Þorvaldur Halldórsson fæddist á Siglufirði 29. október 1944. Hann lést á Spáni 5. ágúst 2024.

Foreldrar hans voru Ása Jónasdóttir, f. 21.1. 1916, d. 11.2. 1998, og Halldór Jón Þorleifsson, f. 12.3. 1908, d. 24.8. 1980.

Systkini Þorvaldar: Sigríður, f. 1945, Valgerður, f. 1947, Leifur, f. 1948, Jónas, f. 1950, Þorleifur, f. 1953, Pétur, f. 1956. Hálfbróðir Gestur, f. 1937, d. 2018.

Eiginkona Þorvaldar er Margret Scheving Pálsdóttir, f. 27. september 1944, foreldrar hennar voru Páll Scheving og Jónheiður Steingrímsdóttir Scheving frá Hjalla í Vestmannaeyjum.

Sonur Þorvaldar og Margretar er Þorvaldur Kristinn, f. 21.4. 1979, maki Isabella Thorvaldsson.

Börn Þorvaldar og Gunnhildar Hjörleifsdóttur: 1) Stúlkubarn, lést við fæðingu 4.7. 1962. 2) Leifur, f. 28.10. 1963, d. 6.1. 2016, maki Sigríður Elín Leifsdóttir. 3) Halldór Baldur, f. 21.5. 1967, d. 25.6. 1987, var í sambandi með Ragnheiði Óladóttur. 4) Ása Lára, f. 18.12. 1973, maki Kristján B. Árnason.

Börn Margretar og Ingvars Viktorssonar: 1) Páll Scheving, f. 24.1. 1963, maki Hafdís Kristjánsdóttir. 2) Viktor Scheving, f. 20.12. 1964, maki Eydna Fossádal. 3) Heiðrún Scheving, f. 30.12. 1966, maki Erling Ragnar Erlingsson.

Barnabörn og barnabarnabörn eru 34.

Þorvaldur lærði rafvirkjun og húsasmíði en fyrst og síðast var hann tónlistarmaður. Ungur lærði hann bæði á gítar og klarinett, fyrsta hljómsveitin var skólahljómsveit, síðan tók við siglfirska hljómsveitin Fjórir fjörugir. Á menntaskólaárunum á Akureyri söng hann með Busabandinu, svo með H.H. kvintett og síðan með Hljómsveit Ingimars Eydals, þar sló hann í gegn með laginu Á sjó.

Þorvaldur flutti til Reykjavíkur 1972 og starfaði þá m.a. með Pónik og Hljómsveit Ólafs Gauks. Þorvaldur fluttist til Vestmannaeyja 1974 og varð virkur í tónlistarlífinu.

Árið 1977 urðu breytingar í lífi Þorvaldar þegar hann frelsast, áherslur í tónlistinni breyttust og urðu meira trúarlegs eðlis. Á þessum árum voru þau Margret virk í trúarstarfi í Vestmannaeyjum. Þau fluttu á höfuðborgarsvæðið árið 1981. Þorvaldur nam þá guðfræði í HÍ og var virkur í samtökunum Ungt fólk með hlutverk. Þar varð til tónlistarhópurinn Án skilyrða sem ferðaðist um landið á níunda áratugnum og hélt tónleika og samverur í kirkjum. Þorvaldur var iðinn við að semja og gefa út trúarlega tónlist. Frá tíunda áratug síðustu aldar starfaði Þorvaldur eingöngu sem söngvari og tónlistarmaður, aðallega innan þjóðkirkjunnar. Hann kom einnig fram á tónleikum og skemmtunum þar sem flutt var tónlist sjöunda og áttunda áratugarins. Ávallt fylgdi honum hið sívinsæla lag Á sjó. Þorvaldur kom síðast fram opinberlega sem söngvari á árshátíð Íslendingafélagsins í Torrevieja á Spáni í apríl sl. en þar höfðu þau hjónin búið frá árinu 2019.

