „helvítis skúrinn“.

Vilborgar verður sárt saknað í fjölskyldunni og lífið verður öðruvísi án hennar. En minningarnar lifa og tónlistin hennar lifir á geisladisk sem var gerður með píanóleik hennar þegar hún var komin á efri ár. Blessuð sé minning Vilborgar.

Guðjón Guðmundsson.

Það má taka sér ýmislegt í lífsviðhorfum ömmu minnar Vilborgar til fyrirmyndar, enda lifði hún lífinu til fulls og kynntist bæði sælu og sorg á sinni löngu ævi. Eftirfarandi er listi yfir örfáar af þeim lífslexíum sem ég hef tekið frá ömmu (og tileinkað mér misvel):

1. Ferðastu um heiminn: Amma Vilborg var heimsborgari sem elskaði að ferðast. Hún gat sagt sögur af fjarlægum slóðum og gefið ábendingar um veitingahús og athyglisverða staði, enda skráði hún það allt skilmerkilega niður og varðveitti.

2. Sendu kort: Amma hélt áratugum saman góðu vinasambandi við fólk víða að úr heiminum með því að senda því alltaf póstkort á ferðalögum.

3. Hættu aldrei að læra á nýja tækni: Amma sendi tölvupóst, skoðaði dönsku blöðin á netinu, millifærði úr heimabankanum og var virk á Facebook vel fram yfir nírætt, kommentin við myndir barnabarna voru oftar en ekki einhvern veginn svona: „Þið eruð glæsileg, frábær og skemmtileg. Amma VGK.“

4. Gerðu grín: Það var alltaf gaman í kringum þau afa Hrafn. Bæði voru húmoristar með leiklistarhæfileika, grínuðust mikið og amma hló dátt. Skemmtilegasta kona sem ég hef hitt, segir Birna um hana.

5. Klæddu þig í liti: Amma gagnrýndi mann ef maður klæddist svörtu, fannst það svo niðurdrepandi. Hún sagðist hafa klæðst svörtu í heilt ár eftir að afi Jóhann dó, en svo ákveðið að klæðast bara litum framvegis.

6. Drekktu G&T: Veislur, samkomur, partí. Það er ekki hægt að hugsa um ömmu Vilborgu án þess að hugsa um mannfögnuði, en hún hún bauð fólki til sín við minnsta tilefni. Auðvitað var einkennisdrykkurinn gin og tónik alltaf í boði.

7. Njóttu fyrir framan sjónvarpið: Það var spenningur að fá að fara í pössun til ömmu og afa. Þar fékk maður að liggja í Lazy-boy-stól fyrir framan sjónvarpið allt kvöldið og fá nóg af nammi og Diet Coke.

8. Vertu með á nótunum: Amma fylgdist með öllum fréttatímum á nokkrum tungumálum í sjónvarpinu og sagði manni iðulega nýjustu fréttir um hvað væri að gerast í heiminum.

9. Syngdu og dansaðu: Það var mikil tónlist, leikið á hvíta flygilinn, kontrabassa, sungið og leiknir leikþættir á Tómasarhaga 25. Þegar amma var áttræð breyttum við stofunni í hljóðver og tókum upp nokkra slagara með þeim afa Hrafni á píanó og bassa.

Elsku amma Vilborg. Ég er viss um að þú sért að njóta óvissuferðarinnar eins og þú kallaðir hana oft. Á áfangastað eru ábyggilega tveir eiginmenn, ást, hlátur, bjartir litir, tónlist og nóg af gini og tónik. Góða ferð.

Kristján Guðjónsson.

Elsku amma.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð þig, en þrátt fyrir sorgina er það þó þakklæti sem er mér efst í huga. Amma var kær vinkona mín og fyrirmynd í lífinu. Ég var svo lánsöm að mamma og amma voru mjög nánar, sem gerði það að verkum að við áttum margar góðar stundir saman. Í dag hlýja ég mér við allar þær dýrmætu minningar sem ég á með henni.

Amma var samkvæmisljón og hrókur alls fagnaðar. Hún elskaði að umgangast fólk, skapa góðar minningar og fylla heimili sitt af hlátri og gleði. Hún kunni að njóta lífsins til fulls og lét ekkert tækifæri fram hjá sér fara til að fagna tilverunni. Hún var þekkt fyrir sitt smekkvísa auga og hæfileikann til að njóta þess besta sem lífið hafði upp á að bjóða, hvort sem það var í formi matar, lista eða samveru með vinum og fjölskyldu. Ég á svo margar minningar af öllum fjölskylduboðunum á Tómasarhaga, hádegisverðunum okkar á Jómfrúnni og bíltúrunum að spjalla um lífið og tilveruna. Skemmtilegast fannst ömmu að spjalla um stráka og ástina. Þegar ég kynnist Skúla, eiginmanni mínum, þá leist henni strax vel á hann því hann var hrútur, í sama stjörnumerki og hún. Elfa Guðrún dóttir okkar Skúla ber sama millinafn og amma sem ég veit að henni þótti mjög vænt um.

Amma ferðaðist víða um heiminn og hafði næmt auga fyrir fegurðinni í mismunandi menningarheimum. Hún var forvitin um allt og alla, hafði áhuga á nýjum upplifunum og var alltaf tilbúin að læra og upplifa eitthvað nýtt. Hún kom með heiminn heim til okkar með sögum sínum, gjöfum og þau afi Hrafn sendu okkur barnabörnunum alltaf póstkort frá framandi slóðum. Ef ég var að ferðast á nýjan áfangastað þá hafði amma oftast komið þangað. Hún gaf ávallt góð ráð um staði til að skoða og hvar ætti að borða.

Amma sem var einkabarn var svo stolt af stóru fjölskyldunni sinni. Hún hafði einlægan áhuga og óbilandi trú á öllu því sem við barnabörnin tókum okkur fyrir hendur. Hún var ávallt dugleg að heyra í okkur, sama hvar við vorum í heiminum. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum í tæpt ár og fór í nokkurra mánaða heimsreisu eftir Verzlunarskólann þá hringdu amma og afi reglulega til að athuga með mig og fá fréttir.

Amma hefur markað líf mitt á svo marga vegu og ég mun bera með mér minningarnar um hana að eilífu. Takk elsku amma fyrir kærleikann, viskuna og samverustundirnar.

„Love you!“

Þín dótturdóttir og vinkona,

Kolbrún Heiða.

Elskuleg Vilborg amma mín er fallin frá, södd lífdaga, á níræðisaldri. Fyrsta minning mín af ömmu er frá heimsókn okkar fjölskyldunnar til hennar, afa Hrafns og Jóhanns Gísla til Long Island. Amma er sólbrún í litríkum klæðnaði og brosir út að eyrum í eldhúsinu á Friends Lane. Þar er ég fjögurra ára gamall og fylgist með henni undirbúa eina af hennar mörgu veislum. Minningin um geislandi bros ömmu færir mér birtu og yl nú þegar ég rifja upp þær yndislegu stundir sem ég fékk að eiga með henni á lífsleiðinni.

Amma var víðlesin heimskona með skemmtilegan húmor. Hún var mikil félagsvera og dugleg að rækta fjölskyldu sína og vini. Hún ferðaðist heimshornanna á milli og virtist eiga vini í hverri borg. Við Inga Rósa vorum svo heppin að fá hana og afa Hrafn nokkrum sinnum í einkar skemmtilegar heimsóknir til okkar þegar við bjuggum í St. Albans á Englandi.

Þegar amma var ekki á ferðalögum sinnti hún félagsmálum eða var að undirbúa eina af sínum fallegu og eftirminnilegu veislum. Mörg fjölskylduboð voru haldin á Tómasarhaga 25 og þar var tónlistin alltaf í fyrirrúmi. Á æskuárum mínum buðu amma og afi Hrafn m.a. til árlegrar tendrunar jólaljósa á fallega grenitrénu í garðinum á Tómasarhaganum, sem afi Jóhann hafði gróðursett í lok fimmta áratugar síðustu aldar. Barnabörnin höfðu það hlutverk að halda stutta tölu og kveikja svo á jólaseríunni. Í kvöldverðinum sátum við svo í borðstofunni innan um öll jólakortin í gluggakistunum sem þeim höfðu borist í tuga- ef ekki hundraðavís frá vinum þeirra í útlöndum.

Amma fylgdist vel með heimsmálunum enda iðulega með alþjóðlegu fréttastöðvarnar í gangi á sjónvarpsskjánum. Jafnframt fylgdist hún af athygli með því sem fjölskyldan hennar hafði fyrir stafni. Hún fékk sér iPhone um leið og hann kom á markað og skildi ekki jafnaldra sína sem nýttu sér ekki samfélagsmiðla í samskiptum við vini og fjölskyldu. Amma var einbirni og einstaklega stolt af ættboganum sínum. Hún minnti mann margoft stolt á að hún ætti 11 barnabörn og 19 barnabarnbörn, sem hún elskaði öll og dáði. Amma var ung í anda og síðustu ár gerði hún gjarnan grín að því að það bara gæti ekki verið að hún ætti rúmlega sjötug börn og bráðum fimmtug barnabörn. Það var gaman að umgangast ömmu en skemmtilegast fannst mér þegar ég náði ömmu á eintal um afa Jóhann. Þá kom einstakur glampi í augu hennar er hún talaði um elsku Jóhann sinn.

Það er margt sem Amma Vilborg kenndi mér. Hún lifði lífinu til fullnustu og var mjög virk eins lengi og hún hafði getu til. Hún hafði aðdáunarverðan kraft til að mæta lífinu eins og það kom til hennar. Hún ákvað að þrátt fyrir hennar áföll væri hægt að lifa yndislegu lífi með því að vera í núinu og þakka fyrir allt það góða sem hún hafði í lífinu. Hún einblíndi á hluti sem voru jákvæðir, uppbyggilegir og skemmtilegir og veittu henni gleði og hamingju. Amma náði að verða 94 ára og ég kveð hana með miklum söknuði og þakklæti fyrir þá ást, hlýju og örlæti sem hún færði inn í líf okkar allra.

