Aflögun Sprungurnar í Siglufjarðarvegi við Almenninga eru stórar og vegurinn er illa farinn vegna jarðsigs.
Aflögun Sprungurnar í Siglufjarðarvegi við Almenninga eru stórar og vegurinn er illa farinn vegna jarðsigs. — Ljósmynd/Halldór G. Hálfdánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Pálsson olafur@mbl.is

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Siglufjarðarvegur við Almenninga verður opnaður á ný í dag ef að líkum lætur. Heimir Gunnarsson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að þá hefði verið unnið að því að hreinsa veginn og gera ráðstafanir vegna sigs sem orðið hafði á og í kringum vegstæðið. Það rigndi mikið á Siglufirði og víða á Tröllaskaganum 23. ágúst en úrkoma mældist á milli 180 og 200 millimetrar yfir sólarhrings tímabil.

Heimir sagði sprungur hafa myndast í veginum vegna sigsins sem fyllt yrði í. Þá yrði vegurinn heflaður og gengið frá honum þannig að hann yrði öruggur og fær. Ljósmyndir sem teknar voru á mánudag sýna hversu sprungurnar eru stórar og hvað vegurinn er illa farinn vegna jarðsigs.

Mikil færsla um helgina

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur fylgst með Siglufjarðarvegi undanfarin tvö ár í samvinnu við Vegagerðina. GPS-stöðvum hefur verið komið fyrir á níu stöðum meðfram honum til að fylgjast með þróuninni með tilliti til úrkomu og leysinga og hvort einhverjar færslur verði á veginum.

Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands, segir mikla færslu hafa átt sér stað á veginum undanfarna sólarhringa. Segir hann hreyfinguna á veginum ekki koma fram strax eftir úrkomu eða leysingar heldur þurfi vatnið fyrst að síga inn í jarðlögin og þá verði hreyfing. Enn sé mjög mikið vatn á svæðinu og hreyfingin standi því enn yfir.

Sjö sentímetra hreyfing

„Það var mikil hreyfing í fyrradag, um fjögurra sentímetra færsla á nyrstu stöðinni við Tjarnardalaberghlaupið og núna síðasta sólarhringinn mældist um þriggja sentímetra hreyfing á þeirri stöð, þar sem færslan er hvað mest.”

Vegurinn hreyfist til vesturs í átt að bjargbrúninni og til sjávar. Aðspurður segir Þorsteinn framtíð hans ekki bjarta, en færslan er að meðaltali um 100 sentímetrar á ári í átt til sjávar. „Eins og hefur víða komið fram er þetta vegarstæði ekki ákjósanlegt. Það eru miklar færslur og hreyfingar á vegstæðinu á kaflanum frá Hraunum í Fljótum og út á Almenningsnöf. Þarna eru þrjú berghlaup sem eru á hreyfingu.“

Töluverð vegalengd er enn í bjargbrúnina og hægt er að færa veginn ofar að sögn Þorsteins, sem ítrekar þó að árlega séu miklar skemmdir á veginum og víða á þessu svæði. „Vegurinn verður auðvitað ekki látinn fara í sjó. Vegstæðið verður örugglega fært en það eru miklar sprungur víða, bæði þarna og norðar, sem eru á hreyfingu.“

Óstöðugar hlíðar

Vill stórefla rannsóknir

Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands, segir að mælingar Jarðvísindastofnunar og Vegagerðarinnar gefi miklar og góðar upplýsingar um samspil úrkomu og hreyfinga í veginum. „Þetta er í fyrsta skipti sem þetta er gert á þennan hátt en þetta er að gefa mjög góða raun og bætir vonandi öryggi vegfarenda. Við erum að safna gögnum og erum að læra hvernig þetta kerfi hegðar sér.“ Þorsteinn segir það alveg til umræðu að gera sams konar rannsóknir annars staðar á landinu. „Við þurfum tvímælalaust að stórefla allar svona rannsóknir á hlíðum sem við teljum óstöðugar.“