Útför Þorvaldar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 7. september 2024, klukkan 14.

Það var sumarið '73 að þú komst inn í fjölskylduna. Við mamma, Palli, Viktor og afi bjuggum á Skúlaskeiði við Hellisgerði í Hafnarfirði. Gosið var í rénun, strákarnir í Noregi í boði Rauða krossins. Ég var sex ára, árinu of ung til að vera boðið með.

Strákunum fannst skrítið að það væri kominn kærasti inn á heimilið þegar þeir komu heim, mér fannst það spennandi og við urðum strax góðir vinir.

Við fluttumst í Eyjahús á Heiðvanginum '73-'74 og þar man ég eftir félögum þínum í Pónik og laginu Bíllinn minn og ég, sem ég söng hástöfum: Dagga dagga dagga … ó elsku bíllinn minn blái! Eftir að við fluttumst til Eyja '74 keyptuð þið mamma bláan Ford Maverick með hvítum röndum, það fannst mér kúl.

Eins og annað Eyjafólk þurftum við að byggja heimili að nýju eftir gos, þú varst liðtækur og saumaðir m.a. nýjar gardínur og eins saumaðir þú rúmföt handa mér fyrir ein jólin. Ég þekkti ekki annan karlmann sem kunni á saumavél. Þegar ég eltist gerði ég mér grein fyrir því hvað þú varst jafnréttissinnaður, þú sinntir ýmsu innan heimilisins sem á þeim tíma flokkaðist enn sem kvenmannsverk, m.a. skiptust þið mamma á að elda og dísæta kartöflumúsin þín var langbest.

Það var alltaf tónlist og söngur á Hjalla, píanóið hennar ömmu stóð á sínum stað og allir spiluðu einhvern tíma á það. Tónlistin jókst þó til muna með þér. Þið mamma voruð í Samkór Vestmannaeyja, ég fékk að fara með á kóræfingar, lögin síuðust inn og þegar hljómplatan Heima var gefin út þá kunni ég lögin bæði aftur á bak og áfram.

Þú áttir hvít stór heyrnartól með snúru sem ég fékk ung að nota að vild, með þau sat ég upp við plötuspilarann því snúran var ekki löng, las textann af plötualbúmunum og söng með. Plötusafnið var fjölbreytt. Ég elskaði Spilverk þjóðanna, Halla og Ladda, 14 fóstbræður og Samkór Vestmannaeyja, svo dæmi séu tekin. Aldrei man ég eftir því að mér væri bannað að vasast í plötunum ykkar mömmu en mér var kennt að umgangast þær og nálina á fóninum.

Við gátum spjallað um ýmsa hluti og það varst þú sem ræddir um kynfræðslu við okkur Helgu vinkonu við eldhúsborðið í Bólstaðarhlíðinni. Var það vandræðalegt fyrir okkur vinkonurnar? Já! En þú lést þig hafa það af umhyggju fyrir þessum áhyggjulausu stuðpinnum sem fyrir framan þig sátu.

Ég er svo þakklát fyrir að þú skyldir hringja í mig og biðja um aðstoð mína meðan þú ættir í veikindunum. Á þessum tíma átti ég ekki von á að svo stutt væri í kveðjustund.

Tíminn sem við áttum saman á Spáni í sumar er mér dýrmætur. Mér gafst tækifæri til að annast þig og sýna þér elsku og umhyggju ásamt því að þakka fyrir okkar tíma saman í 50 ár.

Síðustu dagana áttum við spjall í einrúmi. Þú hafðir áhyggjur af mömmu, ástinni í lífi þínu. Ég gat sagt þér að við systkinin munum halda vel utan um mömmu, hún verður í góðum höndum með okkur.

Mig langaði að taka saman þessi örfáu minningabrot frá æsku minni í Eyjum, því sá tími var, umfram annan, okkar tími.

Elsku Valdi, við áttum okkar vináttu- og feðginasamband.

Þú varst mér alltaf góður.

Takk fyrir allt.

Þín dóttir,

Heiðrún.

Á sjöunda áratugnum hlustaði öll þjóðin á sömu útvarpsrásina, bæði talað mál og tónlist. Þar heyrðust margar söngraddir sem fundu samhljóm í þjóðarsálinni.

Ein þessara radda var alveg einstök karlmannsrödd. Hún var bæði djúp og dimm en að sama skapi mjúk og þýð og veitti vissa öryggiskennd.

Þorvaldur Halldórsson var bráðungur þegar hann söng sig upphaflega inn í hjörtu fjölmargra og söngurinn var ætíð hans aðalsmerki. Sá söngur varð mörgum til mikillar og varanlegrar blessunar því á seinni hluta áttunda áratugarins játaði Þorvaldur opinberlega kristna trú. Upp frá því söng hann einkum sinn trúarlega vitnisburð, Guði til dýrðar en samferðafólkinu til uppörvunar og uppbyggingar.

Stundum söng hann einn, stundum með öðrum og þá langoftast með Margréti Scheving, eiginkonu sinni. Þau voru samhuga og samstillt, ekki einungis í söngnum heldur í allri þjónustu í Guðsríki sem og í erli og baráttu daganna, í lífsins ólgusjó.

Aldrei söfnuðu þau veraldarauði en auðlegð þeirra fólst fyrst og fremst í því að miðla náð og kærleika Krists til annarra. Auk tónlistarinnar tóku þau á seinni árum virkan þátt í tólf spora starfi kirkjunnar og kyrrðarbænarstarfinu en höfðu áður gefið mikið af sér í Lútherskri hjónahelgi og starfi Ungs fólks með hlutverk.

Sem tónlistarmaður var Þorvaldur ómissandi í ýmsu helgihaldi öðru en hefðbundnum sunnudagsmessum. Hversdagsmessur í Grensáskirkju voru á fimmtudögum í meira en áratug meðan hans naut við. Eins má nefna kirkjustarf með fólki sem býr við fötlun, þriðjudaga með Þorvaldi í Laugarneskirkju, Kolaportsmessur, Tómasarmessur og helgistundir í Hátúni. Allar þessar samverustundir sótti fólk sem kom sjaldan til kirkju á sunnudögum. Rauði þráðurinn var í flestum tilvikum vitnisburður Þorvalds og Margrétar í tali og tónum, mörgum til blessunar. Þétt handtak eða hlýtt faðmlag í lok stundarinnar áréttaði velvild og umhyggju í garð þátttakenda.

Nú er þessi einstaka, sterka og hlýja rödd hljóðnuð en endurómar áfram í hjörtum margra okkar sem nutum. Guð blessi minningu Þorvalds Halldórssonar. Hann styrki einnig Margréti og allt fólkið þeirra.

Ólafur Jóhannsson.

Í virðingu og þökk er okkur ljúft og skylt að minnast Þorvaldar sem var um nokkura ára skeið starfsmaður Reykjavíkurprófastsdæmis eystra. Upphaflega var um að ræða tilraunarverkefni til eins árs þar sem hann var ráðinn til þess að spila við guðsþjónustur í kirkjum prófastsdæmisins og á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þorvaldur sló hins vegar strax í gegn og var verkefnið framlengt um nokkur ár eða allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Þorvaldur var alltaf mættur snemma til þess að stilla upp, hita raddböndin og biðja fyrir stundinni. Hann var einlægur trúmaður sem lagði líf sitt í Guðs hendur í bæn og nýtti þá náðargáfu sem Guð hafði gefið honum í þjónustu fagnaðarerindisins. Þegar hann tók sér stöðu við hljómborðið fór hann létt með að spila sálma og aðra tónlist á þann hátt að það var auðvelt að hrífast með. Hann vildi gjarnan að allir tækju undir í söng og með sinni kraftmiklu rödd átti hann auðvelt með að halda uppi og leiða söng, alltaf á sinn einstaka hátt. Sjálfur þekkti hann hve gott það var að leita Guðs í bæn og leyfa lofgjörðinni og þakkargjörðinni að eiga farveg í tónlistinni. Hann vildi lyfta upp tónlistinni á einfaldan hátt svo sem flestir gætu notið þess að lofa Guð og þakka í söng og bæn. Hann vildi þannig leyfa tónlistinni að bera boðskapinn og leit svo á að sjálfur væri hann verkfæri og bar þá ósk með sér að það mætti nýtast sem best til þess að vitna um þann Guð sem svo gott er að treysta á. Eftir að helgistundum á dvalar- og hjúkrunarheimilunum lauk var oft beðið með eftirvæntingu eftir því að hann tæki fram „hina möppuna“ eins og hann sagði. Oftar en ekki var þá byrjað á því að syngja Á sjó og síðan tók hann gjarnan vel valin dægurlög, sem gaf mikla gleði. Til fjölda ára sá hann einnig um tónlistina í Tómasarmessunum í Breiðholtskirkju og leiddi sönghóp sem af mikilli trúmennsku bar uppi messurnar. Trúarjátningarsálmurinn hans var orðinn fastur messuliður ásamt fleiri sálmum og söngvum sem hann samdi eða útsetti. Aldrei taldi hann það eftir sér að koma og spila og vissi hve fjölbreytt tónlist gæfi mikið í samfélagi kirkjunnar. Einlægur vitnisburður hans bæði í tali og tónum snerti við mörgum og gefandi hvernig hann minnti á náð Guðs og eilífa lífið sem hann gefur. Við minnumst Þorvaldar af hlýhug og þökkum trúfasta þjónustu hans fyrir kirkjuna. Margréti og fjölskyldu vottum við okkar dýpstu samúð. Minning hans lifi.

Bryndís Malla Elídóttir, Gísli Jónasson.

Að eiga vináttu Þorvaldar Halldórssonar var dýrmætt. Hann mætti okkur með sínu glaðbeitta og hlýja fasi og var alltaf hann sjálfur. Ég eignaðist fyrst vináttu minnar kæru Margrétar Scheving, konu hans, á kyrrðardögum í Skálholti, síðan leiddi eitt af öðru og við tvær ásamt Helgu St. Hróbjartsdóttur lögðum af stað með 12 spora starf Vina í bata í kirkjunni. Þegar Þorvaldur sá batann og breytinguna hjá konu sinni við sporavinnuna, ákvað hann að þetta vildi hann líka fá. Þar með eignuðust Vinir í bata öflugan liðsmann og góðan vin. Hann reyndist vel við mótun þessa starfs og við það hvernig við mætum nýliðum. Það var hægt að ræða málin frá öllum hliðum og spurningin um það hvort maður þyrfti að eiga kristna trú til að geta verið með var talsvert rædd og sumir vildu gera það að skilyrði en aðrir hafa algjört frelsi. Niðurstöðuna sem hópurinn samþykkti og enn er í fullu gildi, á Þorvaldur skuldlaust og hún er þessi: „Við sem leiðum starfið gefum ekki afslátt af okkar trú. Við erum í kirkjunni og okkar æðri máttur er Guð Biblíunnar eins og hann kynnir sig í Jesú Kristi. Við skilgreinum hann ekki að öðru leyti hér og hver og einn skilgreinir svo fyrir sig.“ Þannig var Þorvaldur, allt augljóst og vel úthugsað.

Það var gott að heimsækja og vera samvistum við þau hjónin, eins og þegar ég fór til þeirra á Selfoss í það sem Þorvaldur kallaði endurhæfingu sem það var svo sannarlega, ég var tekin með í morgunbæn, kirkjustarf, útivist og hvað eina sem í boði var. Þorvaldur eldaði hollan og góðan mat og ekki má gleyma samtölunum þar sem hægt var að ræða allt milli himins og jarðar, hvort sem það voru persónuleg mál, kirkjupólitík, guðfræðileg álitamál og svo auðvitað sporastarfið. Alltaf var Þorvaldur heill og sannur og sjálfum sér samkvæmur, því mátti treysta.

Það er ekki hægt að minnast Þorvalds án þess að tala um tónlistina sem var svo samofin honum og öllu hans lífi. Hann naut þess að þjóna með tónlist og sinni fallegu bassarödd. Við nutum þess í batamessunum og ef hann sá ekki sjálfur um tónlistina þá sat hann með okkur hinum og söng þannig að við þorðum líka að hefja upp raust og syngja með og þá þurfti engan kór. Svo benti Helga Hróbjarts svo skemmtilega á, að Þorvaldur væri eins og kirkjuklukkur þegar hann var að þjóna í Kolaportsmessunum og eins í útimessum á Þingvöllum, þá laðaði hann fólkið að með því að byrja á því fyrir messurnar að spila og syngja létt og falleg lög sem bárust um umhverfið, fólkið kom og svo hófst messan.

Já, hjartað er fullt af þakklæti fyrir lífið hans Þorvalds og allt sem hann var og það er líka trú fyrir því að nú hvíli hann öruggur í faðmi síns elskaða Guðs og njóti alls þess besta sem Guð gefur. Við biðjum líka um huggun, styrk og blessun fyrir Margréti og allri fjölskyldu þeirra beggja og öðrum nákomnum sem nú syrgja og sakna.

Margrét Eggertsdóttir.

Þakklæti er okkur efst í huga núna þegar við kveðjum kæran vin, Þorvald. Við þökkum fyrir tímann sem við áttum með þeim Grétu og við eigum margar góðar minningar og það er svo margt fallegt og skemmtilegt sem kemur upp í hugann. Fyrstu ár Elfu með þeim í Vestmannaeyjum í æskulýðsstarfinu, svo sönghópurinn í Grensáskirkju þar sem Þorvaldur og Gréta urðu til þess að við hjónin kynntumst. Svo stofnuðum við tríóið „Án skilyrða“ þar sem ferðast var um landið vítt og breitt og sungið og predikað í ýmsum kirkjum í landinu bæði í sveit og borg. Þorvaldur var eldheitur predikari sem þreyttist aldrei á að tala um kærleika Guðs sem var og er án skilyrða. Við bjuggum saman í um eitt ár á þessum tíma fyrst og frest til að draga úr kostaði og spara tíma svo hugsjónastarfið gengi upp. Hin síðari ár störfuðum við saman í Tómasarmessum í Breiðholtskirkju. Í þessu starfi nýttist það vel hvað Þorvaldur var mikið tónskáld og textahöfundur. Oft kom hann með nýtt lag á æfingu klukkustund fyrir messu sem svo var flutt fullæft og raddað þegar messan byrjaði. Mikil gleði og kærleikur var í öllum okkar samskiptum og það er þakkarvert. Þegar Palli veiktist alvarlega fyrir tveimur árum var gott að eiga stuðning frá þeim og vísar fyrirbænir.

Við höfum átt einstaka vináttu við þau Grétu sem við eigum ekki með neinum öðrum. Vináttu sem lýsir sér í virðingu og gleði. Þau voru kærleiksríkir leiðtogar og við litum oft á þau sem andlega foreldra okkar sem við vorum samferða í gegnum svo margt í lífinu.

Þau voru miklir áhrifavaldar í lifi okkar og miklar fyrirmyndir, sérstaklega hvernig þau komu fram hvort við annað í sínu hjónabandi og buðu okkur á sínum tíma á Lúterska hjólahelgi sem hefur verið stór hluti af okkar lífsstarfi. Ást þeirra var svo sýnileg og nær því áþreifanleg. Þau endurspegluðu kærleika Guðs.

Missir elsku Grétu er mikill og okkur skortir orð til að hugga hana á þessum erfiðu tímum, en Gréta, mundu að við verðum alltaf til staðar fyrir þig.

Kæra fjölskylda, okkar innilegustu samúðarkveðjur en á sama tíma vitum við að Þorvaldur vill að við fögnum því að hann er kominn heim. Þannig vildi hann að við tækjum fráfalli hans, hann er kominn í faðm Föðurins.

Þrátt fyrir þakklæti okkar fyrir að hafa fengið að verða samferða Þorvaldi og Grétu þá er hjarta okkar fullt af sorg að fá ekki aftur faðmlag og einlægt bros frá traustum vini.

Elfa og Páll (Palli).

Drottinn er minn hirðir.

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur

hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum þar sem

ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Þótt ég fari um dimman dal

óttast ég ekkert illt

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum.

Þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína

og í húsi Drottins

bý ég langa ævi.

(Davíðssálmur 23)

23. sálmur Davíðs konungs sem finna má í Biblíunni er án efa eitt þekktasta ljóð allra tíma. Lag við ljóðið gerði Margrét Scheving eiginkona Þorvaldar á sínum tíma og gerði Þorvaldur og þau hjón lagið og ljóðið algjörlega ógleymanlegt hér á landi enda sungið oftar en líklega flestir aðrir sálmar við guðsþjónustur eða við útfarir í íslensku þjóðkirkjunni og í fríkirkjum hvers konar.

Þorvaldur Halldórsson var brautryðjandi í síðari tíma íslenskri kirkjutónlist og eins í messuformi og svörum safnaðarins. Hann bæði samdi lög og texta og innleiddi nýjar nálganir og víddir í kirkjulegri tónlist á síðari hluta síðustu aldar, um aldamótin og fram á þessa öld með léttari og einlægri nálgun án þess að yfirgefa neitt af því sem fyrir var.

Ég var svo lánsamur að hafa starfað náið með Þorvaldi í Laugarneskirkju og reyndar víðar á þeim tíma sem ég nefndi og þykir mér afar vænt um minningar frá þeim tímum. Má nefna allar messurnar í Laugarneskirkju sem við þjónuðum saman í, kvöldsönginn á þriðjudagskvöldum þar sem þau hjónin leiddu sönginn og tónlistina. Þá vil ég nefna kvöldmessurnar á sunnudagskvöldum einu sinni í mánuði þar sem leikið var á flygil, rafmagnsgítar, trommur og bassa svo eitthvað sé nefnt. Gospelkvöldin hjá Öryrkjabandalaginu í Hátúni, messurnar í Kolaportinu og víðar. Reyndar messur út um borg og bý þar sem hann var um tíma ráðinn af Reykjavíkurprófastsdæmunum til að leiða tónlist í slíkum léttmessum um víðan völl. Þorvaldur var algjörlega einstakur og ómetanlegur og var það mikill heiður að fá að starfa með þessum ljúflingi á þessum vettvangi til fjölda ára. Minning hans verður lengi í minnum höfð og lifa björt.

Hann Þorvaldur valdi að lifa með himininn í hjartanu. Og síðasta kveðja hans til okkar vina hans á Facebook var ósk um fyrirbæn í þeim erfiðu heilsufarsaðstæðum sem hann þá var kominn í. Endaði hann kveðjuna og óskina með því að vitna í einkunnarorð undirritaðs vinar síns, Lifi lífið, sem hann tók svo einlæglega og innilega undir.

Með himininn í hjartanu

Himneskt

er að vera

með vorið

vistað í sálinni,

sólina

og eilíft sumar

í hjarta.

Því hamingjan

felst í því

að vera með

himininn

í hjartanu.

Lifi lífið!

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Já, lifi lífið, elsku vinur, dýrmæti samherji og ómetanlegi samstarfsmaður til margra ára. Kærleikans Guð blessi þér heimkomuna. Margréti og fjölskyldu ykkar og öllum þeiim sem þér tengdust á einn eða annan hátt votta ég samúð.

Blessuð sé minning og arfleifð Þorvaldar Halldórssonar.

Sigurbjörn Þorkelsson.