„Það eru mikil tíðindi fyrir bókmenntaunnendur á Íslandi að fá Salman Rushdie til landsins,“ segir Halldór Guðmundsson.
„Það eru mikil tíðindi fyrir bókmenntaunnendur á Íslandi að fá Salman Rushdie til landsins,“ segir Halldór Guðmundsson. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lýsingin á þessum 27 sekúndum sem hnífamaðurinn stendur yfir Rushdie og liggur síðan ofan á honum og stingur hann og stingur er ótrúlega sterk.

Halldór Guðmundsson, rithöfundur og bókmenntafræðingur, mun ásamt Höllu Oddnýju Magnúsdóttur ræða við Salman Rushdie að lokinni verðlaunaafhendingunni í Háskólabíói 13. september næstkomandi. Viðburðurinn er ókeypis en það þarf að skrá sig á tix.is.

„Það eru mikil tíðindi fyrir bókmenntaunnendur á Íslandi að fá Salman Rushdie til landsins og frábært tækifæri að fá að heyra hann ræða um verk sín í Háskólabíói. Í þessum verkum er einatt tveggja heima sýn, því hann er öðrum þræði að fást við sinn indverska uppruna, drenginn frá Bombay, eins og hann leggur áherslu á, og rætur sínar í Kasmír. En um leið er hann breskur rithöfundur,“ segir Halldór, sem starfaði lengi sem útgáfustjóri og gaf út bókina Söngva Satans eftir Rushdie.

„Hann kemur ungur til Englands, er þar í framhaldsskóla og háskóla og er oft talinn tilheyra kynslóð sem endurnýjaði enskar sagnabókmenntir, höfundum eins og Ian McEwan, sem var einmitt fyrstur til að hljóta hin alþjóðlegu bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness, Jeanette Winterson, Kazuo Ishiguro eða vinum hans Martin Amis og Bruce Chatwin, sem báðir eru látnir. Mikill kraftur fylgdi þessu fólki og það náði til stórs lesendahóps, en vegna tveggja heima sýnar sinnar skar Rushdie sig úr og varð táknmynd þess sem á íslensku er kallað eftirlendustefna (e. post-colonialism).“

Ný bókmenntagrein

Halldór segir viðfangsefnin vera í senn upprunalandið sem býr við nýfengið frelsi og fyrrverandi heimsveldið sem drottnaði yfir því. „Segja má að það hafi búið til nýja bókmenntagrein, indversk-ensku skáldsöguna. Það gerist í raun með annarri skáldsögu hans, Midnight‘s Children, eða Miðnæturbörn eins og hún heitir í þýðingu Árna Óskarssonar. Hún kom út 1981 og bar hróður hans víða; hlaut Booker-verðlaunin eftirsóttu það ár og eftir útkomu hennar gat Rushdie helgað sig alfarið ritstörfum, en áður hafði hann meðal annars unnið á auglýsingastofu.“

Aðalpersónan og jafnframt sögumaðurinn í Miðnæturbörnum, Saleem Sinai, er fæddur á miðnætti 15. ágúst 1947. „Hann er því nákvæmlega jafngamall sjálfstæði Indlands, ef svo má segja. Hann hefur sjálfsævisögulega drætti en er jafnframt gæddur óvanalegum hæfileikum eins og öll miðnæturbörnin,“ segir Halldór. „Saleem segir vinkonu sinni ævintýralega sögu sína, og formið getur stundum minnt á Þúsund og eina nótt, en lesandinn kynnist um leið þessari heimsálfu sem Indland eiginlega er, og ýmsum þeim menningarstríðum sem landið fór í gegnum að nýfengnu sjálfstæði. Bókin þótti lýsa indverskum veruleika með nýstárlegum hætti og fjölskrúðugu tungutaki. Aðferð Miðnæturbarna hefur oft verið kennd við töfraraunsæi, upp á indverskan máta, höfundurinn leyfir sér ævintýralega atburði, jafnvel fjarstæðukennda, innan um hversdaginn. Sjálfur hefur Salman oft vitnað til frægasta fulltrúa töfraraunsæisins, Garcia Marquez, og hann telur bók hans Hundrað ára einsemd einhverja merkustu skáldsögu 20. aldar. En hann á sér marga aðra uppáhaldshöfunda og áhrifavalda, svo sem Joyce, Borges og Günter Grass. En í viðtölum um Miðnæturbörn þakkaði hann ekki síst munnlegri sagnahefð Indlands, og svo ensku öndvegishöfundunum Jane Austen og Charles Dickens.“

Áhrifamikil bók

Skáldsagan Miðnæturbörn sló í gegn víða um heim. „Eftir það skrifaði Salman til dæmis skáldsögu um Pakistan (Shame) og bók um Sandinista í Níkaragúa, en hann skrifaði reyndar margar pólitískar ritgerðir á níunda áratugnum,“ segir Halldór. „Næsta stórvirki hans var bókin sem á íslensku fékk nafnið Söngvar Satans í þýðingu Árna Óskarssonar og Sverris Hólmarssonar. Aðferðafræðin er ekkert ósvipuð þeirri sem hann notar í Miðnæturbörnum; hinu hversdagslega og hinu fjarstæðukennda er blandað saman og tveir gerólíkir menningarheimar eru undir. Þarna er líka kafli um hin svokölluðu satansvers. Þá þarf að hafa í huga að Kóraninn er talinn hafa vitrast Múhameð spámanni í ótal opinberunum frá Guði á 23 ára tímabili, og bókin var svo endanlega skrásett eftir hans dag. Það er gömul sögn sem segir að djöfullinn hafi reynt að narra Múhameð með fölskum versum, og þá sögn notfærir Rushdie sér í bókinni, með sínum hætti.

Ég er sannfærður um að Rushdie hafði ekki hugmynd um hvað hann var að kalla yfir sig þegar hann sendi þessa skáldsögu frá sér. Og fyrst um sinn fór allt friðsamlega fram, hún hlaut verðlaun og frekar góða dóma, en svo fór að bera á mótmælum og allt ætlaði um koll að keyra þegar æðsti klerkur Írans, Khomeini, sendi frá sér svokallaða fötwu, í febrúar 1989, sem fól í sér dauðadóm yfir höfundinum og hverjum þeim sem stuðluðu að útbreiðslu verksins. Í kjölfarið fannst okkur hjá Máli og menningu ekki annað hægt en að gefa þessa bók út, þó ekki væri nema sem tákngervingu málfrelsis.“

Í kjölfar dóms Khomeinis brutust út gríðarleg mótmæli um allan heim og Halldór rifjar það upp: „Svo fór til dæmis að japanskur þýðandi verksins var myrtur, en hann var reyndar merkur prófessor í íslömskum fræðum, ítalskur þýðandi rétt lifði af tilræði og norskur útgefandi verksins, góður vinur minn William Nygaard, var skotinn þrisvar í bakið og ótrúlegt að hann skuli hafa sloppið lifandi frá því.“

Það voru einnig mikil mótmæli í heimalandi höfundar og í níu ár mátti Rushdie búa við stranga gæslu bresku lögreglunnar. Árið 1998 lýsti ríkisstjórn Írans því yfir að hún styddi ekki lengur dauðadóminn, en síðan hefur æðstiklerkurinn Khameini margítrekað að hann verði ekki afturkallaður og harðlínusamtök hafa sett stórfé til höfuðs Rushdie. Um þessa sögu alla hefur Rushdie skrifað sjálfsævisögulegt verk sem heitir Joseph Anton og kom út 2012, en Halldór segir það mjög áhrifamikið.

Salman Rushdie flutti til New York um aldamótin og hélt áfram að skrifa þar, án nokkurrar öryggisgæslu, og senda frá sér margvísleg verk. Hann hafði fengið að vera í friði í 22 ár, þar til í ágúst 2022, þegar hann varð fyrir hrikalegri hnífaárás ungs manns á fundi um öryggi rithöfunda. Um þetta hefur hann nú skrifað bókina Hnífur, sem var að koma út á íslensku í þýðingu Árna Óskarssonar.

„Hnífur er hrikalega áhrifamikil bók. Lýsingin á þessum 27 sekúndum sem hnífamaðurinn stendur yfir Rushdie og liggur síðan ofan á honum og stingur hann og stingur er ótrúlega sterk,“ segir Halldór. „Af hverju núna, eftir öll þess ár, spyr höfundurinn sig. En bendir jafnframt á að á þessum 27 sekúndum sé hægt að fara með eina af sonnettum Shakespeares. Því hvað sem gerist og á dynur hefur Rushdie alltaf reynt að vera rithöfundur, maður bókmenntanna.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir