Gunnlaugur Sigurðsson
Gunnlaugur Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vanlíðan í skóla er óviðunandi ástand. Læsi og námsárangur er sameiginlegt verkefni skóla og heimila. Mælikvarðar eru nauðsynlegir fyrir skólaþróun.

Þorsteinn Þorsteinsson og Gunnlaugur Sigurðsson

Það er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál ef og þegar börnum okkar líður ekki vel í skóla. Ekki þarf að því að spyrja hvernig þeim nemendum gengur námið sem líður ekki vel í skóla. Við þekkjum það öll að fólki gengur vel í starfi ef því líður vel á vinnustað. Þess vegna er jafnan mikil áhersla lögð á að láta starfsmönnum líða vel í fyrirtækjum.

Vanlíðan drengja í grunnskóla

Ýmsar kannanir og athuganir leiða í ljós að mörgum drengjum líður ekki vel í skólunum okkar. Við okkur blasir sú staðreynd að stór hluti drengja getur ekki lesið sér til gagns við fimmtán ára aldurinn. Það er deginum ljósara að barni, sem situr á skólabekk á aldrinum sex til fimmtán ára og ræður ekki almennilega við lestur, hlýtur að líða illa. Hvað ætli hljótist af því að búa við vanlíðan svo árum skiptir? Jú, annaðhvort fyllist einstaklingurinn miklu þunglyndi sem gæti leitt til þess að hann glati öllum lífsvilja eða þá að hann reynir að brjótast út úr þessari miklu vanlíðan og þá oftast með miklum fyrirgangi og ofsa, jafnvel ofbeldi. Þetta er margreynt. Við athugun á föngum í fangelsum í Bretlandi fyrir nokkrum árum kom í ljós að fangarnir voru ýmist ólæsir eða illa læsir, flestir voru mjög ofbeldisfullir.

Hvað er til ráða?

Ekki viljum við að börn okkar og ungmenni verði misheppnaðir einstaklingar í framtíðinni. Gæti það verið að með núverandi ástandi í skólum okkar séum við að búa til fólk sem á sér mjög líklega fremur dapurlega framtíð fyrir höndum? Það er mikilvægt að foreldrar og skólar taki saman höndum til að tryggja að börnum okkar líði sem best í skólunum. Gott er að foreldrar búi börn sín vel undir fyrstu spor skólagöngunnar. Hlutverk foreldra er að lesa reglulega fyrir og með börnum sínum. Ekki síðar en við þriggja ára aldurinn þarf að byrja að kenni þeim á stafina og prófa að kenna þeim að lesa. Margar góðar bækur eru til fyrir lítil börn. Gott er að nota fyrst bækur með litskrúðugum myndum og skýrum stöfum. Með þessu öllu er börnum sýnt að mikill undraheimur leynist í bókunum. Bóklestur af ýmsu tagi á að vera hátíðar- og gæðastund á hverju heimili.

Lestrarkennsla

Mikilvægt er að koma á sambandi og samvinnu foreldra og skóla strax við byrjun skólagöngunnar. Ýmsar lestraraðferðir eru til og eru þær allar jafngóðar. Foreldrar ættu að geta leitað til skólanna ef erfiðlega gengur í byrjun. Þá kemur vel til greina að grunnskólar bjóði foreldrum upp á fræðslu, t. d. með stuttum námskeiðum og jafnvel einföldum atriðum barnauppeldis. Það er engin tilviljun að ætlast er til að fólk læri ákveðin grunnatriði þegar fólk fær sér dýr, s.s. hunda, hesta o.fl. Hvers vegna gilda önnur lögmál þegar fólk eignast börn?

Umhyggja

Öll börn verða að skynja áhuga og ástúð beggja foreldra hvað sem á dynur í daglegu lífi foreldranna. Foreldrahlutverkið er afar mikilvægt og ýmis ráð eru fyrir hendi til að efla þetta mikilvæga hlutverk. Gott væri að efna til fundar með foreldrum barna í 1. bekk og fulltrúum skólanna. Samvinnan yrði í formi þess að gerðar yrðu stuttar og tímasettar námsáætlanir fyrir hvert barn og ættu foreldrar og kennarar að vinna í samvinnu að því að hrinda öllum atriðum áætlunarinnar í framkvæmd. Nauðsynlegt er að öll börn nái fljótt tökum á lestri. Munum svo að börn okkar og ungmenni eru yfirleitt heilbrigð en ef svo er ekki verður að grípa til sérstakra ráðstafana í góðu og nánu samstarfi skóla og foreldra. Öll börn þurfa gott og heilbrigt umhverfi og ástúð, hlýju heima fyrir og í skólanum. Þá er og mikilvægt að öll samskipti foreldra og skóla séu góð. Börn átta sig jafnan vel á því hvernig samskiptin eru.

Samræmt námsmat

Sterkar vísbendingar eru um að skólastarf skili ekki nógu góðum árangri um þessar mundir, sbr. Pisa-niðurstöður, slök lestrarkunnátta o.fl. Mikilvægt er að við getum séð með ótvíræðum hætti hvernig skólar standa sig í starfi. Ekki verður um það deilt að skólarnir eru fyrir nemendur.

Það er dapurleg staðreynd að ákveðinn hópur er mótfallinn miðlægu og samræmdu námsmati. Það getur hljómað vel að gefa nemendum góðar umsagnir. Þá eru nemendur og foreldrar ánægðir og stjórnendur skóla einnig. Enginn spyr um raunverulega kunnáttu nemandans. Það þykir ekki lengur við hæfi. Rökin eru oft á tíðum stórundarleg, s.s. að slíkt samræmt námsmat valdi mismunun og sé jafnvel tímaskekkja. Mælitæki í skólastarfi eru nauðsynleg til að sjá hvar við stöndum og hvernig við getum um leið gert áætlanir um að gera betur því að það er alltaf hægt.

Ekki dytti nokkrum manni í hug að smíða og þróa farar- og flutningatæki án mæla eða mælitækja. Slíkt væri talið algjörlega galið.

Nú þarf aldeilis að taka til hendinni í þessum efnum.

Þorsteinn er fyrrverandi skólameistari og Gunnlaugur er fyrrverandi skólastjóri.