Inn í þessa stóru mynd tengist Ísland vegna aðildar að innri markaðnum og EES. Í skýrslunni segir að laga verði innri markaðinn að breytingum á heimsmyndinni.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og núverandi forstjóri Jacques Delors-stofnunarinnar, kynnti á fundi í Safnahúsinu þriðjudaginn 3. september skýrslu sem hann skilaði yfirstjórn Evrópusambandsins (ESB) í apríl 2024 um framtíð innri markaðarins í Evrópu, markaðar sem við Íslendingar njótum með aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Í opinberri kynningu á skýrslunni segir að innri markaðurinn hafi orðið til á tíma þegar bæði ESB og heimurinn hafi verið „minni“, einfaldari og ósamstæðari. Þá hafi margir sem nú gegni lykilhlutverki á heimsvettvangi ekki verið sýnilegir á honum.

Frakkinn Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar ESB í þrjú tímabil frá 1985 til 1994, kynnti innri markað Evrópu árið 1985. Þá voru ríkin í Evrópubandalaginu (EB) aðeins 10 (27 núna) og stjórnkerfið sem lagði grunn að Evrópusambandinu (ESB) ekki komið til sögunnar. Þýskaland var klofið í tvö ríki og Berlínarmúrinn stóð enn. Sovétríkin ógnuðu Evrópu með meðaldrægum kjarnavopnum. Kínverjar og Indverjar mynduðu samanlagt minna en 5% af heimsbúskapnum og enginn hafði heyrt minnst á BRICS, það er nýmarkaðsríkin, svo ekki sé minnst á skiptingu heimsins milli norðurs og suðurs sem endurspeglar auðlegð þjóða og drottnunarsögu.

Þetta var á þeim tíma þegar Evrópa stóð jafnfætis Bandaríkjunum sem virkur þátttakandi í heimsviðskiptunum.

Grunnþáttur í tillögum Delors var að styrkja jöfnuð milli þjóða samhliða því sem innri markaðnum var ýtt í vör. Enn þann dag í dag er það liður í aðild EFTA/EES-ríkjanna þriggja, Íslands, Liechtensteins og Noregs, að innri markaðnum að þau leggi fé af mörkum í uppbyggingarsjóð til stuðnings ESB-ríkjum. Innan ESB gegna slíkir styrkir lykilhlutverki eins og til dæmis má sjá á mannvirkjagerð í nýjum aðildarlöndum.

Enrico Letta rakti þessa forsögu í ræðu sinni í Safnahúsinu. Hann sagði að ýmis ríki hefðu ekki viljað sleppa hendinni af einstökum greinum atvinnulífsins. Nefndi hann þrjú svið: fjármál, orkumál og fjarskiptamál þar sem skorti sameinað evrópskt afl. Dreifð evrópsk fyrirtæki mættu sín næsta lítils gegn risum í Bandaríkjunum og Kína.

Þarna birtist skortur á samkeppnishæfni ESB. Yrði ekki gripið til gagnaðgerða staðnaði sambandið ásamt aðildarríkjunum. Í þessu efni er meðal annars litið til meiri samruna evrópskra fyrirtækja innan ramma nýrra samkeppnisreglna. Þá vill Letta að fimmta frelsið bætist við fjórfrelsið á innri markaðnum, það snúi að rannsóknum, nýsköpun og gögnum (e. data).

Í umræðum um stöðu ESB og Evrópu á alþjóðavettvangi er ekki lengur aðeins litið til Bandaríkjanna. Nú er Kína annað stærsta efnahagsveldi heims og Indverjar, fjölmennasta þjóð veraldar, sækja mjög í sig veðrið.

Í skýrslu Letta er Kína skilgreint sem keppinautur um völd og áhrif en Indland sem land tækifæra þar sem stigið skuli gætilega til jarðar. Lögð er áhersla á að í samskiptum við stjórnvöld þessara landa megi ESB ekki hverfa frá virðingu fyrir megingildum sínum: lýðræði, sjálfbærni og félagslegum jöfnuði. Samhliða skuli samkeppnishæfni sambandsins aukin með nýsköpun og samstarfi við samstiga ríki í afstöðu til grunngilda. Þótt viðhorf Indverja til þessara gilda sé annað en hjá ESB-þjóðum kunni báðum að þykja tvíhliða samstarf æskilegt til að skapa mótvægi við Kínverja.

Inn í þessa stóru mynd tengist Ísland vegna aðildar að innri markaðnum og EES. Í skýrslunni segir að laga verði innri markaðinn að breytingum á heimsmyndinni frekar en að nota regluverk innri markaðarins sem mælistiku á hnattrænar breytingar. Stórtækar breytingar á alþjóðavettvangi á undanförnum árum minni á nauðsyn þess að huga að þýðingu innri markaðarins út á við og tryggja að hann haldi gildi sínu í síbreytilegum heimi.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti áherslur sínar til næstu fimm ára þegar hún sóttist eftir endurkjöri á ESB-þinginu í júlí 2024. Hún var kjörin og vinnur nú að því að raða fólki í nýja framkvæmdastjórn. Í ræðunni sagði hún að fyrsta forgangsverkefni sitt væri að tryggja hagsæld og samkeppnishæfni. Hún sagði að til þess þyrfti að dýpka innri markaðinn á öllum sviðum. Minnka yrði skýrslufargan, skriffinnsku og efla traust, betri framkvæmd og hraðari leyfisveitingar. Hún ætlaði að tryggja að ábyrgðarkeðjan væri skýr, árangur næðist aldrei nema unnt væri að mæla hann. Sérstaklega yrði að bæta starfsumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og létta af þeim oki regluverksins. Án lítilla og meðalstórra fyrirtækja væri engin Evrópa. Þau væru hjarta evrópsks efnahagslífs. Það yrði að hætta að vera með puttana í rekstri þeirra, skapa þeim meira traust og meiri hvatningu.

Þessi orð eiga erindi í kosningaræðu hér á landi því hér beinist gagnrýni á EES að íþyngjandi regluverki á lítil og meðalstór fyrirtæki, regluverki sem sé jafnvel meira íþyngjandi en aðild okkar að innri markaðnum krefst.

Enrico Letta vék að þessari þungu áherslu von der Leyen á innri markaðinn í ræðu sinni í Safnahúsinu og sagði hana til marks um að skýrsla sín fengi brautargengi við úrlausn mála í framkvæmdastjórn ESB á næstu fimm árum.

Ekkert í skýrslunni er í raun fjarlægt viðfangsefni fyrir okkur hér, fjarri meginstraumum á meginlandi álfunnar. Þar er efniviður fyrir framtíðartengsl við ESB. Vegna aðildar að innri markaðnum ber okkur að skoða þessa strauma og virkja þá okkur til hagsbóta eða varast hættur vegna þeirra.