Sólmyrkvahátíð Þúsundir manna komu saman á túninu framan við Háskóla Íslands og mikil fagnaðarlæti brutust út þegar sólin myrkvaðist.
Sólmyrkvahátíð Þúsundir manna komu saman á túninu framan við Háskóla Íslands og mikil fagnaðarlæti brutust út þegar sólin myrkvaðist. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
2015 „Ég er enn með gæsahúð.“ Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði

Sviðsljós

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Líklega horfði þorri Íslendinga til himins klukkan 9.37 að morgni föstudagsins 20. mars árið 2015 og fylgdist með því þegar tunglið huldi allt að 99,4% af sólinni, frá Íslandi séð.

„Ég er enn með gæsahúð,“ sagði Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði Ásatrúarfélagsins við mbl.is um sólmyrkvann. Félagið var með sérstaka hátíð í Öskjuhlíð í Reykjavík um morguninn, þar sem síðar um daginn var tekin fyrsta skóflustunga að væntanlegu hofi félagsins. Mynduð voru táknræn vébönd, kveikt var á kertum í höfuðáttum og staðarvættir blótaðar með smjöri og bjór.

„Þegar myrkvinn náði hámarki var kveiktur eldur á staðnum þar sem hofið rís, bumbur voru barðar og sigri ljóssins var fagnað með kveðskap og tónlist,“ segir Hilmar Örn en hann segir margar fallegar sólartilvísanir í eddukvæðum sem sungið var upp úr. „Þessi tímasetning er hlaðin merkingu og er afskaplega merkileg,“ útskýrir Hilmar Örn. „Sól og tungl í samstöðu að fara inn í hrútsmerkið. Þetta er afskaplega táknræn ný byrjun og mjög merkileg stjörnuspekilega séð.“

Talið niður

Bestu skilyrðin til að fylgjast með myrkvanum voru hér á landi. Morgunblaðið sagði frá því daginn eftir að fólk hefði átt stefnumót víðsvegar um landið þegar sólmyrkvinn gekk yfir. Þúsundir manna söfnuðust saman fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands, fjöldi kom saman við Hallgrímskirkju og víða voru skíðasvæði opnuð til þess að fólk gæti fylgst með fyrirbærinu úr nokkurri hæð. Fjölmargir erlendir stjörnu- og veðurfræðingar heimsóttu einnig landið vegna myrkvans og á meðan sumir tóku þátt í hátíðahöldum voru aðrir uppteknir við mælingar og rannsóknarstörf. Gríðarleg stemning myndaðist á svæðinu framan við háskólann. Hópurinn taldi niður í sameiningu, og þegar hámarkinu var náð brutust út mikil fagnaðarlæti.

Meðal viðstaddra voru hjónin Edward og Hailey Gomez, stjörnufræðingar frá Cardiff í Wales, en þau gerðu sér sérstaka ferð til Íslands til að fylgjast með sólmyrkvanum, rétt eins og margir aðrir.

„Það er ekki hægt að lýsa þessu. Þetta var töfrum líkast,“ sagði Edward. Hailey tekur undir og segir það hafa verið dásamlegt að deila upplifuninni með öllu þessu fólki.

Mörgum þótti kólna þegar tunglið þakti sólina að mestu en samkvæmt upplýsingum Halldórs Björnssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, lækkaði hitinn um rúma hálfa gráðu á meðan deildarmyrkvinn stóð sem hæst. „Við erum með færanlega stöð til að sleppa loftbelg sem var upphaflega keyptur til að geta mælt ýmislegt í tengslum við eldgos. Blaðran náði tuttugu og fjögurra kílómetra hæð. Það varð 0,7 gráða kólnun sem fylgdi sólmyrkvanum í Reykjavík. Sólargeislunin og hitinn fylgdust að í þessu,“ segir hann við Morgunblaðið.

Stórkostleg sjón

„Þeir sem horfa á deildarmyrkva eins og varð nú átta sig ekki á því hvað er mikill munur á honum og almyrkva. Það er tvennt ólíkt en deildarmyrkvi er vissulega áhugaverður,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur við Morgunblaðið. Við almyrkva hylur tunglið alla skífu sólar, frá jörðu séð, en ekki við deildarmyrkva. Tunglið huldi t.d. 97,5% af skífu sólar í Reykjavík en 99,4% á Norðfirði. Ferill almyrkvans lá austur af landinu.

Þorsteinn rifjaði upp almyrkvann sem sást syðst á Íslandi 30. júní 1954. Hann fylgdist með honum af Reynisfjalli við Vík í Mýrdal.

„Í almyrkva þarf engin sólmyrkvagleraugu. Þú getur horft beint í sólina. Maður sér kórónu sólar teygjast langt út frá henni. Það er stórkostleg sjón. Maður sér líka glóandi sólstróka út frá sólinni. Það sem kom mér mest á óvart var liturinn á himninum. Það eru svo stórkostleg litbrigði að því verður ekki lýst. Maður sér út fyrir skuggann og þar sjást allir litir regnbogans. Þetta er að mínu viti stórkostlegasta náttúrufyrirbæri sem maður getur upplifað. Þess vegna eltast menn við að sjá þetta aftur og aftur.“

Stjörnufræðivefurinn dreifði sólmyrkvagleraugum í alla grunnskóla landsins

Almenningur brást við þegar gjaldþrot vofði yfir

Félagasamtökin Stjörnufræðivefurinn, sem Sævar Helgi Bragason stýrir, útvegaði 72 þúsund sólmyrkvagleraugu fyrir sólmyrkvann og voru um 54 þúsund gleraugu gefin til grunnskólabarna og afgangurinn seldur á fimm hundruð krónur stykkið. Tekjurnar af sölunni dugðu ekki til að greiða allan kostnað og skýrði mbl.is frá því árið eftir að samtökin hefðu verið úrskurðuð gjaldþrota. Sterk viðbrögð voru við þessum fréttum og var hafin söfnun meðal almennings og félagasamtaka. Nóg safnaðist til að greiða skuldirnar sem ollu gjaldþrotinu og gott betur. Lýstar kröfur í búið voru afturkallaðar og því fékk Stjörnufræðivefurinn að lifa áfram.

Almyrkvi á sólu mun sjást hér á landi 12. ágúst 2026. Ætlar Sævar Helgi að endurtaka leikinn?

„Svo sannarlega, ég er nógu vitlaus til að gera sömu mistökin tvisvar. Reyndar ætla ég ekki að gefa gleraugun í þetta skiptið, enda verða skólar ekki byrjaðir. En ég ætla að reyna að sjá til þess að allir Íslendingar geti fengið ódýr gleraugu. Ég keypti nýlega lénið solmyrkvagleraugu.is og er að láta hanna íslenska útgáfu af slíkum gleraugum,“ segir hann.

Sævar Helgi segist einnig vonast til að geta fært öllum grunnskólum á Íslandi sérstaka sólarsjónauka vorið 2026, sem hægt verður að nota til að fylgjast með sólblettum og sólmyrkvum á skólatíma. „Ég er að leita leiða til að fjármagna það ævintýri núna.“

Ýmsar upplýsingar um sólmyrkvann eftir tvö ár er að finna á vefnum solmyrkvi2026.is.

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson