Bjarni Benediktsson hefur átt sínar sigurstundir í stjórnmálum. Nú er flokkur hans í miklum vandræðum því kjósendur láta ekki lengur heillast.
Bjarni Benediktsson hefur átt sínar sigurstundir í stjórnmálum. Nú er flokkur hans í miklum vandræðum því kjósendur láta ekki lengur heillast. — Morgunblaðið/Eggert
Samstarf Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna er eitruð blanda, sem fer ekki bara illa ofan í flokkana heldur er þjóðinni orðið ómótt.

Sjónarhorn

Kolbrún Berþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Þjóðinni er fyrir löngu orðið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er afar vansæll í ríkisstjórnarsamstarfi sem enginn neyddi flokkinn til að taka þátt í. Þjóðin fær yfir sig nær daglega holskeflu frétta af vanlíðan sjálfstæðismanna sem kvarta sáran undan því að í ríkisstjórnarsamstarfinu komi vinstri grænir fram við þá eins og þeir séu gólftuskur. Þeir tönglast síðan stöðugt á því að stefna flokksins hafi týnst í samstarfinu og nauðsynlegt sé að finna hana. Þjóðin virðist ekki hafa nokkurn áhuga á að taka þátt í þeirri leit með þeim.

Þetta ámátlega fórnarlambsvæl er orðið ansi þreytandi. Ef sjálfstæðismenn geta ekki lifað með þeirri staðreynd að þeir eru í ríkisstjórnarsamstarfi þar sem þeir hafa völd þá eiga þeir þann kost að slíta samstarfinu og verða valdalausir. Annar kostur er að láta sig dreyma um að vinstri grænir muni taka sönsum og gefi öll stefnumál sín eftir til að fá að lafa í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það er nær útilokað að sú verði raunin. Hinn vinstrisinnaði flokkur Vinstri grænir er um það bil að lognast út af. Eina von flokksins um áframhaldandi líf er að ybba gogg við Sjálfstæðisflokkinn og jafnvel slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.

Fyrir Sjálfstæðisflokk og Vinstri græna er áframhaldandi samvinna ávísun á gríðarlegt fylgistap. Samt er haldið áfram. Formenn flokkanna viðurkenna opinberlega, með nokkrum semingi þó, að vandi sé á ferð en kjósa að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram. Þeir vita að ríkisstjórnin er óstarfhæf og rúin öllu trausti en gera sér einnig grein fyrir því að fram undan er eyðimerkurganga beggja flokka. Annar flokkurinn verður hugsanlega ekki til eftir kosningar. Hinn verður illilega laskaður, og það svo mjög að engu máli skiptir hver verður þar formaður.

Flestir hafa upplifað það að reyna að neita að taka á vandamálum í þeirri von að vandinn hverfi. Afleiðingin er venjulega sú að vandinn vindur ofan á sig og enn erfiðara verður en áður að taka á honum. Formenn beggja flokka eru á flótta undan þeirri staðreynd að samstarf Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna er eitruð blanda, sem fer ekki bara illa ofan í flokkana heldur er þjóðinni orðið ómótt.

Staðan er svo skelfileg að það er erfitt að horfast í augu við hana. Þá er freistandi fyrir formennina að leita huggunar í möguleikanum á að ekki sé fyllilega að marka skoðanakannanir og jafnvel þótt þær kunni að gefa nokkuð rétta mynd þá sé smá von til að þjóðinni snúist hugur og sjái að Kristrún Frostadóttir sé ekki rétta svarið.

Ef ríkisstjórn landsins er svo illa löskuð að hún er ekki lengur starfhæf vegna innbyrðis ágreinings þá er hún að svíkja þjóðina með því að sitja áfram. Það er skiljanlegt að ráðherrum þyki ofurvænt um titilinn, forréttindin og launin sín, en ef það er eina ástæða þess að þeir hanga áfram í vinnu sinni þá eru þeir einungis að dekra við eigin hégóma. Sem þýðir að þeir eru ansi slæmir stjórnmálamenn.

Sjálfstæðismenn hafa nú í mjög langan tíma grátið hástöfum opinberlega vegna slæmrar stöðu flokks síns. Það er orðið pínlegt að þurfa stöðugt að hlusta á kvartanir þeirra um að allir séu vondir við þá og annar samstarfsflokkanna komi fram við þá eins og gólftuskur. Ekki færir þetta væl Sjálfstæðisflokknum meira fylgi því verið er að gefa þjóðinni þá mynd að innan Sjálfstæðisflokksins séu menn í svo miklu tifinningalegu uppnámi að þeir geti ekki lengur hugsað skýrt.

Í tilfinningaupphlaupi fæðast oft heimskulegar hugmyndir sem settar eru fram sem lausn, eins og sú að bjóða fram í næstu kosningum viðbótarlista tengdum Sjálfstæðisflokknum, svokallaðan DD-lista. Hvernig í ósköpunum á formaður Sjálfstæðisflokksins að útskýra það fyrir kjósendum þessa lands að Sjálfstæðisflokkurinn bjóði í kosningum upp á tvær útgáfur af sjálfum sér?

Vonandi finnur Sjálfstæðisflokkurinn sjálfan sig. En varla verður það fljótlega, vitleysisgangurinn er svo mikill.