[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþjóðadagur hreins lofts í þágu heiðskírs himins er í dag, 7. september. Við Íslendingar njótum þeirra forréttinda að loftið hér er almennt eitt það hreinasta í heimi þrátt fyrir að gosmóða, svifryk og fleiri þættir hafi stundum áhrif á loftgæðin

Sviðsljós

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Alþjóðadagur hreins lofts í þágu heiðskírs himins er í dag, 7. september. Við Íslendingar njótum þeirra forréttinda að loftið hér er almennt eitt það hreinasta í heimi þrátt fyrir að gosmóða, svifryk og fleiri þættir hafi stundum áhrif á loftgæðin.

Fyrr á þessu ári sendi svissneska stofnunin IQAir frá sér skýrslu þar sem stuðst var við upplýsingar frá veðurstöðvum í 134 löndum á síðasta ári og samkvæmt henni er Ísland eitt aðeins sjö landa í heiminum sem standast viðmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um loftgæði. Hin löndin eru Finnland, Ástralía, Eistland, Grenada, Máritíus og Nýja-Sjáland.

Þá hefur Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) nú birt skýrslu þar sem loftgæði í 759 evrópskum borgum eru metin og þar er Reykjavík í 6. sæti. Í skýrslu stofnunarinnar kemur fram að byggt er á upplýsingum frá árunum 2021-2022. Mældar eru öragnir í andrúmslofti og að auki hefur nú verið bætt við tveimur lofttegundum sem hafa áhrif á loftgæði, köfnunarefnisdíoxíði (NO2) og ósoni (O3).

Athygli vekur að borgir í norðurhluta Finnlands, Svíþjóðar og Noregs auk Reykjavíkur eru í efstu 15 sætunum á listanum. Efst er sænska borgin Umeå en næstar koma Kuopio og Oulu í Finnlandi, Uppsalir og Västerås í Svíþjóð, Reykjavík, Tampere í Finnlandi, Norrköping, Södertälje, Stokkhólmur og Örebro í Svíþjóð, og Espoo, Jyväskylä og Lahti í Finnlandi og Tromsø í Noregi. Helsinki er í 20. sæti, Kaupmannahöfn í 47. sæti og Ósló í 66. sæti.

Minnstu loftgæðin, samkvæmt skýrslunni, eru í pólskum og ítölskum borgum. Þannig eru Brescia og Tórínó á Ítalíu í neðstu sætum á listanum.

Leiða má líkur að því að veðurfar í norðurhluta Evrópu hafi jákvæð áhrif á loftgæðin og þar sjái vindar um að blása menguninni burt. Að sögn Hlyns Árnasonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, mælist þannig mest köfnunarefnisdíoxíð í andrúmslofti hér á landi á froststilludögum. „Það er því erfitt að fullyrða að við mengum minna en aðrir en mengunin liggur ekki lengi yfir,“ segir hann.

Ógn við heilsu

En víða um heim er loftmengun mikið vandamál og er raunar litið á hana sem eina helstu ógnina við almenna lýðheilsu auk þess sem hún hefur áhrif á efnahagslíf og matvælaframleiðslu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir þannig að níu af hverjum tíu manneskjum í heiminum andi að sér mjög menguðu lofti.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) birti í vikunni árlega skýrslu um öragnir í andrúmslofti í tilefni af alþjóðadegi hreins lofts. Þar er átt við svonefndar PM2,5 agnir sem eru minni en 2,5 míkrómetrar að stærð og nægilega smáar til að komast inn í blóðrásina. Um er að ræða banvænustu tegund loftmengunar, sem veldur milljónum dauðsfalla á ári hverju. Agnirnar stafa einkum frá brennslu á jarðefnaeldsneyti, samgöngum og iðnaði en einnig frá skógareldum, mold- og sandroki.

Í skýrslunni kemur fram að öragnir í andrúmslofti hafi minnkað í Evrópu og Kína á síðasta ári. Segir stofnunin að rekja megi það með beinum hætti til minni losunar mengunarefna á síðustu árum. Hins vegar hefur magn öragna í andrúmslofti aukist á Indlandi og sumum svæðum í Suðaustur-Asíu.

Stofnunin leggur jafnframt áherslu á að bein tengsl séu á milli loftgæða og loftslagsbreytinga því að efni sem valda loftmengun séu venjulega losuð út í andrúmsloftið á sama tíma og svonefndar gróðurhúsalofttegundir.

„Vítahringur loftslagsbreytinga, skógarelda og loftmengunar hefur sívaxandi neikvæð áhrif á lýðheilsu, vistkerfi og landbúnað,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.

Plastmengun

Þess má að lokum geta að í vikunni var birt skýrsla um plastmengun í tímaritinu Nature þar sem lagt er mat á hvernig plast berst út í umhverfið. Plast hefur fundist í snjó á hæstu fjallatindum og í fjarlægum úthöfum og örplast hefur greinst í blóði og brjóstamjólk.

Hingað til hefur slík mengun oftast verið rakin til þess að plastúrgangi er hent, en plast er afar lengi að brotna niður í náttúrunni. En í skýrslunni eru færð rök fyrir því að örplastmengun megi einnig að stórum hluta rekja til þess að plastúrgangur er brenndur á opnum eldi.

Skýrsluhöfundar áætla að um 52 milljónir tonna af plastúrgangi hafi farið út í umhverfið árið 2020, þar af rúmlega helmingurinn eftir að hafa verið brenndur á heimilum, á götum úti eða á opnum svæðum. Slík brennsla eyði ekki plastinu heldur dreifi smærri ögnum út í andrúmsloftið og auki á loftmengunina.

Nú er unnið að gerð alþjóðlegs sáttmála um plastmengun og verður samningafundur um hann haldinn í Suður-Kóreu í nóvember.