Jónína Guðmundsdóttir, bókasafns- og bókmenntafræðingur, fæddist á Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi 12. maí 1940. Hún lést á Landspítalanum 15. ágúst 2024.

Foreldrar hennar voru Þorbjörg Valdimarsdóttir, f. 1916, d. 1985, og Guðmundur Bjarni Jóhannesson, f. 1895, d. 1983, á Þorgrímsstöðum. Systkini: Ásbjörn, f. 1943, Valdís, f. 1945, d. 2018, Vigdís Auður, f. 1949, Guðmundur, f. 1952, og Kjartan, f. 1960.

Jónína giftist Hólmgeiri Björnssyni frá Bjarghúsum í Vesturhópi, sérfræðingi á Rannsóknastofnun landbúnaðarins, 12. maí 1961. Dætur þeirra eru: 1) Þorbjörg, f. 1961. Maki Reynir Arngrímsson, þau skildu. Synir þeirra: a) Hjörtur Már. Maki Ylfa Rún Óladóttir. Börn: Þórhildur Lóa, Snorri Hólm og Egill Ari. b) Hólmgeir. Maki Birna Guðlaug Björnsdóttir. Börn: Arna Þorbjörg, Ásbjörn Atli og Reynir Már. 2) Guðrún, f. 1965. Maki Gísli Sigurðsson. Dætur þeirra: a) Jónína Þorbjörg Saswati. Börn Jónínu og Kristbergs Óla Vilhjálmssonar eru Vilhjálmur Gísli og Ísabella Ýr Saswati. Sambýlismaður Jónínu er Daniel Victor Herwigsson. b) Anna Pratichi. Kærasti Jacob Wayne Bowling. 3) Hugrún Ragnheiður, f. 1970. Dóttir Hugrúnar og Pálma Erlendssonar er Álfrún. Maki Ívar Glói Gunnarsson Breiðfjörð. Dóttir: Míó. Maki Hugrúnar er Benedikt Ingólfsson. Dóttir Hugrúnar og Benedikts er Ragnheiður María. Sambýlismaður Jón Ísak Ragnarsson.

Veturinn 1957-8 var Jónína í Kvennaskólanum á Blönduósi og tók gagnfræðapróf frá Námsflokkum Reykjavíkur vorið 1973. Hún lauk stúdentsprófi frá Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð 1977 og BA-prófi í bókasafnsfræði og sænsku frá Háskóla Íslands 1981. Hún stundaði nám í sænskum bókmenntum við sama skóla veturinn 1986-7 og lauk síðan meistaraprófi í almennri bókmenntafræði 2010. Jónína var forstöðumaður skólasafns Árbæjarskóla 1980-95 og skjalavörður iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins 1995-2006. Ásamt öðrum bókasafnsfræðingum stóð Jónína að endurskipulagningu, flokkun og skráningu bókasafna þriggja framhaldsskóla 1980-83. Hún var leiðsögumaður ferðamanna, aðallega sænskra, á sumrum 1982-95, tók virkan þátt í félagsstörfum bókasafnsfræðinga og skjalavarða og kom að heildarstefnumótun fyrir bókasöfn landsins til aldamótanna 2000. Jónína stóð fyrir vinsælum og fjölsóttum námskeiðum á vegum Félags eldri borgara um sögur og ljóð, oft með heimsóknum höfunda. Þá tók hún þátt í kórsöng stóran hluta ævinnar.

Útför Jónínu fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 28. ágúst 2024, klukkan 13.

„Má ég sjá, í hverju ertu innan undir kápunni?“ sagði mamma mín þegar ég kom við hjá henni á Landakoti um daginn. Ég var á leið í brúðkaup í fjölskyldunni og mamma sennilega sá boðsgestur sem hlakkaði hvað mest til. Hún vildi auðvitað sjá mig í fínu fötunum. Hannyrðakonan mamma hafði unun af fallegum sniðum og textíl. Hún saumaði á okkur systur meðan það var raunverulega hagkvæmt og alltaf var hún eitthvað að sauma eða prjóna; kjóla, pils og blússur, að ógleymdum upphlutunum. Næst á dagskrá hannyrðakonunnar var golla sem hún ætlaði að prjóna sér í endurhæfingunni á Landakoti. Ég ætlaði að skottast yfir og vera með henni í prjónaklúbb.