Hvíldu í friði, elsku amma.

Jóhann Ingi.

Elsku amma Vilborg.

Nú á kveðjustund rifjast upp margar góðar minningar sem við systkinin eigum með þér.

Það var mikið fjör sem fylgdi ömmu, enda mikill húmoristi, og brutust út fagnaðarlæti þegar við fengum að gista hjá ömmu Vilborgu og afa Hrafni á Tómasarhaga. Amma var traustur vinur og gaman að ræða við hana um heimsmálin. Hún sýndi okkur alltaf mikinn áhuga, spurði okkur út í skólann, vini, áhugamál og seinna meir hvernig ástarlífið gengi. Hún kenndi okkur golf, bridds og eftir nokkur rauðvínsglös vorum við komin yfir í frönskuna.

Það var mikil tónlist sem fylgdi ömmu og afa og spiluðu þau einstaklega vel saman á píanóið og kontrabassann. Þau voru tíðir gestir hjá okkur og komu með fréttir frá fjölskyldunni. Amma var smekkkona, alltaf vel til höfð og dugleg að hrósa, sem var okkur mikils virði. Hún vildi alltaf vera með nýjustu tækin, var dugleg að fylgjast með á samfélagsmiðlum og voru vinir okkur alltaf jafn hissa þegar 90 ára amma okkar var að senda skilaboð á Snapchat.

Elsku amma, takk fyrir allar góðu stundirnar, og umhyggjuna sem þú sýndir okkur. Við elskum og söknum þín en vitum að þú ert í góðum höndum. Hvíldu í friði, elsku amma.

Ingibjörg Rún, Jóhann Hrafn og Vilborg Ólafía.

Þegar árin færast yfir í lífi okkar fjölgar þeim stöðugt sem við sjáum á bak. En þá eru einnig minningarnar margar um vináttu, sem hefur gefið lífi okkar tilgang.

Vilborg Kristjánsdóttir sem verður jarðsungin í dag var mér svo sannarlega nákomin og kær. Hún var jafnaldra mín og vinkona. Við kynntumst í Landakotsskóla. Ég átti heima á Ásvallagötunni en hún á Sólvallagötunni. Við vorum því iðulega samferða í og úr skóla. Kynni okkar þróuðust í ævilanga vináttu sem aldrei bar skugga á.

Fyrr en varði urðum við stöllur tíu ára með nokkurra daga millibili. Þá var skollin á heimsstyrjöld og breskur her kominn til Reykjavíkur. Veröldin varð viðsjárverð eins og hendi væri veifað – jafnvel í Vesturbænum. Við þær aðstæður var kappkostað að koma sem flestum reykvískum börnum í sveit yfir sumartímann. Þannig yrði þeim forðað frá hugsanlegum loftárásum á borgina eða jafnvel innrás Þjóðverja og stríðsátökum.

Þá var mér og Þorvaldi, bróður mínum, tekið opnum örmum í Eystra-Geldingaholti í Gnúpverjahreppi, hjá Ólafi Jónssyni, bónda þar, og konu hans, Pálínu Guðmundsdóttur. Það varð upphafið að órofa tryggðar- og vináttuböndum milli mín og niðja þeirra hjóna.

Vilborg hafði hins vegar ekki fengið vilyrði fyrir sveitadvöl. Þegar ég spurði hvort vinkona mín mætti ekki líka koma næsta sumar, var hún jafn velkomin þangað og við systkinin. Við urðum afar stoltar af því að komast í tölu sveitunganna sem Vigga og Bogga í Geldingaholti. Þar var gott að vera.

Á unglingsárunum fór Vilborg í Verzlunarskólann en ég í MR. Við áttum báðar eftir að flytja suður yfir Hringbraut, en vorum áfram í Vesturbænum og lengst af var stutt á milli okkar. Auk þess áttum við eftir að vinna saman um árabil á skrifstofu forseta Íslands.

Vilborg var einstaklega trygglynd. Hún var lífsglöð að eðlisfari og umhyggjusöm, fagnaðarhrókur á mannamótum, músíkölsk og prýðilegur píanóleikari.

Fyrri maður Vilborgar, Jóhann Gíslason, deildarstjóri hjá Flugfélagi Íslands, lést í blóma lífsins. Saman eignuðust þau fjögur yndisleg börn sem voru alla tíð sólargeislar hennar og lífsgæfa. Seinni maður Vilborgar var Hrafn Pálsson tónlistarmaður sem lést fyrir átta árum.

Á þessari kveðjustund minnist ég tveggja æskumeyja í gamla Vesturbænum, sem gátu dundað sér tímunum saman, við að teikna, lita og klippa út glæsifatnað á dúkkulísurnar sínar. Þær voru afskaplega fínar, enda kallaðar Nielsen og Pedersen upp á þeirra tíma dönsku.

Ég er henni Vilborgu minni og forsjóninni þakklát fyrir einlæga vináttu í öll þessi ár.

Vigdís Finnbogadóttir.

• Fleiri minningargreinar um Vilborgu Guðrúnu Kristjánsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.