Tónskáld Gunnar Þórðarson hefur samið um 800 lög gegnum tíðina.
Tónskáld Gunnar Þórðarson hefur samið um 800 lög gegnum tíðina. — Morgunblaðið/Golli
„Við ákváðum að endurtaka tónleikana vegna fjölda áskorana,“ segir Hulda Jónasar, tónleikahaldari hjá Gná tónleikum, sem stendur fyrir tónleikunum Himinn og jörð í Salnum í Kópavogi laugardaginn 14

„Við ákváðum að endurtaka tónleikana vegna fjölda áskorana,“ segir Hulda Jónasar, tónleikahaldari hjá Gná tónleikum, sem stendur fyrir tónleikunum Himinn og jörð í Salnum í Kópavogi laugardaginn 14. september næstkomandi kl. 20:30.

Þar verða fluttar nokkrar af helstu dægurlagaperlum Gunnars Þórðarsonar.

„Gunnar heiðraði okkur með nærveru sinni á fyrri tónleikunum og var mjög sáttur við útkomuna, það er aldrei að vita nema að hann láti sjá sig aftur,“ segir Hulda, en fyrri tónleikarnir voru í mars sl. í Salnum, fyrir fullu húsi. Hún segir fáa miða eftir, en þeir eru seldir á tix.is.

Hafði það engin áhrif að skömmu síðar voru aðrir fjölsóttir tónleikar í Eldborg í Hörpu, þar sem lög Gunnars voru flutt. Er þetta vel til marks um hve vinsæl lögin hans eru meðal þjóðarinnar, enda af miklu úrvali að taka þar sem Gunnar hefur samið alls um 800 lög.

Meðal þeirra laga sem munu óma í Salnum eru Fyrsti kossinn, Bláu augun þín, Gull og Vetrarsól.

Flytjendur á lögum Gunnars eru Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, Hreindís Ylva Garðarsdóttir Hólm, Dagur Sigurðsson, Sigurjón Örn Böðvarsson, Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir, Daníel Arnarsson, Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Ingibjörg Fríða Helgadóttir.

Hljómsveitarstjóri er Magnús Þór Sveinsson og útsetningar laga eru í höndum Stefáns Arnar Gunnlaugssonar. Hrafnhildur Ýr útsetur raddirnar og sögumaður á milli laga er Valgerður Erlingsdóttir.