Ísland er einfaldlega í efsta sæti 4. riðils B-deildar eftir sigurinn í gærkvöld. Loksins vann liðið leik í Þjóðadeildinni, í 15. tilraun, en er jafnframt ósigrað í fimm leikjum í keppninni eftir að það féll úr A-deildinni með einn sigur og fjögur jafntefli í B-deildinni

Ísland er einfaldlega í efsta sæti 4. riðils B-deildar eftir sigurinn í gærkvöld. Loksins vann liðið leik í Þjóðadeildinni, í 15. tilraun, en er jafnframt ósigrað í fimm leikjum í keppninni eftir að það féll úr A-deildinni með einn sigur og fjögur jafntefli í B-deildinni.

Sigur í þessum leik skipti öllu máli fyrir framhaldið og sigrar á heimavelli eru lykillinn að því að ná langt í keppninni.

Hinn leikurinn í fyrstu umferð riðilsins fór fram í Cardiff í gærkvöld þar sem Walesbúar og Tyrkir gerðu markalaust jafntefli.

Íslenska liðið fer í dag til Tyrklands þar sem það mætir Tyrkjum í Izmir en á sama tíma mætast Svartfjallaland og Wales í Podgorica. Eftir þessar tvær umferðir verður komin skýrari mynd á hvert stefnir í riðlinum.

Hinir tveir heimaleikir Íslands fara báðir fram á Laugardalsvellinum um miðjan október en þá er leikið gegn Wales og Tyrklandi.

Íslenska liðið lýkur riðlakeppninni dagana 16. og 19. nóvember með útileikjum gegn Svartfjallalandi og Wales og þá kemst á hreint hvaða lið vinnur riðilinn og fer upp í A-deildina, og hvaða lið verður neðst og fellur í C-deildina.

Hafni liðið í öðru eða þriðja sæti riðilsins mun það spila tvo umspilsleiki í mars. Ef það endar í öðru sæti leikur það um sæti í A-deildinni en ef það endar í þriðja sæti leikur það umspilsleiki um að halda sæti sínu í B-deildinni.