Ívar Pálsson
Ívar Pálsson
Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist trausti fyrri kjósenda sinna og ætti að hætta við öll sín plön sem tengjast kolefnislosun.

Ívar Pálsson

Flest okkar sækjast eftir ljúfu lífi í öryggi með fjölskyldu og vinum hérna uppi á klakanum. Því ættum við að kjósa okkur fulltrúa á þingi og í borg eða bæ, sem sjá til þess að leiðin að þessum sameiginlegu markmiðum sé greið. En nú er öllu á botninn hvolft: Fulltrúarnir aðhyllast hugmyndafræði eða trú, þar sem mikilvægast sé að Íslendingar hiti ekki upp heiminn. Skattleggja skal hverja einustu athafnasemi manna og reyna að drekkja þeim í ótrúlegu stofnanatorfi frá skriffinnskumeisturum Evrópu. Jafnvel mætustu þingmenn eru nú gegnsýrðir af þessum fræðum og hafa hreinlega gleymt því af hverju þeir sóttust eftir þessu þjónustustarfi við þegnana.

Tilgangsleysi

Það væri sök sér ef markmiðið væri ákveðið, mælanlegt og sanngjarnt, en ekkert af því á við. Íslendingar munu aldrei breyta hitastigi heimsins, það verður aldrei hægt að mæla árangurinn og það er alls ekki sanngjarnt að við eigum að blæða fyrir þann frábæra árangur sem við höfum náð í nýtingu endurnýjanlegrar orku, langt umfram stærstu þjóðir í heimi. Svo horfir maður út um gluggann og sér jörðina spýta út úr sér allt að 2000 tonnum af hrauni á hverri sekúndu (70 stk. af stórum gámum!) í níunda eldgosi þar á þremur árum, sem verða víst öllu fleiri. Rétt hjá hefur litlu magni af koltvísýringi verið dælt niður fyrir milljarða króna. Brátt verður bætt um betur og flutt inn svissnesk verksmiðjulosun og dælt niður í hraunið við Hafnarfjörð fyrir fjölda milljarða króna og athugað hvernig grunnvatnið verður við það. Aldrei er eldgosalosunin rædd af viti, því að hún er ekki inni í prógrömmum reiknimeistaranna og hafði beðið í 800 ár eftir því að hefja nýja seríu.

Doðrantur álaga

Sjálfstæðisflokknum finnst þessi kolefnislosunarfræði svo sniðug, að hann leggur fram ótrúlega 240 síðna skýrslu um það hvernig leggja megi þessar kolefnisálögur á hvern einasta mann. Þingið stökk til og samþykkti ofurreikning borgarlínu, svo að Strætó á sterum geti stíflað flæði allra rafmagnsbílanna sem fólk hélt að hefðu pláss á götunum og stæði í Reykjavíkurborg. Yfir 80% ferðalanga í borginni sitja nú löngum stundum föst í umferðinni í lengri tíma, sem þýðir aukavinna og stress vegna þessara vafasömu fræða og þeirrar áralöngu en misheppnuðu tilraunar að færa 4% ferðanna upp í 8% eða jafnvel 12%, sem aldrei gerist. Þau fáu prósent munu kosta hundruð milljarða króna sem ekki eru til og gera þau sitt til þess að viðhalda ofurháum vaxtakostnaði á Íslandi um ókomna tíð.

Traustið hvarf

Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist trausti fyrri kjósenda sinna og ætti að hætta við öll sín plön sem tengjast kolefnislosun og varðandi almenningssamgöngur og láta Samfylkingu grafa sína eigin gröf í því, en einbeita sér frekar að grunnstoðunum sem standa afar veikar. Því miður er það tæpast að fara að gerast. Nú eru góð ráð dýr.

Höfundur er viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki.

Höf.: Ívar Pálsson