Ólafía Sigríður Brynjólfsdóttir fæddist 28. febrúar 1936 í Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 26. ágúst 2024.

Foreldrar Ólafíu voru Jóhannes Brynjólfur Hólm Brynjólfsson, bóndi í Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd, f. 6. janúar 1903, d. 14. október 1979, og Margrét Þórarinsdóttir, húsfreyja í Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd, f. 9. febrúar 1911, d. 27. júlí 1995. Systkini Ólafíu voru Brynjólfur Gunnar, f. 6. febrúar 1930, d. 3. mars 2017. Þórarinn, f. 23. ágúst 1931, d. 27. maí 2005. Elísabet Guðrún, f. 31. janúar 1933, d. 10. desember 2016. Reynir, f. 27. apríl 1934, d. 9. júlí 2024. Unnur Kristín Björg, f. 15. maí 1937, d. 8. mars 1981. Garðar, f. 12. júní 1939, d. 2. september 2012.

Ólafía ólst upp ásamt systkinum sínum í foreldrahúsum í Minna-Knarrarnesi. Hún var einstaklega barngóð og fór ung að hjálpa til við heimilisstörf og umönnun barna. Tólf ára var hún fengin til vinafólks í Vogum til aðstoðar á barnmörgu heimili um hríð þegar enn fjölgaði í fjölskyldunni. Enn fremur var hún í vist á Hvalgröfum á Skarðsströnd hjá hjónunum Lenu og Sæmundi, og aðstoðaði mest með börnin á því heimili, og var alla tíð hlýtt til heimilisfólksins þar. Sem unglingur var hún einnig í vist á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd, hjá hjónunum Guðrúnu og Samúel, og áttu þær Guðrún og Ólafía trygga og innilega vináttu ævilangt.

Ólafía var lengst af húsmóðir og átti sjö börn sem öll komust til fullorðinsára. Með sambýlismanni sínum, Ásþóri Guðmundssyni, átti hún synina Gunnar, f. 18. október 1952, d. 22. apríl 2021, og Brynjólf, f. 4. febrúar 1954. Ólafía giftist síðar Sigurði G. Ólafssyni og eignuðust þau fimm börn. Þau eru: Ólafur, f. 23. júlí 1961, Bryndís Hólm, f. 7. október 1962, Margrét Guðrún, f. 14. desember 1963, Sigurður Garðar, f. 15. desember 1964, og Magdalena, f. 6. júlí 1966.

Ólafía starfaði sem ung stúlka í fiskverkun í Vogum á Vatnsleysuströnd og síðar eins og svo margt Suðurnesjafólk á Keflavíkurflugvelli hjá Íslenskum aðalverktökum. Þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Sigurði Ólafssyni. Hún flutti til Reykjavíkur 1960 þegar hún hóf búskap með Sigurði og sinnti heimili og börnum af natni og alúð þar til börnin flugu úr hreiðrinu. Þá fór Ólafía út á vinnumarkaðinn aftur, starfaði við fiskverkun hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur og síðar í Ísbirninum. Síðan færði hún sig yfir í heimaþjónustu hjá Reykjavíkurborg þar sem hún starfaði í fjölda ára. Ólafía var í sambúð með Sigursteini Hjaltested árin 1977 til 1992.

Börn, barnabörn og barnabarnabörn Ólafíu eru 52, þrjú þeirra látin.

Ólafía verður jarðsungin frá Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd í dag, 7. september 2024, klukkan 13.

Hún hallar sér fram á gluggakistuna og horfir út í haustnóttina. Ég færi mig til hennar, príla upp á rúmið og horfi með henni. Á heiðum himni sveiflast norðurljósin um eins og þau séu að fægja stjörnurnar svo þær skíni skærar. „Norðurljósin eru svo falleg,“ segir hún við mig og ég kinka kolli. Hún er sjálf svo falleg, svo róleg, svo hlý. Hún bendir og heldur áfram: „Sérðu stjörnurnar þrjár sem eru þarna í beinni röð? Þær heita Fjósakonurnar. Og stjörnurnar þarna, sem eru allar saman í hóp, þær heita Sjöstjarnan.“ Þó ég sé bara sjö ára þá finnst mér ég allt í einu vita svo margt, ég veit hvað stjörnurnar heita.

Hún hlustar á lögin í útvarpinu og syngur með. Þátturinn er „Óskalög sjúklinga“ og viti menn, það kemur kveðja frá afa sem liggur á Sankti Jó í Hafnarfirði. Afi sendir alltaf sama lagið með kveðjunni sinni og við syngjum báðar með;

Lille sommer fugl, lille sommerfugl

flyv fra blomst og til blomst, fra skjul til skjul.

Når jeg ser på dig, ak, så tænker jeg,

hvem der bare var sommerfugl.

Lagið klárast og ég hleyp út, ég kom bara inn til að ná í kex, við erum í brennó krakkarnir í götunni.

Hún drýpur höfði og signir yfir leiðið. Hennar nánasta vinkona og systir fær stjúpurnar frá henni á leiðið sitt á hverju vori, 15. maí. Þarna stendur hún, örlítið hokin, virðist svo brothætt, en ég veit að hún er sterk. Ég veit það af því að ég veit um svo margar erfiðar bárur og boðaföll sem hún hefur staðið. Ég vona að ég geti verið sterk eins og hún.

Elsku mamma, takk fyrir allt sem þú gafst mér og börnunum mínum. Við horfum á norðurljósin og stjörnurnar og sjáum þig þar.

Þín dóttir

Margrét Guðrún.

Elsku fallega mamma mín, nú ert þú horfin og farin að hvíla þig á góðum stað, annars staðar. Hugur minn og drengjanna minna verður hjá þér ávallt, þér til heiðurs. Við eigum fallegar minningar sem litast af öllu því góða sem við áttum saman með þér, elsku mamma, og lýsa sér best í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. Allir sem fengu þann heiður að kynnast þér vita hversu yndisleg móðir, amma, vinur og góðhjörtuð kona þú varst og lýstir upp tilveruna með nærveru þinni.

Elsku mamma mín, við söknum þín og munum á allri okkar vegferð í lífinu hafa þig að leiðarljósi. Minning þín lifir, hvíl í friði, fallega mamma. Guð, ljósið og englar umvefji þig í nýjum heimi. Við elskum þig og hugsum til þín ávallt.

Þín

Bryndís, Kristján Kári, Daníel Heimir, Halla og barnabörn.

Mig langar að minnast elskulegrar föðurömmu minnar, Ólafíu eða Lóló ömmu.

Þegar hugurinn reikar og minningar streyma fram, minnist ég ömmu minnar sem ótrúlega fallegrar og fínlegrar konu sem hafði alltaf yfir sér rólegt og þægilegt yfirbragð. Var natin og hugsaði vel um útlitið á yfirlætislausan hátt. Einu sinni sat ég sem barn dolfallin við eldhúsborðið heima hjá henni í Ferjubakkanum og starði á hana plokka augabrúnirnar á sér með spegli og pússa neglurnar. Ég hafði aldrei séð neina konu gera svona áður, hvað þá á svona eðlilegan og áreynslulausan hátt.

Amma mín átti langa ævi sem sannarlega var ekki alltaf auðveld. Hún átti sex systkini sem ólust flest upp að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd hjá foreldrum sínum Margréti og Brynjólfi. Í dag verða kaflaskil þegar síðasta systkinið í barnahópnum verður jarðsett. Fjölskylduaðstæður buðu ekki upp á mikil efnisleg gæði og Lóló amma var farin að vinna ung fyrir vasapeningum í Vogunum og var send í sveit sem barn á Skarðsströnd. Hún eignaðist sitt fyrsta barn mjög ung. Aðeins þrítug var hún orðin sjö barna móðir og hún varð fyrst amma 38 ára gömul.

Amma var mikil barnagæla og þótti óskaplega vænt um öll sín barnabörn og langömmubörn. Mér fannst ég detta í lukkupottinn þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn, Amíru Snærós, þá var Lóló amma ótrúlega dugleg að koma í heimsókn til okkar á fyrstu mánuðunum og fyrsta árið hjá litlu langömmustelpunni sinni. Hún tók strætó nánast á hverjum degi ofan úr Efra-Breiðholti í Vesturbæinn, fékk sér göngutúr á Ægisíðunni og kom svo til að líta eftir okkur nýbökuðum mæðgunum, fá te og spjalla. Sitja hjá litla ungbarninu, kjá við það og halda á því. Þarna var ég ekki aðeins himinlifandi yfir að eignast mitt fyrsta barn, heldur fannst mér ég líka vera að eignast ömmu mína fyrir alvöru. Ömmu sem ég hafði svo oft saknað og óskað eftir að væri meira í lífi mínu. Þarna byggðum við upp okkar góða samband sem entist alla tíð. Lóló amma gerði það sama þegar yngri börnin komu í heiminn; ferðaðist með strætó að nálgast áttræðisaldurinn ofan úr Efra-Breiðholti og sat lengi hjá okkur með litlu ungbörnin og te.

Amma gekk kannski ekki menntaveginn en lífið kenndi henni margar mikilvægar lífsins lexíur. Sumar góðar en margar erfiðari. Hún var náttúrubarn og mikill dýravinur. Hefði hún fengið önnur tækifæri, hefði hún ferðast víða um heim. Henni fannst ótrúlega gaman að ferðast í seinni tíð með dætrum sínum til Bretlands og Skotlands og elskaði líka að fara í bíltúra út fyrir borgina og upp í sveit. Hún sagði mér að hana hefði alltaf dreymt um að ferðast til Parísar. Mikið hefði ég viljað taka á móti henni og sýna henni fallegu borgina. Sýna henni stórbrotnu minnismerkin, byggingarnar og merkilegu söfnin en líka Parísardömurnar sem eru margar svo vel tilhafðar og fagrar á áreynslulausan og yfirlætislausan hátt. Rétt eins og hún sjálf alla tíð, bæði að innan sem utan.

Elsku hjartans, fallega amma mín, hvíldu í friði og takk fyrir allt.

Þín elskandi

Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Elsku Lóló föðursystir mín hefur nú kvatt þessa jarðvist og horfið í hóp ástvina sinna inn í sólarlagið. Ég á margar góðar minningar um þessa fallegu ljúfu konu sem elskaði lífið, börn og dýr.

Hún var 14 ára gömul þegar amma sendi hana upp á Akranes til Binna (stóra bróður Lólóar) og Lellu mágkonu í mánuð, til aðstoðar því þar var von á öðru barni. Á 15 ára afmælisdaginn hennar þann 28. febrúar fæddist ég. Hún fékk mig í afmælisgjöf. Það var alltaf eitthvað sérstakt við það að eiga sama afmælisdag og Lóló, einhver strengur á milli okkar.

Þegar foreldrar mínir fluttu frá Akranesi suður á Vatnsleysuströnd nokkrum árum síðar, þá bjó Lóló frænka þar um stundarsakir á loftinu í foreldrahúsum með drengina sína tvo þá Gunnar og Binna. Í kjallaranum bjó Ellý litla frænka með sínum foreldrum, þetta var nokkurs konar fjölskylduhús hjá ömmu og afa, á meðan foreldrarnir voru að byggja sér heimili og við systkinin á næsta bæ bara fimm mínútur að hlaupa á milli enda var það gert alveg óspart.

Lóló frænka spilaði stóra rullu í minni barnæsku þegar ég var fjögurra, fimm og sex ára, þá var ætíð fyrsta stoppistöð hjá henni á loftinu. Ef maður var búinn að gera smá skammarstrik eins og að vaða í fjörunni og var rennandi blautur, eða hafði verið í heiðinni að vaða í drulluflögum og var þá skítugur upp fyrir haus, þá eyddi Lóló mestu sönnunargögnunum eins og að hella úr stígvélunum, skola mestu drulluna af manni og þurrka svo tárin þegar eitthvað meira bjátaði á. Þá átti hún töfralyf, normalbrauð með mysingi, það læknaði allt.

Svona var Lóló, við krakkarnir vorum aldrei fyrir, hún var kannski úti að snúa heyi, þá áttum við það til að ganga í halarófu öll fjögur á eftir henni og örugglega tafið hana smá en aldrei styggðaryrði eða skammir, alltaf ljúf.

Svo liðu árin og seinna á lífsleiðinni þegar við vorum báðar fluttar til Reykjavíkur þá passaði hún stelpurnar mínar ef ég þurfti á því að halda, þessi elskulega frænka mín hefur því alla tíð verið partur af mínu lífi, mismikið eins og gengur en alltaf nærri.

Hennar líf var ekki alltaf dans á rósum en þannig er lífið bara, það hefur enginn lofað neinu öðru. Lóló eignaðist sjö mannvænleg börn, eitt er nú látið (Gunnar), og svo fjölda barnabarna og langömmubarna sem hún elskaði út af lífinu, tvo menn átti hún líka sem hún elskaði hvorn á sínum tíma.

Á efri árum eignaðist hún svo góðan vin sem var henni afskaplega kær. Þau gerðu margt skemmtilegt saman meðan hann lifði, fóru í leikhús, tónleika og ferðuðust víða um landið.

Ævikvöldið endaði hún á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni þar sem hún bjó í rúm fjögur ár og leið vel.

Megi þessi yndislega sál hún frænka mín hvíla í friði, takk fyrir allt elsku Lóló mín.

Þín frænka,

Margrét (Magga)
á Hellum.

hinsta kveðja

Lonta í lækjar hyli,

lóan úti í mónum,

grasið grænt um svörð,

fiskifluga á þili,

fuglarnir á sjónum,

himinn, haf og jörð.

Öll sú dásemd auga barnsins seiddi,

ótal getum fávís hugur leiddi.

Spurði ég þig, móðir mín,

og mildin þín

allar gátur greiddi.

(Örn Arnarson)

Hinsta kveðja, elsku mamma mín. Takk fyrir allt.

Þín dóttir,

Magdalena.