Mamma var alla tíð námsþyrst, námfús er engan veginn nógu sterkt orð. Hún kunni svo ótrúlega margt og var vel heima í öllu og fylgdist með. Hún kunni skil á náttúru landsins og sögu, auk bókmennta, sem voru hennar yndi frá því að hún var barn. Hún gat farið með ótrúlega mörg ljóð utanbókar og naut þess alla tíð að lesa ljóð og sögur. Val mömmu á bókasafnsfræði, auk sænsku, reyndist frábær blanda. Hún gæddi sögu og náttúru landsins lífi fyrir sænska ferðamenn og hvatti nemendur til að lesa áhugaverðar bókmenntir – enda skildi hún vel ungu lestrarhestana. Undanfarin ár höfum við báðar fengist við ljóðanámskeið, hún með ljóðahópnum sínum en ég með unglingunum mínum. Ég hef því oft getað spurt hana út úr, nánast flett upp í henni, og átt í henni góðan kollega.

Mamma hvatti mig til dáða hvert sem ég stefndi og var alltaf tilbúin að benda á það sem var vel gert hjá mér en ekkert að velta sér upp úr því sem hefði mátt fara betur. Þau pabbi hafa verið einstök heild í yfir sextíu ár og það er skrítið að hugsa sér líf okkar án hennar. En líf hennar var gott og hún var sama jákvæða, brosmilda og lífsglaða stelpan alla tíð. Ég býst við góðri veislu þegar við hittumst næst, elsku mamma mín.

Hugrún Ragnheiður.

Hvar sem þú ert kemur sólin upp, hvar sem þú ert gengur sól til viðar. Hvar sem þú ert er líf að verða til og líf að hverfa. Alls staðar er einhver mamma og einhver pabbi. Alls staðar er veður með ýmsu móti, víða leynist harmur en í öllum aðstæðum býr gæfa og fallegt sagnamynstur.

Ég var ekki tilbúin að missa mömmu og ég umgekkst hana eins og hún væri ódauðleg og sjálf var hún full af lífsvilja og áformum, áhuga og gleði, skýr í hugsun og í góðu skapi fram á síðasta dag. Hún fékk friðsælt andlát umkringd sínum nánustu. Ég var að segja sögur úr bókinni sem ég er að skrifa um þau pabba þegar lokastig andlátsins hófst. Ég ímynda mér að hún hafi heyrt og tekið undir hvert orð með mér: „Þetta er rétt, já, svona var þetta.“ Ég náði að klára að lesa fyrir hana þetta veikindasumar, ýmist í síma eða við rúmstokkinn hjá henni, það sem ég hef unnið upp úr viðtölum um æsku hennar og uppvöxt í vegalausum dal. „Þú ert búin að draga fram ansi góða sveitalýsingu, Guðrún mín,“ sagði hún og hafði á orði hvað textinn væri vel stílaður. „En það er nú vegna þess að þetta er sagt með þínum orðum,“ var mér ljúft að svara.

Mömmu sé ég ríðandi á Vind Þorbjargar móður sinnar norður að Ásbjarnarstöðum, upp mýri, flóa, malarás og þurrar götur uns hún fer af baki og fikrar sig niður stórgrýtta Gjána að Gnýstöðum. Hún er ekki nema átta ára í sinni fyrstu póstferð. Ég sé hana fyrir mér húfulausa og hlæjandi að rangla við kindur uppi í Flugskál sem var hennar yndisstaður. „Þarna er allt úsandi af staðaranda,“ sagði mamma. Ég sé hana drösla Adda litla bróður sínum eins og skolaketti upp úr ánni þegar hann nennti ekki lengur að vera í fyrirstöðu fjárskiptahaustið 1948 og ætlaði heim. Ég sé þau á skautum á tunglskinsbjörtum vetrardegi á spegilsléttum dalbotninum að styðja hvort annað á glampandi svelli. Það hefur þiðnað ofurlítið og komið vatn ofan á og þau fara á fleygiferð frá Stóra Bala út að Merkjum og leggja á sig að brjótast mót vindi til baka. Mamma var vitlaus í bækur og las á kvöldin þar til olían á lampanum var búin. Þegar hún vaknaði las hún kannski ljóð og tók tímann hvað hún var fljót að læra tólf erinda kvæði um Ásdísi á Bjargi. Hún var tólf mínútur. Hún var staðráðin í því að hún ætlaði ekki að festast við búskap heldur ferðast og menntast – en taldi sig of gamla eftir stúdentspróf úr Öldungadeildinni til að taka læknisfræðina eins og hugur hennar stóð til.

Úthafið hefur sogast burt. Land er sokkið í sæ. Endalokin eru þverstæðukennd. Hinn sterki vilji mömmu er reipi sem má halda sér í því þótt hún sé farin þá finn ég fyrir vilja hennar. „Ég vil að þú fáir bréfið sem Hólmgeir skrifaði mér, ættartölu langömmu þinnar og póesíubókina,“ sagði hún við mig undir það síðasta. Ættfræðin er minn arfur og ég held áfram að ímynda mér hvernig líf fólksins var á Vatnsnesi og í Vesturhópi. Það er bara ein mamma og mína góðu og skemmtilegu kveð ég með þakklæti fyrir hvað ég þó fékk að hafa hana lengi.

Guðrún Hólmgeirsdóttir.

Mamma mín. Ég átti lífsglaða, ástríka, hláturmilda, metnaðarfulla mömmu og við systur áttum góð æskuár hjá foreldrum okkar. Allar í Hraunbænum, tvær á Hvanneyri og í Ithaca þar sem pabbi var í doktorsnámi og ég á Akureyri þar sem ég er fædd.

Mamma var fyrirmyndin mín. Hún fór seint í nám, við systur vorum allar fæddar þegar hún lagði af stað í þá vegferð. Ég sá hana springa út, verða eins og blómstrandi bóndarós, langlífar og þær fallegustu sem eru til, þökk sé því sjálfstæði sem námið færði henni.

Mamma hafði einstaka útgeislun, blik í auga, lífskraft, lífsgleði. Hún elskaði veislur og vildi helst vera sem lengst. Allt fram á síðustu stundu var hún að tala um veislur, ágústbrúðkaupið sem hún vildi alls ekki missa af. Í hverju hún ætlaði að vera. Barnabarnaboðið sem hún ætlaði að halda í ágúst. Hvað hún ætlaði að bjóða upp á. Hvorugri veislunni náði hún þó, en þetta sýnir hvað draumar eru mikilvægir.

Mamma unni alla tíð bókmenntum. Í þrjá áratugi lásu fjórar vinkonur og samstarfskonur úr Árbæjarskóla saman Sturlungu, sem hefur efalítið ýtt undir að hún skráði sig í meistaranám þegar hún hætti að vinna og lauk tveimur dögum fyrir sjötugsafmælið sitt. Námið nýtti hún vel og stóð fyrir vinsælum og fjölsóttum námskeiðum á vegum Félags eldri borgara um sögur og ljóð, oft með heimsóknum höfunda og öðrum uppákomum. Úr þessu félagsstarfi varð til enn einn vinkonuhópurinn hennar mömmu, ljóðahópurinn. Þær hittust á aðventunni heima í Hraunbænum yfir nýbökuðum smákökum og oft á vorin líka. Þegar ljóðastarfinu lauk í apríl sl. sagðist mamma ætla að bíða með að bjóða þeim heim þar til í haust. Lítið grunaði okkur hvernig færi.

