SVÞ segja afkomutölur og framlegð fyrirtækja á dagvörumarkaði ekki endurspegla samráð þeirra á milli.
SVÞ segja afkomutölur og framlegð fyrirtækja á dagvörumarkaði ekki endurspegla samráð þeirra á milli. — Morgunblaðið/G.Rúnar
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) gagnrýna ummæli sem Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, lét falla opinberlega á dögunum um að hann teldi að samkeppnisaðilar á dagvörumarkaði hefðu haft með sér nokkurs konar þögult samkomulag um að hafa markaðinn eins og hann er

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) gagnrýna ummæli sem Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, lét falla opinberlega á dögunum um að hann teldi að samkeppnisaðilar á dagvörumarkaði hefðu haft með sér nokkurs konar þögult samkomulag um að hafa markaðinn eins og hann er.

Tilefnið var innkoma lágvöruverðsverslunarinnar Prís við Smáratorg í Kópavogi fyrr í mánuðinum.

Vænir um lögbrot

SVÞ segjast ekki leggja annan skilning í ummæli formannsins en að hann telji ráðandi fyrirtæki á dagvörumarkaði hafa átt með sér ígildi samráðs eða samstilltra aðgerða í bága við samkeppnislög. Þá bentu SVÞ á að Breki hefði hvorki fært nokkur rök fyrir máli sínu né gert tilraun til að útskýra mál sitt nánar. Ummælin væru þess vegna haldlaus, þar sem meðal annars gæfu afkomutölur fyrirtækja það ekki til kynna.

SVÞ segja það alvarlegt að formaðurinn skuli hafa látið slík ummæli falla og í þeim felist harkaleg ásökun sem eigi ekki við nein rök að styðjast. Þá fögnuðu SVÞ innkomu Prís á markaðinn og sögðu að aukin samkeppni væri alltaf af hinu góða.

Ekki makað krókinn

Spurður nánar um gagnrýnina segir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, að það komi ekki heim og saman að saka fyrirtækin um að hafa einbeittan vilja til þess að viðhalda óbreyttu ástandi á markaðinum.

„Við bendum á að afkomutölur hjá stærstu þremur fyrirtækjum á dagvörumarkaði gefa skýrt til kynna að þau hafi ekki verið að maka krókinn, vegna ástands þar sem þögult samkomulag gæti ríkt,“ segir Benedikt í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segir að bæði hér og erlendis tíðkist í samkeppni á dagvörumarkaði að fyrirtæki kanni vöruverð hvert annars.

„Umræðan hér á landi snýst um að verðkannanir séu tortryggilegar. Raunveruleikinn er hins vegar sá að aðilar geta ekki staðið í verðsamkeppni nema vita hvaða verð þeir eru að keppa við,“ bendir Benedikt á.

Aðspurður segir hann dagvörumarkaðurinn ekki sýna merki um samráð.

„Staðan er yfirleitt sú að ef fyrirtæki ná haldtraustu taki á markaðinum endurspeglast það í afkomutölum og hækkandi framlegð. Það eru engin slík merki á þessum markaði,“ segir Benedikt.

Hann segir að lokum að SVÞ fagni innkomu Prís á markaðinn en engar forsendur hafi verið fyrir því að gagnrýna stöðuna á markaðinum.