Hressingarskálinn var lengi eitt vinsælasta kaffihúsið í miðbæ Reykjavíkur, eins og ég hef hér vikið að áður. Höfðu gestir gaman af að horfa út á Austurstræti, þar sem margt var um að vera. Eitt sinn á fimmta áratug síðustu aldar sátu skáldin Tómas…

Hressingarskálinn var lengi eitt vinsælasta kaffihúsið í miðbæ Reykjavíkur, eins og ég hef hér vikið að áður. Höfðu gestir gaman af að horfa út á Austurstræti, þar sem margt var um að vera. Eitt sinn á fimmta áratug síðustu aldar sátu skáldin Tómas Guðmundsson og séra Sigurður Einarsson í Holti saman á Hressingarskálanum, og sáu þeir gamlan bekkjarbróður sinn úr menntaskóla, Halldór Kiljan Laxness, stika fram hjá. Þá varð Sigurði að orði: „Hugsaðu þér, Tómas, hvað hefði getað orðið úr okkur, ef við hefðum haft dugnaðinn hans Halldórs!“ Liggja þó eftir þá báða hin ágætustu kvæði.

Einn fastagesturinn á Hressingarskálanum var Haraldur Hamar Thorsteinsson, sonur Steingríms skálds. Hann var óreglumaður og fékkst við lítið annað en setu á kaffihúsum. Um hann sagði annar fastagestur, Agnar Þórðarson rithöfundur: „Hann var að sjá eins og ævisaga, þar sem allar síðurnar eru auðar.“

Einhverju sinni snemma á níunda áratug síðustu aldar sátu þeir Bergur Pálsson stjórnarráðsfulltrúi og Ásgeir Hannes Eiríksson pylsusali að skrafi á Hressingarskálanum og sáu þeir Magnús Torfa Ólafsson, þá blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar, skálma fram hjá. Sagði þá Bergur: „Hvaða læti eru þetta í honum Magnúsi? Hefur hann ekki ennþá áttað sig á því, að hann er kominn í vinnu hjá hinu opinbera?“