Upprunaábyrgðir Orkufyrirtækin hafa selt ábyrgðir fyrir 28 milljarða.
Upprunaábyrgðir Orkufyrirtækin hafa selt ábyrgðir fyrir 28 milljarða. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það er mikilvægt að taka umræðuna, en ef við myndum segja okkur frá Parísarsamningnum værum við í félagsskap með löndum eins og Lýbíu, Íran og Jemen og ég held ekki að menn séu að vísa til þess,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið.

Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins sl. laugardag var samþykkt ályktun þar sem m.a. kemur fram að endurskoða eigi skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og verja íslenska hagsmuni og hefur Parísarsamningurinn um loftslagsmál verið nefndur sérstaklega í því sambandi. Var hann spurður um viðhorf sitt til samþykktarinnar.

„Við þurfum alltaf að gæta okkar hagsmuna og það er mjög mikilvægt að taka þessa umræðu. Það hefur lítið verið rætt um efnahagslegan þátt málsins og fáir virðast vita að fjármálaráðuneytið hefur selt loftslagsheimildir sem hafa skilað um 12 milljörðum í beinum tekjum til ríkissjóðs,“ segir Guðlaugur Þór, en þessar tekjur skiluðu sér á árunum 2019 til 2023. Hann nefnir að upprunaábyrgðirnar sem má kalla megi aflátsbréf og orkufyrirtækin hafa selt, hafi skilað fyrirtækjunum tekjum upp á 28 milljarða á fyrrgreindu tímabili. Horfast yrði í augu við það. Hann kveðst þó gangast við því að hafa verið þessu mótfallinn á sínum tíma.

Niðurgreiða græna orku

Hann nefnir að aðild að Parísarsáttmálanum og og samflot með Evrópusambandinu um markmið gagnvart honum, snúist ekki einungis um tekjur með sölu á loftslagsheimildum, heldur einnig að því að með EES-samningum hafi Ísland aðgang að Evrópumarkaði. Slíkur markaðsaðgangur sé gríðarlega mikilvægur fyrir íslensk fyrirtæki og allar breytingar þurfi að gaumgæfa vel með hagsmuni atvinnulífsins í huga og íslensku þjóðarinnar þar með.

„Á meðan þetta kerfi varir, þá er talið að orkufyrirtækin muni geta selt upprunaábyrgðir fyrir allt að 17 milljarða á ári sem er bein niðurgreiðsla fyrir græna orkuframleiðslu á Íslandi. Okkar hreina orka hefur orðið stórum verðmætari og samkeppnisfærari í heimi Parísar og ETS,“ segir Guðlaugur Þór og vísar þar til viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir.

„Ég fagna því að menn vilji skoða þessi mál og það er mikilvægt að gera það, bæði á vettvangi Sjálfstæðisflokksins og þjóðarinnar. Á meðan umræðan er ekki til staðar, komast upplýsingarnar ekki til fólks og ég er reiðubúinn til að ræða þessi mál, en það verður að vera út frá staðreyndum,“ segir hann.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson