Við bryggju Tvö fjölmenn skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn í fyrra. Þau voru 163 talsins á þessu ári.
Við bryggju Tvö fjölmenn skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn í fyrra. Þau voru 163 talsins á þessu ári. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Allir brostu út að eyrum á fundinum,“ segir Hilmar Kristjánsson Lyngmo hafnarstjóri en fram kom hjá Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar í vikunni að tekjur hafnarinnar vegna komu skemmtiferðaskipa í sumar hafi verið rúmlega 641 milljón króna

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Allir brostu út að eyrum á fundinum,“ segir Hilmar Kristjánsson Lyngmo hafnarstjóri en fram kom hjá Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar í vikunni að tekjur hafnarinnar vegna komu skemmtiferðaskipa í sumar hafi verið rúmlega 641 milljón króna.

„Tekjurnar eru töluvert umfram áætlun. Ég tók við embættinu í fyrra og var þetta í fyrsta skipti sem ég geri áætlun eins og þessa. Ég virðist hafa verið frekar hógvær í væntingum og gerði ráð fyrir að tekjurnar yrðu svipaðar á milli ára því skipafjöldinn var svipaður á milli ára,“ segir Hilmar en hann hóf störf sem hafnarstjóri Ísafjarðarhafna 1. janúar 2023 og tók þá við af Guðmundi „Mugga“ Kristjánssyni.

„Niðurstaðan varð sú að fleiri stærri skemmtiferðaskip komu til okkar en í fyrra og borga meira fyrir hvert skipti en einnig komust fleiri skip upp að bryggjukantinum. Þetta skýrir muninn,“ segir Hilmar en skipstjórum skemmtiferðaskipanna hefur verið gert auðveldara fyrir að athafna sig í Skutulsfirðinum með dýpkunum og framkvæmdum.

„Við fengum hollenskt fyrirtæki til okkar í vor og það dugði til þess að Norwegian, Prima og fleiri stærri skip komust alveg upp að kantinum. Það skipti sköpum á þessu tekjuári,“ útskýrir Hilmar.

Betri aðstaða á höfninni

Fram kemur í fundargerðinni að fram til 22. ágúst hafi skipakomur verið 163 talsins með samtals 198.813 farþegum. Í þremur tilfellum fóru skipin til Dýrafjarðar en annars til Skutulsfjarðar. Fyrir þá sem ekki þekkja mynda gömlu sveitarfélögin Ísafjörður, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri sameiginlegt sveitarfélag í Ísafjarðarbæ.

Framkvæmdum er ekki lokið hjá höfnum Ísafjarðarbæjar og til stendur að bæta aðstöðu fyrir móttöku skemmtiferðaskipa.

„Framkvæmdir við hafnarkantinn sjálfan ættu að klárast fyrir áramót. Auk þess er búið að steypa nýtt rútubílastæði fyrir þjónustuaðilana. Á næsta ári er stefnt að því að reisa móttökuhús þar sem upplýsingamiðstöðin verður ásamt landamæraeftirlitinu. Auk þess verður þar aðstaða fyrir gesti sem eru að bíða eftir því að rútur sæki þá til að fara í skoðunarferðir. Þetta mun bæta aðstöðuna hjá okkur töluvert þótt móttökuhúsið verði miklu minna í sniðum en í Reykjavík,“ segir Hilmar.

Hafnarstjórinn segir næsta verkefni vera að fara í gerð göngustíga í þeim tilgangi að beina gestum frá atvinnusvæðunum sem eru þar í kring. Gönguleiðirnar og vinnusvæðin verði betur aðskilin.

Höf.: Kristján Jónsson