Það lék allt í höndunum á mömmu. Hún var listakokkur og var óþreytandi að kenna okkur systrum þá list að matreiða og baka. Hún var handlagin með afbrigðum, þegar við systur vorum ungar saumaði hún öll okkar föt, síðar saumaði hún á barnabörnin. Eftir hana liggja ógrynnin öll af peysum sem hún hefur prjónað, fallegum útsaumsverkum, dúkum sem hún hefur heklað, upphlutir, skírnarkjóll sem við höfum öll verið skírð í – þau okkar sem voru skírð sem börn.

Mamma var mikið náttúrubarn. Hún þekkti öll blóm og alla fugla, landið sitt og sögurnar. Hún var lengi leiðsögumaður og hreif hvern hópinn af öðrum með fróðleik sínum og lífsgleði, um það vitna öll bréfin og allar gjafirnar sem fólk hefur sent henni í gegnum tíðina.

Og pabbi. Saman voru þau sterk og órjúfanleg heild, þau studdu hvort annað í því sem þau tóku sér fyrir hendur og fylgdust að. Þau ferðuðust saman út um allan heim. Síðasta ferðin var í fyrra vor til Normandí þar sem við skoðuðum Bayeux-refilinn og ströndina þar sem úrslitin í seinni heimsstyrjöldinni réðust, ég fékk að vera bílstjórinn.

Mamma skilur eftir sig stórt skarð en minningar um stórbrotna og lífsglaða konu lifa í hjörtum okkar.

Þorbjörg.

Mér bárust tíðindin af andláti Jónínu tengdamóður minnar þar sem ég gekk á milli fornhauga á Vestfold í Noregi, á slóðum Ásubergsskipsins sem ferjaði Ásu ömmu Haralds hárfagra, eftir því sem lengi var haft fyrir satt, og þjónustukonu hennar til handanheimanna. Daginn eftir fæddi dóttir okkar Guðrúnar andvana dreng, Victor Gísla.

Jónína ólst upp á Þorgrímsstöðum, fremsta bæ í samnefndum dal á Vatnsnesi þar sem venjuleg skólaganga var ekki í boði – en það kom ekki í veg fyrir að hún lærði strax á ungum aldri allt það helsta af útgefnum íslenskum kveðskap, til viðbótar við húsganga, söngtexta og önnur munnmæli sem lifðu á vörum fólks í Vestur-Húnavatnssýslu. Hún hélt áfram að bæta við sig skáldum, sögum og kvæðum ævina á enda með stöðugum lestri sem hafði byrjað fyrir norðan þar sem kvöldlesturinn í rúminu takmarkaðist af einni áfyllingu á steinolíulampann.

Svo handgengin eru systkinin frá Þorgrímsstöðum íslenskum kveðskap að á fundum þeirra er sjálfsagt að halda ljóðagetraunir með frumortum cento-ljóðum. Og verður þá að deila þeim systkinum á milli liða – og munaði mest um að hafa Jónínu með sér – eða Adda yngri bróður hennar. Metingur þeirra systkina var svo annað og sjálfstætt skemmtiatriði.

Á fyrstu sambýlisárum okkar Guðrúnar buðu þau Hólmgeir okkur með sér í hringferð um landið á Golfinum sínum með tjaldið uppi á toppi og farangur í skotti – eins og þau höfðu farið ótal sinnum með erlenda ferðamenn. Hápunktur ferðarinnar var á bjartri heiðri júlínótt við Ánavatn á Jökuldalsheiði þar sem þemað var Sjálfstætt fólk og Jónína sendi okkur hin út að veiða silung á meðan hún sauð upp á saltvatni á prímusnum í tjaldinu – og hafði meðlætið til reiðu þegar aflinn kom á land. Nokkrum árum seinna vorum við í Flókalundi en þá varð göngu- og fjallakonan Jónína fyrir því óláni að brjóta á sér ökklann og gat eftir það ekki stundað gönguferðir af sama krafti og áður.

