[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Graphogame-lestrarleikurinn hentar vel til að kenna og þjálfa byrjendur í lestrarnámi og þá sérstaklega fyrir nemendur sem eiga í lestrarvanda.

Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir, Ulla Richardson og Tryggvi Hjaltason

Hávær umræða hefur verið undanfarið um stöðuna í íslensku skólakerfi. Alþjóðlegar mælingar sýna versnandi árangur íslenskra nemenda og þá sérstaklega á sviði tungumáls þar sem t.a.m. helmingur drengja og þriðjungur stúlkna getur ekki lesið sér til gagns skv. nýjustu PISA-mælingum. Sérfræðingar hafa bent á að tungumálið er grunnurinn að árangri í allri skólagöngu og í nýútkominni skýrslu um stöðu drengja í menntakerfinu kemur fram að líklega er ein af grunnorsökunum fyrir slæmri stöðu fjölda drengja í menntakerfinu sú að þá vantar betri grunn í málþroska og tungumálagetu sinni. Á sama tíma hafa íslenskar rannsóknir bent á að mikil fylgni er á milli málþroska og -getu barna við byrjun skólagöngu og námsárangurs við lok grunnskólagöngu.

Fáar þjóðir hafa náð meiri árangri undanfarna áratugi við að leggja grunn að kröftugum tungumálastuðningi og læsisþjálfun snemma til að undirbyggja farsæla skólagöngu barna sinna en Finnar. Eitt af verkfærunum sem Finnar hafa þróað og eru aðgengileg öllum finnskum skólabörnum er lestrarkennslutölvuleikurinn Graphogame. Leikurinn byggist á rannsóknum sem voru gerðar í Háskólanum í Jyväskylä í Finnlandi í þeim tilgangi að greina þætti sem hafa forspárgildi um dyslexíu. Gerðar hafa verið yfir hundrað rannsóknir víða um heim til að skoða áhrif og árangur af notkun leiksins sem er nú í spilun hjá milljónum barna í ellefu löndum. Cambridge-háskólinn segir t.a.m. á heimasíðu sinni að virkni Graphogame jafngildi einkakennslu í lestrarþjálfun. Það er því mikið gleðiefni að Graphogame er nú aðgengilegur öllum börnum á Íslandi sem vilja þjálfa sig í fyrstu skrefum læsis á íslensku.

Fyrir tilstuðlan Birgis Arnar Birgissonar, þáverandi stjórnarformanns Billboard ehf., og Vésteins Gauta Haukssonar framkvæmdastjóra félagsins hófst vinna við staðfæringu Graphogame á íslensku í byrjun árs 2023. Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir sá um staðfæringuna með faglegum stuðningi frá Félagi læsisfræðinga á Íslandi og sérfræðingum við Háskólann í Jyväskylä. Leikararnir Ilmur Kristjánsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson léðu forritinu raddir sínar.

Í íslensku staðfæringunni er lögð áhersla á íslensku málhljóðin, aðgreiningu útlitslíkra og/eða hljóðlíkra bókstafa, samhljóðasambönd og einfaldar stafsetningarreglur. Verkefnin byggjast á að efla þekkingu á tengslum hljóða og bókstafa, þjálfun hljóðkerfisvitundar, æfingum í að tengja hljóð saman í orð, sporun bókstafanna og ritun orða. Graphogame lestrarleikur aðlagar sig getustigi hvers barns svo það geti farið áfram á sínum hraða.

Eftir að tilskilinna leyfa hafði verið aflað frá foreldrum í lok mars á þessu ári hófst rannsókn á áhrifum Graphogame í íslenskri staðfæringu. Rannsóknin stóð yfir frá 9. apríl til 28. maí og voru þátttakendur 375 nemendur í 1. bekk í grunnskólum Kópavogsbæjar. Þátttakendum var skipt upp í tvo hópa, annars vegar hóp sem fékk íhlutunina að spila leikinn og er hér nefndur GG hópurinn, og hins vegar samanburðarhóp sem fékk ekki íhlutun, sá hópur kallast hér SB hópur. Báðir hóparnir fóru í gegnum sömu próf í upphafi og við lok rannsóknar. Prófin voru lögð fyrir í gegnum prófaútgáfu Graphogame sem er eins uppbyggð og leikurinn sjálfur. Prófþættirnir voru fjórir: tengsl hljóða og bókstafa, lestur orða, hljóðvitund og ritun orða.

Greining á rannsóknargögnum sýnir að þátttakendur í GG hópnum spiluðu leikinn á sjö vikna tímabili að meðaltali 2 klukkutíma og 49 mínútur samtals á hvern þátttakanda. Það sem aðgreinir hópana tvo er því sú þjálfun. GG hópur fékk þó ekki viðbótartíma til þjálfunar, heldur rúmaðist þjálfunin inni í hefðbundinni íslenskukennslu. Á meðfylgjandi myndritum má sjá niðurstöður úr öllum fjórum prófþáttunum, það er þekkingu á tengslum bókstafa og hljóða, lestri orða, hljóðvitund og ritun orða.

Þekking á tengslum bókstafa og hljóða

Í fyrsta prófþættinum heyrðu þátttakendur hljóð og áttu að finna viðeigandi bókstaf á skjánum og var hægt að velja á milli fimm bókstafa. Niðurstöður eru tölfræðilega marktækar og sýna að það er þó nokkur munur á frammistöðu og framförum á íhlutunartímabilinu á milli hópanna tveggja, sjá mynd. Að meðaltali bætti GG hópurinn þekkingu sína um tæplega sex hljóð á tímabilinu á meðan SB hópurinn bætti þekkingu sína um rúmlega tvö hljóð á þessu sama tímabili, eða 143% meiri bæting hjá GG hópi.

Lestur orða

Í prófinu sem kannaði lestur orða heyrðu þátttakendur orð lesið og áttu að velja rétt orð á skjánum og var í öllum tilfellum hægt að velja á milli fjögurra orða. Í þessum prófhluta var mikil breidd í frammistöðu þátttakenda en á fyrra prófinu skoruðu þeir allt frá tveimur rétt lesnum orðum og upp í 17. Heildarfjöldi orða á prófinu var 20 orð og því var ekki mikið rými fyrir þá sem skoruðu hæst til að bæta sig. Við greiningu gagna var því ákveðið að skoða sérstaklega niðurstöður þátttakenda sem skoruðu undir níu rétt lesnum orðum á fyrra prófinu. Í samanburðarhópi voru 46 þátttakendur sem skoruðu undir þessu viðmiði og 45 í hópnum sem fékk íhlutun. Rannsóknargögn frá þessum hópum sýna að það var lítill sem enginn munur á frammistöðu þeirra í fyrra prófinu en í seinna prófinu var töluverður munur á hópunum. Þá náðu þátttakendur sem fengu íhlutun að bæta sig um að meðaltali 6,4 orð á meðan þátttakendur í samanburðarhópnum bættu sig um að meðaltali 3,9 orð, eða 64% meiri bæting hjá GG hópi.

Hljóðvitund

Þriðji þátturinn sem var prófaður var hljóðvitund. Þátttakendur áttu að hlusta eftir fremsta hljóði í orði og finna viðeigandi bókstaf fyrir tiltekið hljóð. Gögnin gefa vísbendingar um að prófið hafi verið frekar auðvelt fyrir flesta þátttakendur. Þegar niðurstöður þeirra þátttakenda sem skoruðu lágt á fyrra prófinu voru skoðaðar sérstaklega kom í ljós að þeir sem fengu íhlutun náðu örlítið betri árangri en þátttakendur í samanburðarhópnum, munurinn telst þó ekki tölfræðilega marktækur.

Ritun orða

Próf í ritun orða fólst í því að hlusta á orð og rita orðið með þeim bókstöfum sem birtust í kjölfarið á skjánum. Þegar rýnt er í niðurstöður út frá þátttakendum sem stóðu slakir í upphafi og skrifuðu færri en níu orð rétt á fyrra prófinu má sjá að þeir sem fengu íhlutun skoruðu umtalsvert hærra á seinna prófinu heldur en þátttakendur í samanburðarhópnum. Þátttakendur í íhlutunarhópnum bættu sig að meðaltali um 3,4 orð á tímabilinu á meðan þátttakendur í samanburðarhópi bættu sig um 2,1 orð, eða 62% meiri bæting hjá GG hópi. Munurinn var tölfræðilega marktækur.

Betri árangur í öllum matsþáttum

Samantekið sýna niðurstöður rannsóknarinnar að þátttakendur sem fengu íhlutun og spiluðu þar með Graphogame-lestrarleikinn í sjö vikur, náðu betri árangri á öllum þáttum við lok rannsóknar heldur en þátttakendur í samanburðarhópnum. Árangurinn var mestur í þáttum sem kanna þekkingu á tengslum bókstafa og hljóða og í ritun orða. Þátttakendur sem spiluðu leikinn náðu að spila um það bil þriðjung leiksins að meðaltali. Með lengri rannsókn hefðu þeir komist yfir meira efni og má leiða að því líkum að meiri árangur hefði náðst með lengra íhlutunartímabili. Niðurstöður gefa til kynna að þeir þátttakendur sem stóðu slakastir í upphafi uppskáru mest, það er þeir náðu mestum framförum á milli prófa.

Graphogame lestrarleikur hentar vel til að kenna og þjálfa byrjendur í lestrarnámi og þá sérstaklega fyrir nemendur sem sýna vísbendingar um að eiga í lestrarvanda. Þetta sýna niðurstöður rannsóknarinnar á Íslandi og eru þær í samræmi við niðurstöður í ellefu öðrum löndum. Leikurinn er líka hentugur til að nota með eldri nemendum sem eiga í lestrarvanda og þá einkum þegar vandinn snýr að hljóðrænni úrvinnslu. Íslenska staðfæringin hentar líka vel fyrir nemendur af erlendum uppruna sem eru að læra íslensku hljóðin og að taka fyrstu skrefin í lestrarþjálfun á íslensku.

Graphogame lestrarleikur er nú aðgengilegur almenningi á Íslandi. Hægt er að sækja leikinn í smáforritaverslunum eins og AppStore og PlayStore. Búið er að tryggja gjaldfrjálst aðgengi að íslensku útgáfu leiksins til næstu fimm ára. Það er von aðstandenda verkefnisins að hér sé komið öflugt viðbótarverkfæri í lestrarkennslu barna, jafnt í skólastofunni eða heima.

Ef rannsóknin í Kópavogi, sem um 8% allra barna á Íslandi í fyrsta bekk tóku þátt í, hefur forspárgildi fyrir landið í heild sinni þá eru um 640 börn í fyrsta bekk hverju sinni sem koma til með að geta stórbætt árangur sinn og lestrarfærni með þjálfun í leiknum. Þá hafa rannsóknir á leiknum bæði á Íslandi og í öðrum löndum sýnt að drengir sérstaklega vilja þjálfa sig lengur en mælt er með, sem er 15 mínútur á dag. Það er óvenjuleg en velkomin áskorun þegar kemur að ástundun ungra drengja í námi.

Sigurlaug er læsisfræðingur og starfandi kennsluráðgjafi hjá Kópavogsbæ, Ulla er prófessor við Háskólann í Jyväskylä í Finnlandi og Tryggvi er verkefnastjóri Graphogame-innleiðingar á Íslandi.