Ljósin tendruð Margmenni er jafnan samankomið í Viðey þennan dag.
Ljósin tendruð Margmenni er jafnan samankomið í Viðey þennan dag. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Framkvæmdir við endurbætur á Friðarsúlunni í Viðey hafa staðið yfir í sumar. Á þeim að ljúka áður en súlan verður tendruð, þann 9. október næstkomandi, á afmælisdegi tónlistarmannsins Johns Lennons. Í minnisblaði um framkvæmdina, sem kynnt var í…

Framkvæmdir við endurbætur á Friðarsúlunni í Viðey hafa staðið yfir í sumar. Á þeim að ljúka áður en súlan verður tendruð, þann 9. október næstkomandi, á afmælisdegi tónlistarmannsins Johns Lennons.

Í minnisblaði um framkvæmdina, sem kynnt var í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur, kemur fram að alllengi hafi legið fyrir að ráðast þurfi í endurbætur á Friðarsúlu Yoko Ono í Viðey.

Verkefnið er í meginatriðum tvíþætt, annars vegar endurbætur og uppfærslur á tæknibúnaði og hins vegar lagfæringar á „óskabrunni“ sem ljóssúlan rís upp úr. Þá þarf að laga pall umhverfis brunninn, sem þakinn er þrenns konar íslensku grjóti.

Ítalir vinna verkið

Í kjölfar verð- og hæfnikönnunar var samið um smíði og uppsetningu tæknibúnaðar við ítalska framleiðendur sem komu að smíði og uppsetningu tæknibúnaðarins í upphafi. Búnaður var fluttur til landsins í sumar og út í Viðey 23. júlí, þar sem tæknimenn frá fyrirtækinu unnu að uppsetningu fram í ágúst.

Vinnan gekk samkvæmt áætlun og hefur búnaður verið prófaður og virkar vel. Fyrir liggur að fínstilla geislann í lok september. Viðgerð á steinlögn er hafin og á henni að ljúka fyrir tendrun friðarsúlunnar þann 9. október.

Verkefnið nú er fjármagnað af sömu aðilum og stóðu að gerð Friðarsúlunnar; Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur og sjóði á vegum Yoko Ono. Kostnaður er áætlaður tæpar 33 milljónir króna.

Friðarsúlan í Viðey er listaverk eftir Yoko Ono sem hún tileinkaði eiginmanni sínum, John Lennon. Friðarsúlan er tendruð á fæðingardegi hans, 9. október, ár hvert og slökkt á henni á dánardegi hans, 8. desember, en hann var myrtur árið 1980.

Friðarsúlan er ljóskastari, sem lýsir upp himininn. Ljóssúlan er samansett úr mismunandi geislum sem sameinast í einu sterku ljósi.

Listaverkið var tekið í notkun 9. október 2007 og var það Yoko Ono sem tendraði súluna í fyrsta skipti. sisi@mbl.is