Þyrnar Eitt af verkum Hallgerðar sem mun prýða tjöldin milli súlna Hallgrímskirkju.
Þyrnar Eitt af verkum Hallgerðar sem mun prýða tjöldin milli súlna Hallgrímskirkju.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þegar ég lagði af stað í þetta verkefni þá byrjaði ég á að lesa um Hallgrím og ég heimsótti staði þar sem hann bjó og þær kirkjur sem tengjast honum. Þetta eru Grafarkirkja á Höfðaströnd, Hóladómkirkja í Hjaltadal, Hvalsneskirkja á…

viðtal

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þegar ég lagði af stað í þetta verkefni þá byrjaði ég á að lesa um Hallgrím og ég heimsótti staði þar sem hann bjó og þær kirkjur sem tengjast honum. Þetta eru Grafarkirkja á Höfðaströnd, Hóladómkirkja í Hjaltadal, Hvalsneskirkja á Reykjanesi, Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, Hallgrímskirkja sem áður stóð í Saurbæ en er nú í Vindáshlíð í Kjós og Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti,“ segir Hallgerður Hallgrímsdóttir myndlistarkona, en henni var falið að vinna verk út frá lífi og list Hallgríms Péturssonar og samþætta sýninguna öllum kirkjustöðum sem tengjast lífi hans. Sýning Hallgerðar opnar á morgun sunnudag í Hallgrímskirkju í Reykjavík undir heitinu Hallgrímshorfur, en hún er hluti af dagskrá í tilefni af því að 350 ár eru liðin frá dánardægri Hallgríms í haust.

„Í byrjun var ég hissa að Inga [Jónsdóttir] sýningarstjóri hefði ákveðið að leita til mín til að takast á við þetta verkefni, þar sem mín myndlist er með áherslu á ljósmyndun. Ljósmyndamiðillinn var fundinn upp miðja vegu milli mín og Hallgríms, en 370 ár eru á milli fæðingardaga okkar. Ljósmyndamiðillinn á sterkar rætur í augnablikinu, í heiminum eins og hann er, og þá getur verið áskorun að reyna að gera tímalausar ljósmyndir eða myndir sem teygja sig aftur í tímann. Ég myndaði kirkjurnar og umhverfi þeirra, en þar rakst ég á fólk sem hafði tengingar við Hallgrím, á sinn hátt. Ég spurði líka ömmu mína og kórfólk sem ég veit að hefur sungið ljóð hans, hvaða sálmur væri í uppáhaldi hjá þeim. Þetta gerði ég til að reyna að skilja tenginguna sem íslenska þjóðin hefur við Hallgrím. Við höfum flest hitt hann fyrir, held ég, með einhverjum hætti, en fegurðin í hans skáldskap er sú að hann er ekki of upphafinn. Hann er mannlegur og breyskur og við getum öll tengt við það. Hann býr líka yfir einhverjum sjarma, en í ljóðmælum hans sem eru ekki trúarlegs eðlis, skín húmor og lífsgleði skýrt í gegn. Ég er sannfærð um að þessir eiginleikar hans séu stór hluti af því að hann náði þessum stað í hjarta þjóðarinnar. Hann talaði um að leika sér og var með hnyttin tilsvör. Hann hefur ábyggilega verið skemmtilegur maður.“

Stóra sorgin okkur báðum innblástur

Hallgerður telur að sennilega hafi ekki verið algengt á þeim tíma sem Hallgrímur var uppi, að fólk hafi talað svo opinskátt um ástina, líkt og Hallgrímur gerir í því sem hann orti til Steinunnar dóttur sinnar, eftir að hún dó á barnsaldri.

„Hún var augasteinn foreldra sinna og hann yrkir undurfagurt til Steinunnar. Sumir halda því fram að þar hafi opnast flóðgáttir hjá Hallgrími fyrir skáldskapinn, að þetta stóra tráma í hans lífi hafi orðið til þess að hann ákvað að sinna listinni. Hann hefur kannski sest niður, rétt eins og svo mörg gera í dag, og hugsað: Hvað vil ég gera í lífinu og hvað vil ég skilja eftir mig? Við getum tengt við þessa þríþættu ástarsögu, ást hans til Guðríðar Símonardóttur eiginkonu sinnar, til barnanna og stóru ástina til almættisins. Ég tengi sérstaklega við texta Hallgríms um Steinunni, því ég fæddi andvana barn fyrir nokkrum árum. Stóra sorgin hefur verið okkur báðum innblástur til listsköpunar. Ég ákvað að gera listaverk um ástina, en um leið líta á það sem gott tilefni til að vera smá væmin og einlæg, sem myndlistarheimurinn er ekki alltaf til í.“

Hallgerður segist líka hafa hugsað um Hallgrím í hversdeginum.