Þá reyndist vel að hafa líka gaman af bókum og söng – með kór Árbæjarkirkju og Skagfirsku söngsveitinni. Hún gerði sér það svo að leik á fyrstu eftirlaunaárunum að taka meistarapróf í bókmenntafræði og skrifaði um staðarljóð Jónasar Hallgrímssonar, Snorra Hjartarsonar og Hannesar Péturssonar – sem hún kunni öll samanlögð. Ekki kom á óvart, eftir hringferðina um landið, að Jónína skyldi kjósa að rýna í samspil lands og ljóða því slíkar tengingar voru sífellt á vörum hennar.

Meðfram daglegum lestri nýútkominna bóka heima í sínum hægindastól hitti hún vinkonurnar árum saman til að glöggva sig betur á þeim örfáu atriðum í Sturlungu sem þær voru ennþá óklárar á, sótti námskeið um aðrar fornsögur með tilheyrandi ferðum á söguslóðir og stýrði sjálf ljóða- og bókmenntarýni meðal eldri borgara. Maður þurfti því að fylgjast vel með til að vera viðræðuhæfur.

Ellin með sínum krabba- og fótameinum að hætti fornkonunnar á Ásubergi glímdi fast við Jónínu síðustu misserin en hún hélt fullum andlegum þrótti allt til loka – og tekur nú Victor litla Gísla með sér í þá eilífð sem fram undan er. Blessuð veri þau bæði.

Gísli Sigurðsson.

Amma var merkileg kona. Hún var fyndin, ákveðin, þrjósk og hreinskilin. Hún kunni að njóta lífsins í botn en hún var líka góð amma, reyndar góð og fyndin í öllu sem hún gerði. Ég gisti oft hjá henni og afa sem barn. Hún var góður kokkur og ömmugrautur var ómissandi á kvöldin eftir skemmtilegan dag úti á róló. Þegar ég horfi til baka tek ég eftir hversu mikið hún naut þess að vera með okkur. Brosið hennar var einstakt og það besta við það var að maður sá það alltaf. Hún var alltaf skælbrosandi. Amma naut alls sem hún gerði. Henni fannst yndislegt að fara í lautarferðir, leggjast á teppið og fara í sólbað. Ég fór í margar svoleiðis ferðir með henni og afa. Afi var ekki jafn hrifinn af sólböðunum en hann hafði gaman af því að fræða mig um plöntur. Þau voru bæði mikið fuglaáhugafólk. Það er ég líka og ég er viss um að ég hafi fengið mikinn innblástur frá þeim. Amma átti fallegan fuglakaffibolla með íslenskum fuglum og ég var ánægð þegar ég náði að greina þá án vandræða. Ömmu þótti vænt um alla og passaði að allir væru heilbrigðir og borðuðu nóg. Það var nú ekki erfitt. Maturinn hennar var betri en eitthvað sem þú myndir fá á fimm stjörnu veitingastað. Henni fannst gaman að spila og að vinna og það gerði hún líka oftast. Jólin hjá þeim voru indæl. Eftir dýrindis kræsingar langaði mig sem barn til að opna pakkana strax. Þá hvíslaði ég að ömmu að matarhólfið mitt væri fullt og við þyrftum að opna pakka og spara pláss fyrir eftirmatinn. Amma lét það alltaf eftir mér. Allir voru glaðir, ekki síst amma. Fullorðna fólkið settist í brúna sófann. Amma settist þó í svarta hægindastólinn. Þetta voru og munu líklegast alltaf vera eftirminnilegustu kvöld lífs míns.

Hreinskilni er mikilvæg. Amma skildi það vel. Hún sagði hvað henni fannst og hvað hún var að hugsa þegar einhver fékk sér auka gat eða tattú. Hún var ekki bara góð amma í barnæsku minni. Hún hélt áfram að vera jafn elskuleg og fyndin eftir því sem ég eltist. Þau afi ferðuðust oft. Við fórum saman til Spánar með þeim eftir að ég útskrifaðist úr menntaskóla. Ég verð ætíð þakklát fyrir þetta ferðalag. Amma lá í sólbaði á sundlaugarbakkanum og brosti út að eyrum. Hún og afi fóru líka eitthvað í leit að fuglum. Hún sýndi líffræðinámi mínu í Háskólanum áhuga þó að hún skildi ekki allt sem ég var að gera. Einu sinni tók ég viðtal við hana og spurði hana spurninga um þróunarfræði. Við skellihlógum báðar yfir vitleysunni sem hún sagði inn á milli. Hláturinn hennar gladdi alla í kring. Hann var hávær og fyndinn. Hún var hlý manneskja. Knúsaði alla og allt. Ég hef aldrei verið mikið fyrir knús en ömmuknús voru allt annað. Amma átti sex barnabörn en hún var samt amma allra. Hún var einstök manneskja og ég er þakklát fyrir að hafa þekkt hana. Ef það væri hægt að velja á milli þess að hafa aldrei þekkt hana og þar af leiðandi aldrei misst hana og að hafa þekkt og misst hana myndi ég alltaf velja síðari valkostinn. Ég þekkti einstaka og yndislega manneskju sem elskaði heitt og ég myndi ekki skipta því út fyrir neitt.

Anna Pratichi Gísladóttir.

Ég heyri endurtaka sig „ertu komin stelpan mín, ert þetta þú Álfrún mín“. Hjartahlý og hláturmild var amma, alltaf með eitthvað á prjónunum. Hún var alltaf á leiðinni á nýjar eða gamlar slóðir og handavinnuverkefnin voru ekki af skornum skammti. Amma saumaði á okkur dætradæturnar samtals fimm upphluti, en hún saumaði enn fleiri búninga og ógrynnin öll af öðrum fatnaði. Ég geng enn í kjól frá 1984 sem hún saumaði á mömmu og pilsi sem hún prjónaði sjálfri sér og mér er það minnisstætt þegar ég kom þrettán ára með götóttar gallabuxur sem ég vildi að hún breytti í mínípils, allt alveg geggjað flott.

Amma var afbragðskokkur og framreiddi hverja veisluna á fætur annarri fyrir stórfjölskylduna og hún var örugglega oftast í eldhúsinu þegar ég kom. Langbestar allra máltíða voru snæddar við litla eldhúsborðið hjá ömmu og afa, kjötsúpa, skonsur og heit lifrarkæfa, svo fátt sé nefnt. Langbestu aðfangadagskvöldin voru haldin í Árbænum, jólaísinn, sortirnar og lifandi ljós á trénu. Við vorum orðin ansi mörg þegar afi og amma ákváðu að halda aðfangadagskvöld bara tvö, en þá flutti hún einfaldlega veisludaginn og hélt jólaboð í staðinn, því ekki mátti missa af tækifærinu til að koma okkur öllum saman, sem amma gerði við eins mörg tilefni og hægt var.

Gistinætur þegar ég var lítil stelpa skilgreindust af manna, skrafli og skrafi, og laugardagsmorgnana sem ég lagði leið mína í Skalla fylgdi alltaf ósk um einn súran mola í pokann, fyrir ömmu. Ég tel það víst að samband hennar við okkur frændsystkinin hafi verið algjörlega sniðið að okkur hverju og einu og hún hafði einstakt lag á okkur, hún vissi nákvæmlega hver við vorum.

Það er fátt eins hversdagslegt og ævintýralegt á sama tíma og að eiga sína ömmu. Bókasafnsferðir eru sveipaðar annars konar ljóma, kexið úr skúffunni er betra og bollurnar mýkri. Það voru forréttindi mín og gæfa að eiga þig að og ég bý að svo miklu meira, ég veit svo margt fleira, þín vegna, amma.

Álfrún.

• Fleiri minningargreinar um Jónínu Guðmundsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.