Minning Bryndís Klara Birgisdóttir lést af áverkum sínum 30. ágúst sl., 17 ára að aldri.
Minning Bryndís Klara Birgisdóttir lést af áverkum sínum 30. ágúst sl., 17 ára að aldri.
Dyr Lindakirkju í Kópavogi verða opnar almenningi í dag frá kl. 12 til 17, til að heiðra minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem lést af áverkum sínum 30. ágúst sl. eftir hnífaárás á Menningarnótt

Dyr Lindakirkju í Kópavogi verða opnar almenningi í dag frá kl. 12 til 17, til að heiðra minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem lést af áverkum sínum 30. ágúst sl. eftir hnífaárás á Menningarnótt.

Bryndís Klara var 17 ára er hún lést en hún fermdist í Lindakirkju vorið 2021. Í tilkynningu frá Lindakirkju segir m.a. að „í ljósi djúprar sorgar og ákalls samfélagsins“ sé minningarstundin haldin í dag, tveimur vikum eftir voðaverkið.

Vernd gegn ofbeldi

Til minningar um Bryndísi Klöru hefur verið stofnaður sjóður sem verður í umsjón KPMG. Verndari sjóðsins er Halla Tómasdóttir forseti Íslands. Sjóðnum er ætlað að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.

Sjóðurinn mun einbeita sér að fræðslu, rannsóknum og vitundarvakningu, til að koma í veg fyrir að slíkar hörmungar endurtaki sig, eins og það er orðað í tilkynningu kirkjunnar. Númer reikningsins er 0515-14-171717, kennitala 430924-0600.

Á minningarstundinni í Lindakirkju í dag verður varpað upp myndum sem vinir og fjölskylda Bryndísar Klöru hafa tekið saman. Þá verður flutt eftirlætistónlist hennar, sem vinkonur hennar völdu. „Ekkert talað mál fer fram heldur geta allir sem vilja komið og tendrað á kerti í minningu Bryndísar, beðið og átt hljóða stund í kirkjunni.“

Veljum líf, ekki hníf

Í tilkynningu kirkjunnar er biðlað til allra þeirra sem bera hníf að skila þeim til lögreglunnar. Óska foreldrar Bryndísar þess að dauði hennar verði til þess að vopnaburður heyri sögunni til og kærleikurinn verði eina vopnið.

„Heiðrum minningu Bryndísar með því að velja líf en ekki hníf,“ segir í tilkynningu Lindakirkju til fjölmiðla.