„Því ástin og hamingjan eru í hversdeginum, í litlu augnablikunum. Þannig fann ég mína leið að Hallgrími, ég fór að skoða allar myndirnar sem ég hef tekið af mínu hversdagslega heimilislífi, manninum mínum og börnunum mínum og fann þar það sem ég kalla bænir til augnabliksins. Ég ímynda mér að Hallgrímur hafi líka verið að borða morgunmat með sínum börnum, eða horft til veðurs. Ég tók því myndir af himninum á þeim stöðum sem hann bjó, þá horfi ég upp í sama himin og Hallgrímur en á sama tíma allt annan himin. Þetta snýst líka um að sætta sig við að tíminn líður, getur aldrei verið sá sami. Ég get ekki tekið myndar af himninum frá árinu 1650, en ég get horft á sömu fjöll og Hallgrímur, sem kannski hafa breyst eitthvað en ég held að hann myndi samt kannast við sig í Hvalfirði nútímans.“

Að fæðast, lifa, eldast og deyja

Hallgerður segir að sýning hennar, Hallgrímshorfur, sé í nokkrum hlutum.

„Einn hluti verksins verður í anddyri Hallgrímskirkju, myndir frá kirkjunum sem tengjast Hallgrími og umhverfi þeirra. Síðan er sá hluti sem ég kalla í huganum sálma, eða bænir til augnabliksins, litlar hversdagsmyndir úr mínu lífi, sem hanga eftir kirkjuskipinu endilöngu. Milli súlna í kirkjunni blakta síðan tjöld sem ég hef prentað á ljósmyndir, til dæmis af afskornum blómum, sem kallast á við pælingar Hallgríms um lífið og dauðann, að fæðast, lifa, eldast og deyja. Á tjöldunum verða einnig myndir af skýjum, himni og vatni, en ég ákvað að dýfa mér ofan í myndmál kirkjulistarinnar þar. Þetta eru létt tjöld sem ég vonast til að bærist. Einn hluti verksins er í kirkjukórnum, fyrir aftan altarið, en þar eru fimm stórir gluggar og í þá alla nema þann sem er fyrir miðju, set ég límfilmur með landslagi frá þeim fjórum stöðum sem vitað er um að Hallgrímur hafi búið á. Gröf á Höfðaströnd, Hólar í Hjaltadal, Hvalsnes og Saurbær í Hvalfirði. Þetta eru ljósmyndir með útsýni sem hann myndi kannski kannast við. Horfurnar eru þarna, að við horfum á útsýni sem við höfum núna og horfum kannski til framtíðar, en líka til fortíðar, til Hallgríms.“

Birtan mun leika í tjöldunum

Hallgerður segir að það hafi verið mikil áskorun að takast á við þá stóru byggingu Guðjóns Samúelssonar, sem Hallgrímskirkja er. „Þetta kennileiti Reykjavíkur, þessi dásamlega kirkja, hvernig nálgast myndlistarmaður þennan arkitektúr án þess að keppa við hann? Ég hlakka mjög til að sjá hvernig birtan mun leika í tjöldunum milli súlnanna og ég vonast til að gestir kirkjunnar muni ferðast aðeins öðruvísi en venjulega um bygginguna. Það myndast rými milli súlna og ytri veggja, og þar fær fólk aðeins meiri frið og ró til að eiga sín augnablik með litlu myndunum,“ segir Hallgerður og bætir við að Hallgrímskirkja hafi mörgum hlutverkum að gegna.

„Nýlega var þar vígður biskup, þar eru börn skírð, unglingar fermdir, fólk gefið saman í hjónabönd og þar fara fram útfarir þegar fólk er kvatt hinsta sinni. Þar er ríkt tónlistarlíf, kirkjan er hús utan um ótal tónleika. Hún er líka Mekka erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland.“

Opnun á sýningu Hallgerðar, Hallgrímshorfur, verður eftir messu í Hallgrímskirkju á morgun sunnudag 8. sept. kl. 12. Í tilefni af 350. minningarári Hallgríms hefur mikið verið um að vera í kirkjunni í tónlist, máli og myndum og verður áfram, m.a. Hallgrímshátíð í lok óktóber. Allar nánari upplýsingar eru á vefnum hallgrimskirkja.is.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir